Anna Lilja Þórisdóttir
annalilja@mbl.is
„Við erum með listasafn, bókasafn, héraðsskjalasafn og byggðasafn sem skiptist svo í nokkur minni söfn. Þetta er mikill safnakostur fyrir ekki stærri bæ,“ segir Vala Björg Garðarsdóttir, fornleifafræðingur og yfirmaður safnamála á Hornafirði. Hún tók við starfinu á Höfn í sumar. Áður bjó hún erlendis um margra ára skeið, en segist nú vera komin heim.
„Ég er fædd og uppalin á Höfn og bjó þar í 14 ár. Ég bjó í tíu ár erlendis og í átta ár á höfuðborgarsvæðinu og mér finnst Höfn vera sá staður sem ég á í rauninni mest heima á,“ segir Vala.
Auk reksturs safnanna falla ýmsir menningarviðburðir undir safnamál í bænum. „Það er töluvert um tónleika, fræðimenn, rithöfunda og ýmsa listamenn sem koma og halda námskeið eða eru með upplestur. Við erum líka að virkja meira barna- og unglingastarf á vegum safnsins. Við höldum fræðakvöld fyrir níu ára og eldri þar sem ýmsum klassískum spurningum á borð við: Hvernig Ísland varð til, hvernig maðurinn varð til eða hverjir víkingarnir voru verður svarað á skemmtilegan hátt. Við fáum leikhópa fyrir yngri krakkana, og höldum þematengda húslestra þar sem m.a. er fjallað um Narníu eða Astrid Lindgren. Svo förum við líka í vettvangs- og ævintýraferðir á sumrin, t.d. upp í Lón að safna jurtum eða flokka steina.“
Spurð um aðsókn á söfnin á Höfn segir Vala að í fyrra hafi gestir þeirra verið um 2.000 talsins. „Það er kannski ekkert sérlega mikið og vonandi náum við að breyta því í framtíðinni með einhverjum hætti.Við erum með ýmsar hugmyndir um það.“
Safnakjarni við höfnina
Nýir tímar eru framundan í safnamálum á Höfn, en þessa dagana er unnið að undirbúningi nýs Höfuðsafns Hornafjarðar. „Gömul verbúð við höfnina verður gerð upp, við hliðina á Gömlubúð sem er gamalt verslunarhús. Við sjáum fyrir okkur að þarna við höfnina verði safnakjarni, þar verði veitingaaðstaða, aðstaða til að stunda skapandi greinar og að þarna verði undir sama þaki náttúrugripasafn, jöklasafn, sjóminjasafn og byggðasafn.“ Að sögn Völu er gert ráð fyrir að framkvæmdir hefjist fljótlega eftir áramót.Hún er með fleiri járn í eldinum og vinnur að því að koma af stað rannsóknaráætlun um fornleifarannsóknir í Skaftafellssýslu. „Það eru engar rannsóknir í gangi núna og saga fornleifarannsókna hér í Hornafirði er svolítið óskrifuð ennþá. Það er heilmikið sem bíður rannsóknar og þetta er mjög spennandi svæði að því leyti.“
Virkilega þannig á Höfn
Eiginmaður Völu er Auðun Helgason lögfræðingur, sem lengi starfaði sem atvinnumaður í knattspyrnu víða um heim og við þjálfarastörf. Hann hefur þegar fengið starf sem lögfræðingur á Höfn og segir Vala hann hlakka til að takast á við þau störf á nýjum vettvangi. Saman eiga þau þrjú börn og Vala segir samfélagið á Höfn sérlega barnvænt og hentugt ungu fjölskyldufólki.„Það er kannski klisja að segja að það sé svo gott að vera með börn úti á landi, en það er virkilega þannig á Höfn. Það er svo vel staðið að íþróttalífinu og tónlistarnáminu, hér eru engir biðlistar eins og víða á höfuðborgarsvæðinu. Það er ekkert hægt að bera þetta saman. Svo er fólk hérna svo opið fyrir alls konar menningarstarfi. Þannig að það er óskaplega gott að búa hérna.“
Tenging fornminja og sagna
Vala var handritshöfundur og kynnir í þáttunum Ferðalok sem sýndir voru á RÚV síðasta vetur. Í þáttunum var farið yfir ýmsa atburði úr Íslendingasögunum og þeir tengdir fornminjum.Leikin atriði úr Íslendingasögunum settu mikinn svip á þættina, sem voru framleiddir af Vesturporti. „Önnur þáttaröð er í farvatninu,“ segir Vala spurð um hvort framhalds sé að vænta. „Ég er a.m.k. búin að skrifa handrit að nýrri seríu.“