Sviðsljós
Björn Jóhann Björnsson
bjb@mbl.is
Nýr Norðausturvegur til Vopnafjarðar var formlega opnaður í gær þegar Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra klippti á borða með aðstoð Hreins Haraldssonar vegamálastjóra. Meðal viðstaddra voru Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra, Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra og fleiri þingmenn kjördæmisins, auk heimamanna, Vegagerðarmanna og verktaka. Að vígsluathöfn lokinni var gestum og íbúum boðið til kaffisamsætis í félagsheimilinu Miklagarði á Vopnafirði.
Verkið hefur verið unnið í nokkrum áföngum allt frá árinu 2000. Um er að ræða mikla samgöngubót fyrir Vopnfirðinga og nærsveitamenn, sem komnir eru í betri tengingu við hringveginn með heilsársvegi um Háreksstaðaleið og enn betra vegasamband við Norður- og Austurland.
Lagður var um 49 km langur stofnvegur frá hringvegi til þéttbýlisins í Vopnafirði og nærri 7 km tengivegur milli Vesturárdals og Hofsárdals, svonefnd Millidalaleið. Nýr Norðausturvegur styttir leiðina frá þéttbýlinu í Vopnafirði til Egilsstaða um 18 km og leiðina til Akureyrar um 1 km. Áætlaður heildarkostnaður við framkvæmdina, á núvirði, er um 3,2 milljarðar króna, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni.
Fyrsta ákvörðun 1998
Forsaga þessara framkvæmda er sú að árið 1998 var tekin ákvörðun um að flytja hringveginn, sem lá framhjá Möðrudal á Fjöllum, nær Vopnafirði, til að bæta samgöngur milli Austur- og Norðurlands og til að stytta vegalengdir milli byggðarlaga á Austurlandi. Til að stytting með Háreksstaðaleið myndi nýtast sem best, og að sem mest stytting yrði milli Vopnafjarðar og Héraðs, þurfti einnig að breyta legu Norðausturvegar til Vopnafjarðar. Var ákveðið að færa tengingu hringvegar og Norðausturvegar að Kollseyru undir Gestreiðarstaðaöxlum.Fyrsti áfangi vegarins, á kaflanum frá hringvegi til Brunahvammsháls, var hannaður óháð framhaldi vegarins til Vopnafjarðar. Frummatsskýrsla var lögð fram í mars 2000 og framkvæmdir hófust sama ár. Ári seinna var lokið við að leggja 6 km langan veg frá hringvegi að Hölkná. Arnarfell á Akureyri sá um þann áfanga, en þá styttist leiðin milli Vopnafjarðar og Egilsstaða um 14 km.
Í tilkynningu frá Vegagerðinni segir að tengingin við hringveginn á kaflanum frá Brunahvammshálsi til Vopnafjarðar hafi verið til athugunar um margra ára skeið. Voru margar leiðir skoðaðar en undirbúningur vegna mats á umhverfisáhrifum hófst árið 2004. Ákveðið var að Vesturárdalsleið um Búastaði væri besti kosturinn og sú ákvörðun kynnt á íbúafundi á Vopnafirði í febrúar 2005. Einnig var ákveðin vegtenging yfir Hofsháls, eða Millidalaleiðin fyrrnefnda.
Frummatsskýrsla var lögð fram í janúar 2007 og framkvæmdaleyfi barst í ágúst sama ár, að fengnu áliti Skipulagsstofnunar. Vesturárdalsleiðin frá Brunahvammshálsi til Vopnafjarðar var boðin út í þremur áföngum á árunum 2007 til 2012. Þriðja áfanga er nýlokið, sem var ný vegtenging við þéttbýlið á Vopnafirði.
Mikil samgöngubót
„Það er sannkölluð hátíð í bæ hjá okkur. Þetta er mikil samgöngubót og hefur mikla þýðingu fyrir svæðið,“ segir Þorsteinn Steinsson, sveitarstjóri Vopnafjarðarhrepps, um nýja veginn. Hann segir það hafa tekið nokkur ár að klára verkið en það hafi á endanum tekist þrátt fyrir erfiða tíma í efnahagsmálum þjóðarinnar. Alls séu þetta hátt í 60 km vegakaflar og því töluverð framkvæmd.„Nýju vegirnir eiga eftir að hafa veruleg áhrif á samfélagið hér og vera mikil lyftistöng. Möguleikar til atvinnuuppbyggingar munu aukast og vegirnir munu frekar ná til okkar ferðafólki og öðrum sem hingað þurfa að komast. Byltingin er mikil því núna er hægt að komast til og frá Vopnafirði án þess að aka um malarvegi,“ segir Þorsteinn.
Hann bendir einnig á þýðingu veganna fyrir vöruflutninga. „Við erum með gríðarlega mikla flutninga til og frá sveitarfélaginu. Á síðasta ári var Vopnafjarðarhöfn þriðja stærsta löndunarhöfn á Íslandi, sem þýðir að mikið er um vöruflutninga á stórum bílum með tengivagna. Fyrir slíka bíla skiptir þetta sköpum og nú þurfa þeir ekki að fara upp brattar og krókóttar brekkur,“ segir Þorsteinn og bætir við að gamla leiðin hafi oft verið ófær um veturinn. Þó að Háreksstaðaleið sé í um 500 metra hæð yfir sjó, og áfram muni snjóa þar yfir veturinn, þá verði auðveldara en áður að sinna þar snjómokstri, hálkuvörn og annarri vetrarþjónustu. „Við höfum óskað eftir því að vetrarþjónustan verði aukin og síðan þarf að halda þessum vegum vel við í framtíðinni þannig að þeir slitni ekki,“ segir Þorsteinn, sem að endingu vill hrósa Vegagerðinni og verktökum fyrir góða vinnu. Sérstaklega hafi allur frágangur á vinnusvæðinu og umhverfi veganna verið til mikillar fyrirmyndar. Þar hafi verið vel hugsað til þess að náttúran skemmdist sem minnst.