Kraftakona Lilja hóf að æfa aflraunir af fullum krafti árið 2010. Hún stefnir að því að verða sterkust í heimi.
Kraftakona Lilja hóf að æfa aflraunir af fullum krafti árið 2010. Hún stefnir að því að verða sterkust í heimi. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðar Guðjónsson vidar@mbl.is Lilja Björg Jónsdóttir hóf að æfa aflraunir af krafti árið 2010 og nú, þremur árum síðar, er hún fjórða sterkasta kona heims í sínum þyngdarflokki. „Ég verð öflugri andlega og líkamlega með hverju árinu sem líður.

Viðar Guðjónsson

vidar@mbl.is

Lilja Björg Jónsdóttir hóf að æfa aflraunir af krafti árið 2010 og nú, þremur árum síðar, er hún fjórða sterkasta kona heims í sínum þyngdarflokki. „Ég verð öflugri andlega og líkamlega með hverju árinu sem líður. Ég finn það,“ segir Lilja. Spurð hvernig maður nær svona miklum árangri á svo stuttum tíma áréttar Lilja að hún hafi verið viðloðandi líkamsrækt og lyftingar síðustu 10-15 árin ásamt eiginmanni sínum, Guðna Þór Valþórssyni, en hún hafi byrjað að æfa af krafti árið 2010. „Vinkona mín skráði mig í sterkustu konu Íslands og eftir það fóru hjólin að snúast. Ég hef fengið boð um að keppa í Noregi og Svíþjóð, en maður þarf að velja og hafna í þessu þar sem það er dýrt að fara og keppa,“ segir Lilja sem fengið hefur styrki frá fólki og fyrirtækjum á Hornafirði til að geta sótt aflraunakeppnir og er hún þeim afar þakklát.

Lilja er 36 ára og æfði frjálsar íþróttir og körfubolta í æsku. „Ég ætla að vera að eins lengi og ég get. Bryndís Ólafsdóttir er enn í þessu og hún er 45 eða 46 ára. Hún er sterkasta kona Íslands og hefur verið það í mörg ár,“ segir Lilja en Bryndís keppir í mínus 84 kg flokki og Lilja í mínus 75 kg flokki.

Eins og gefur að skilja reynir Lilja að borða hollan og góðan mat, en hún er lítið fyrir öfgarnar. „Maður á bara að borða venjulegan mat. Próteinríkan og kolvetnaríkan mat,“ segir Lilja sem vinnur í sjoppu. Hún segist nær alfarið halda sig frá namminu. „Ég fæ mér reyndar súkkulaðirúsínur – stundum,“ segir Lilja og hlær.

Aflraunafjölskylda

Hún segist hafa fengið mjög jákvæða athygli hjá fólki vegna árangurs síns. „Maður hefur m.a. fengið athygli hjá stelpum og þetta er alveg hægt. Við stelpurnar getum þetta alveg. En það þarf að huga að því að þetta er vinna og maður nær ekki langt nema fjölskyldan sé með manni í þessu,“ segir Lilja. Hún á tvö börn, þau Hannes Þór, fimm ára, og Ólöfu Ósk, níu ára. Að sögn Lilju koma þau á öll kraftlyftingamót til að styðja mömmu sína. Eiginmaðurinn Guðni skýtur í þann mund inn sögu af syninum Hannesi. „Í sumar stóðum við í framkvæmdum á lóðinni hjá okkur þegar móðir jafnaldra Hannesar átti leið hjá. Hún spurði okkur hvað við værum að gera og ég útskýrði fyrir konunni að við værum að búa til æfingaaðstöðu fyrir Lilju úti í garði. Þá sagði konan: Þetta er orðið alveg hroðalegt. Drengurinn minn spurði mig um daginn: Af hverju ert þú ekki jafnsterk og mamma Hannesar,“ segir Guðni og hlær við. Lilja skýtur því inn í að Hannes sé farinn að bera mömmu sína saman við pabba vina sinna. Hlæjandi segir hún að það liggi við að Hannes segi „mamma mín er sterkari en pabbi þinn“ þegar hann er að metast við vini sína.

Væri milljónamæringur

Lilja segir að mikill áhugi sé á kraftlyftingum á Höfn. Hún væri sennilega orðin milljónamæringur ef hún rukkaði fyrir það í hvert sinn sem karlmenn vilja fara í sjómann við hana. „Ég fer ekki í sjómann, það er bara þannig,“ segir Lilja. Hún segir að markmiðin til framtíðar séu að verða sterkasta kona Íslands, þar sem hún hefur best náð öðru sæti, og sterkasta kona heims. Hún telur það raunhæfan möguleika.

Guðni þjálfar Lilju en hann var áður mikið í kraftlyftingum. Hann er járnsmiður og hefur útbúið fjölda sérhannaðra aflraunatækja sem þau eru með í garðinum hjá sér. Lilja segir aflraunirnar gefa sér mikið. „Þetta er gaman, og mikil útrás. Svo gefur þetta manni mikið sjálfstraust. Maður finnur það sérstaklega eftir æfingar, því manni líður svo vel,“ segir Lilja.

Ánægð með árangurinn

Í byrjun mánaðarins keppti Lilja í keppninni Sterkasta kona heims, í mínus 75 kg flokki, í Glasgow í Skotlandi. Lenti hún í fjórða sæti og var að vonum afar ánægð með árangurinn. „Ég vann eina grein og það var frábært að vera alltaf í toppbaráttunni í öllum greinum,“ segir Lilja. Hún var að eigin sögn 5-7 stigum frá þriðja sætinu. „Það er ekki slæmt að vera fjórða sterkasta kona heims,“ segir Lilja og hlær.