Kamilla Sveinsdóttir fæddist í Djúpuvík á Ströndum 7. maí 1942. Hún lést á Sydvestjysk Sygehus í Esbjerg 9. október 2013.

Útför Kamillu fór fram frá Kvaglundkirkju í Esbjerg 16. október 2013.

Það er svo tæpt að trúa heimsins glaumi

því táradaggir falla stundum skjótt

og vinir berast burt á tímans straumi

og blómin fölna' á einni hélunótt –

(Jónas Hallgrímsson)

Þetta brot úr vísum Íslendinga kom upp í hugann þegar ég frétti lát Millu frænku minnar. Ekki hvarflaði að nokkrum manni á ættarmótinu í Djúpuvík sl. sumar að þetta væri í síðasta skipti sem hún yrði með okkur. Bernskuárin eru mér ofarlega í huga. T.d. haustkvöldin þegar dimmt var orðið og við krakkarnir fjölmenntum til Sveinsínu, sem sagði okkur draugasögur og sögur af ýmsum óvættum. Oft vorum við orðin svo myrkfælin að við þorðum varla heim. Á sumrin voru fjörur stundum gengnar með Sveinsínu og Alexander og safnað saman sprekum sem svo voru notuð sem eldiviður. Ósjaldan var farið í berjamó og ekki óalgengt að drjúgur hluti berjanna rataði í munn og maga þess sem tíndi. Það var mikið spilað á Djúpuvík, ekki síst á vetrarkvöldum. Oftast var spilað heima hjá afa og ömmu og eiginlega alltaf bridge. Það var talið aðkomumönnum til tekna ef þeir kunnu það spil. Þar sem mæður okkar voru systur og feður okkar uppeldisbræður var alltaf mikill samgangur milli fjölskyldnanna. Þar að auki bjugguð þið í sama húsi og amma og afi. Margt var brallað á þessum árum sem mæltist misvel fyrir hjá þeim fullorðnu og verður ekki rakið hér.

Eftir að Milla flutti til Danmerkur kom hún oft til Íslands, einkum hin síðari ár. Þegar Ágúst bróðir minn hélt upp á sextugsafmælið sitt í félagsheimilinu í Trékyllisvík var Milla meðal veislugesta. Hún naut þess að hitta þar jafnaldra sína og aðra fyrrverandi sveitunga. Í þeirri ferð kom hún í fyrsta sinn í heimsókn til okkar Hönnu í húsið í Djúpuvík. Hún gladdist mjög við að koma þangað og sjá þær endurbætur og breytingar sem við höfðum gert á því. Síðan átti hún eftir að koma nokkrum sinnum til okkar í húsið, síðast á ættarmótinu í sumar. Á 50 ára fermingarafmæli '42-árgangsins frá Árneshreppi fór hún með Ágústi og Ásu norður á Munaðarnes þar sem hún naut félagsskapar með jafnöldrum sínum og mökum þeirra. Mikið var gaman að gleðjast með þér, Milla mín, þegar þú hélst upp á sjötugsafmælið þitt með ættingjum og vinum. Þess skal að lokum getið að í sumar færði hún okkur Hönnu gjöf, sem okkur þykir mjög vænt um. Við lítum nú á þessa gjöf sem kveðjugjöf. Við munum sakna símtalanna frá Danmörku rétt fyrir jólin. Þau verða ekki fleiri.

Innilegar samúðarkveðjur sendum við fjölskyldu Millu og biðjum þeim Guðs blessunar.

Magnús Guðmundsson.