Franz-Peter Tebartz-van Elst
Franz-Peter Tebartz-van Elst
Frans páfi hefur vikið þýskum biskupi, Franz-Peter Tebartz-van Elst, frá störfum tímabundið vegna rannsóknar á fjárreiðum hans.

Frans páfi hefur vikið þýskum biskupi, Franz-Peter Tebartz-van Elst, frá störfum tímabundið vegna rannsóknar á fjárreiðum hans. Biskupinn er sakaður um að hafa eytt meira en 31 milljón evra, jafnvirði rúmra fimm milljarða króna, í endurbætur á byggingum sem tilheyra biskupsembætti hans.

Formaður samtaka kaþólskra leikmanna fagnaði þeirri ákvörðun páfa að víkja biskupnum frá störfum.

Elst, sem er biskup af Limburg, fór til Rómar í vikunni sem leið til að ræða við Frans páfa. Vakti athygli að hann ákvað að nýta sér flugþjónustu lággjaldafélagsins Ryanair en biskupinn er þekktur fyrir munaðarlíf sitt. Hann hefur m.a. verið gagnrýndur fyrir að hafa ferðast á fyrsta farrými þotu til Indlands nýverið til að heimsækja fátæka Indverja.

Lagt hefur verið fast að biskupnum að segja af sér eftir að hann var sakaður um að hafa borið ljúgvitni í eiðsvarinni yfirlýsingu um fjárreiður sínar.

Upphaflega áttu endurbæturnar á byggingum biskupsembættisins að kosta jafnvirði 900 milljóna króna en kostnaðurinn reyndist vera rúmir fimm milljarðar króna. Í byggingunum eru meðal annars safn, ráðstefnusalir og íbúðir. Endurbætur á bústað biskupsins kostuðu jafnvirði 480 milljóna króna.