Markaskorari Zlatan Ibrahimovic var svo sannarlega á skotskónum í gærkvöld. Hann skoraði fjögur mörk.
Markaskorari Zlatan Ibrahimovic var svo sannarlega á skotskónum í gærkvöld. Hann skoraði fjögur mörk. — AFP
Svíinn Zlatan Ibrahimovic var maður gærkvöldins í Meistaradeildinni en framherjinn magnaði skoraði fjögur af mörkum Paris SG þegar liðið burstaði Anderlecht, 5:0, á útivelli í þriðju umferð riðlakeppninnar.

Svíinn Zlatan Ibrahimovic var maður gærkvöldins í Meistaradeildinni en framherjinn magnaði skoraði fjögur af mörkum Paris SG þegar liðið burstaði Anderlecht, 5:0, á útivelli í þriðju umferð riðlakeppninnar. Svíinn magnaði sýndi frábær tilþrif og mörkin voru glæsileg hjá framherjanum stóra og stæðilega en hann var búinn að skora þrennu eftir aðeins 19 mínútna leik. Zlatan hefur nú skorað 9 mörk í síðustu fjórum leikjum Parísarliðsins í öllum keppnum.

Annaðhvort situr Zlatan eða Cristiano Ronaldo heima þegar úrslitakeppni HM fer fram í Brasilíu en Svíþjóð og Portúgal mætast í umspilinu. Ronaldo sá um að tryggja Real Madrid sigurinn á Ítalíumeisturum Juventus á Santiago Bernebau. Ronaldo skoraði bæði mörkin og sigurmarkið úr vítaspyrnu.

Englandsmeistarar Manchester United mörðu spænska liðið Real Sociead á Old Trafford, 1:0, þar sem sigurmarkið var sjálfsmark og kom eftir aðeins 67 sekúndna leik. Wayne Rooney, besti maður United, átti allan heiðurinn af markinu en eftir skot hans í stöngina fór boltinn í varnarmann og þaðan í netið.

Manchester City gerði góða ferð til Moskvu þar sem liðið hafði betur á móti CSKA Moskvu, 2:1. Eftir að hafa lent undir tók argentínski sóknarmaðurinn til sinna ráða og skoraði tvívegis með skömmu millibili. „Ég er mjög ánægður og þessi úrslit voru mjög mikilvæg fyrir liðið. Leikmenn mínir voru vel einbeittir á erfiðum velli,“ sagði Manuel Pellegrini, stjóri City. Það setti ljótan svip á leikinn að leikmenn City kvörtuðu yfir að hafa orðið fyrir kynþáttafordómum.

Evrópumeistarar Bayern München héldu sigurgöngu sinni áfram en þeir burstuðu tékkneska liðið Viktoria Plzen á heimavelli sínum, 5:0. Franck Riberý skoraði tvö af mörkum Bæjara og þeir David Alaba, Bastian Schweinsteiger og Mario Götze gerðu sitt markið hver. gummih@mbl.is