Fótbolti
Sindri Sverrisson
sindris@mbl.is
„Ég er gríðarlega ánægður með þetta og stoltur af að fá að leiða liðið áfram næstu skref. Þetta er mjög krefjandi og skemmtilegt verkefni,“ sagði Rúnar Páll Sigmundsson, nýr aðalþjálfari karlaliðs Stjörnunnar í knattspyrnu. Rúnar Páll var aðstoðarþjálfari Loga Ólafssonar sem var rekinn í haust þrátt fyrir að Stjarnan næði 3. sæti Pepsi-deildarinnar og fengi silfur í bikarnum. Uppsögnin kom Rúnari í opna skjöldu en hann fagnar því að geta nú stýrt sínu uppeldisliði.
„Við Logi vorum bara byrjaðir að undirbúa næsta ár saman og héldum að þetta yrði bara þannig. Þetta kom mér jafnmikið á óvart og öllum öðrum. Við Logi höfum verið í góðu sambandi eftir að þetta gerðist og rætt málin mikið saman, og hann vissi alveg að ég myndi sækja um þetta starf enda veit hann hvaða metnað ég hef í því. Það var ekkert markmið hjá mér að verða aftur aðalþjálfari á þessum tímapunkti, ég ætlaði bara að vera áfram með Loga eitt ár í viðbót og sjá svo til,“ sagði Rúnar, sem hefði viljað sjá forráðamenn Stjörnunnar koma fram af meiri hreinskilni við Loga.
Leiðinlegt hvernig að þessu var staðið
„Auðvitað var leiðinlegt hvernig að þessu var staðið, allt það ferli. Sjálfsagt hefði það mátt vera öðruvísi og ég hefði kannski frekar viljað taka eitt ár enn með Loga og taka frekar við af honum ef hann hefði hætt á næsta ári. En þjálfarastarfið er hverfult og maður veit aldrei hvenær maður fær tækifæri, og hvenær maður er rekinn. Við vitum það sem störfum í þessu umhverfi. Auðvitað má gagnrýna hvernig þetta var gert, það hefði átt að koma hreint og beint fram við Loga, en það er búið og við horfum fram á veginn,“ sagði Rúnar.Rúnari er nú falið að byggja ofan á besta árangur í sögu Stjörnunnar, stýra liðinu í Evrópukeppni og keppa um titla:
Spennandi fyrir alla þjálfara með metnað
„Þetta er mitt uppeldisfélag og auðvitað alveg stórkostlegt að fá þetta tækifæri. Sérstaklega þegar uppgangurinn er svona mikill. Liðið er eitt af þeim betri í dag og þetta er mjög spennandi starf fyrir alla þjálfara með metnað. Markmiðið er áfram að ná í Evrópukeppni. Við erum með stóran og öflugan hóp.“Rúnar Páll reiknar með að halda stærstum hluta leikmannahópsins frá síðustu leiktíð. Martin Rauschenberg er þó farinn heim aftur úr láni frá Esbjerg, Robert Sandnes er að skoða möguleikann á að komast til liðs í Noregi, og óvíst er með Kennie Chopart, Michael Præst og Jóhann Laxdal sem eru samningslausir.
Samhliða því að aðstoða Loga var Rúnar Páll, sem hefur áður þjálfað Levanger í Noregi og HK hér heima, þjálfari 2. flokks Stjörnunnar. Hann gerði liðið að Íslandsmeisturum en samkvæmt heimildum Morgunblaðsins var óánægja með það innan Stjörnunnar að Logi gæfi strákunum úr 2. flokki ekki næg tækifæri með meistaraflokki. Verður breyting á með ráðningu Rúnars?
„Ég ætla ekkert að gagnrýna störf Loga enda var okkar samstarf mjög gott og heilt. Ég hef unnið með 2. flokkinn og veit að þar eru mjög efnilegir strákar, sem flestallir eru hins vegar á miðári og þurfa að vera þolinmóðir. Það vilja allir spila í úrvalsdeild en menn verða að sýna og sanna að þeir ráði við það. Ég er ekki að fara að gefa ungum strákum tækifæri „af því bara“. Þeir þurfa að ráða við að spila með einu af toppliðum landsins,“ sagði Rúnar Páll, sem verður fertugur um það leyti sem nýtt Íslandsmót hefst í maí.
Rúnar Páll Sigmundsson
» Rúnar Páll er 39 ára gamall og samdi við Stjörnuna til þriggja ára.
» Rúnar Páll hefur þjálfað lið í meistaraflokki síðustu sex ár. Hann stýrði HK í úrvalsdeild og 1. deild árin 2008 og 2009, og Levanger í Noregi árin eftir það þar til hann varð aðstoðarþjálfari hjá Stjörnunni í fyrra.
» Rúnar Páll er uppalinn Stjörnumaður og lék með liðinu stærstan hluta ferils síns sem leikmaður, en einnig með Fram og HK.