Aftaka undirbúin í Teheran.
Aftaka undirbúin í Teheran.
Írönsk stjórnvöld hafa ákveðið að þyrma lífi manns sem taka átti af lífi nýverið en lifði af aftökuna. Íranskir fjölmiðlar hafa þetta eftir dómsmálaráðherra landsins, Mostafa Pour-Mohammadi.

Írönsk stjórnvöld hafa ákveðið að þyrma lífi manns sem taka átti af lífi nýverið en lifði af aftökuna. Íranskir fjölmiðlar hafa þetta eftir dómsmálaráðherra landsins, Mostafa Pour-Mohammadi.

Maðurinn, sem kallaður er Alireza M í fjölmiðlum, var fundinn sekur um smygl á einu kílói af metamfetamíni fyrr á árinu en við þeim glæp liggur dauðarefsing í Íran. Alireza M, sem er 37 ára tveggja barna faðir, var því dæmdur til dauða og taka átti hann af lífi fyrir tveimur vikum. Snara var sett um háls hans og Alireza M látinn hanga eins og lög gera ráð fyrir í tólf mínútur uns læknir úrskurðaði hann látinn.

Reyndist vera á lífi

Að því búnu var hann fluttur í líkhús, þar sem plasti var vafið utan um „líkið“. Degi síðar vakti það grunsemdir starfsmanna líkhússins að móða var á plastinu og var því flett af. Kom þá í ljós að „hinn látni“ var með lífsmarki. Hann var vitaskuld sendur með hraði á spítala en talsmaður stjórnvalda í Íran lét þegar í stað hafa eftir sér að dómnum yrði framfylgt. Alireza M yrði hengdur um leið og hann hefði heilsu til.

Mannréttindasamtök víða um heim biðluðu til stjórnvalda í Íran um að þyrma lífi mannsins og hafa stjórnvöld nú ákveðið að hætta við aftökuna enda hefði það slæm áhrif á ímynd landsins.

Skrifstofa helsta lögspekings Írans, ayatollah Lotfollahs Safis Golpayganis, sendi í síðustu viku frá sér yfirlýsingu þess efnis að hann liti svo á að öðru máli gegndi um örlög Alireza M en annarra brotamanna. Fram að því höfðu menn einmitt vísað til lagatúlkunar Golpayganis þegar þeir héldu því fram að óhjákvæmilegt væri að framfylgja dómnum yfir Alireza M. guna@mbl.is