Reynslan sýnir að góðir skattar eru ekkert betri en vondu skattarnir

Harðar og fjörlegar deilur voru í sal neðri deildar breska þingsins í gær. Hvað kemur orðaskak þar okkur við, sem höfum nóg með slíkt í okkar næsta nágrenni? Svo sem ekki mikið, en undirrót umræðunnar var þó óneitanlega kunnugleg.

Hún var um „græna skatta“. Grænu skattarnir eru eins og kunnugt er í körfu með öðrum góðkynja sköttum. Það einkennir góðkynja skattheimtu að stjórnvöld láta eins og innheimta þeirra hafi ekkert með það að gera að ríkið þurfi að afla tekna í sinn óseðjandi sjóð, sem stendur straum af stjórnlitlum útgjöldum. Það séu aðeins vondu, illkynja skattarnir sem séu notaðir til þess. Hinir séu eingöngu settir á til að stýra hegðun fólks til betri vegar fyrir það sjálft, og skili óviljandi tekjum í ríkissjóð. Þannig eru grænu skattarnir sagðir vera.

En í umræðunni í breska þinginu virtust furðumargir þingmanna beggja vegna í salnum hafa grunsemdir um að tilgangurinn með góðu sköttunum væri nákvæmlega sá sami og með vondu sköttunum. Fólkinu væri gert að greiða „grænt álag“ á þjónustu sem það gæti ekki án verið.

Ríkisstjórnir allra flokka á Íslandi hafa með flestum nýjum fjárlögum glaðbeittar hækkað gjöld á áfengi og tóbak umfram flest annað. Þeim hækkunum fylgja ætíð yfirlýsingar um að þetta sé sérstaklega gert til að sporna við reykingum og áfengisneyslu. En það skondna er að þegar tekjurnar frá fyrra árinu eru skoðaðar, eftir að aukaálaginu hefur verið bætt við, kemur jafnan í ljós að ríkið reiknar ætíð með að landinn reyki og drekki jafn mikið og fyrri daginn, þrátt fyrir álögurnar!

Stöku sinnum virðist kraftmikil hækkun þessara tilteknu neysluskatta draga aðeins úr neyslu. En nánari skoðun sýnir þá oftast að munurinn felst aðeins í auknu smygli á vörunni.

Tveir þættir drógu á hinn bóginn loks úr reykingum. Annars vegar stóraukinn fræðsla um skaðsemi reykinga og hins vegar þegar svo hafði verið þrengt að reykingafólki að það má nánast hvergi iðka sinn löst.

Hinir „grænu“ skattar á reykingar höfðu eingöngu dugað til sanka fé í ríkiskassa og til að þrengja kost reykingamanna og þá auðvitað hlutfallslega mest þeirra sem höfðu úr minnstu að spila.

Mörgum þykir sanngirnismál að þeir sem njóti tiltekinnar þjónustu borgi sérstakan skatt af henni en síður þeir sem njóta hennar ekki. Slík umræða er þannig þekkt í tengslum við ferðamannaiðnaðinn. Þá er oft látið eins og nú sé árið 0 en ekki t.d. 2013 og því snarlega gleymt að ferðamaðurinn er rukkaður um skatta í bak og fyrir í tengslum við ferðalög sín, dvalarkostnað, uppihald og bílaleigu. En það sem lakast er, þá dettur engum í hug að þegar slíkir sérskattar eru lagðir á þá eigi það að leiða til þess að aðrir skattar lækki á móti.

„Nei, við erum ekki svo „græn“ að láta slíkt henda okkur,“ segja stjórnvöld allra tíma. Niðurstaðan er sú, að skattgreiðandinn er sígild táknmynd einstæðingsins sem á engan að.