[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Ásgeir Ingvarsson ai@mbl.is Útlit er fyrir að færri nýir íslenskir plötutitlar verði í boði þessi jólin en í fyrra.

Fréttaskýring

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Útlit er fyrir að færri nýir íslenskir plötutitlar verði í boði þessi jólin en í fyrra. Viðmælendur Morgunblaðsins benda þó á að útgáfan var sérlega vegleg á síðasta ári og þurfi þetta ekki að vera til marks um óeðlilegan samdrátt þó að titlarnir séu færri í ár.

„Í fyrra varð sannkölluð sprengja í útgáfu íslenskrar tónlistar og árið mjög stórt á alla vegu. Hjá okkur hefur titlunum fækkað örlítið þetta árið en samt sem áður er gróska í útgáfunni og mikið af áhugaverðum plötum að koma út,“ segir Matthías Árni Ingimarsson hjá dreifingarfyrirtækinu Kongó.

Hann segir ekki um það að ræða að plötumarkaðurinn sé í kreppu. Þvert á móti séu Íslendingar enn duglegir að kaupa innlenda tónlist og ekkert lát virðist heldur á sölu til erlendra ferðamanna. „Greinileg breyting virðist þó vera að eiga sér stað í þá átt að fleiri tónlistarmenn velja að gefa sjálfir út eigin plötur. Aldrei hefur verið auðveldara fyrir listamanninn að annast útgáfuna sjálfur og þeir sem eru tilbúnir að leggja á sig þetta viðbótarumstang verða fleiri með hverju árinu.“

Hópfjármagna plöturnar

Segir Matthías að sjálfsútgáfan þurfi ekki að hafa í för með sér mikla fjárhagslegu áhættu fyrir tónlistarmanninn og þröskuldurinn út á markaðinn sé ekki hár. „Þeir sem eru að gefa út sína fyrstu plötu sjá þetta oft sem vænlegasta kostinn enda ekki alltaf að því hlaupið fyrir nýgræðinga að komast að hjá útgáfufyrirtæki. Aðrir velja að gefa sjálfir út til þess að eiga meira í hlutnum og til að ráða alfarið hvernig staðið er að útgáfunni.“

Það hjálpar líka til að listamenn hafa margir náð góðum árangri við öflun áheita og forsölu í gegnum netið. „Í auknum mæli eru íslenskir tónlistarmenn að nýta hópfjármögnunarsíður til að standa undir kostnaðinum við útgáfuna og minnka hjá sér áhættuna enn frekar.“

Rólegra í upptökuverinu

Í svipaðan streng tekur Þórir Jóhannsson hjá Stúdíó Sýrlandi. Hann kveðst ekki getað fullyrt um útgáfuna í heild sinni en tilfinningin sé sú að titlum fækki eitthvað þetta árið og greinilegt að stækkandi hópur velur að sjá um útgáfuna sjálfur.

Haraldur Leví Gunnarsson hjá útgáfufyrirtækinu Record Records hefur sömu sögu að segja. Hann segir síðustu tvö ár hafa verið sérlega sterk í íslenskri tónlist og viðbúið að á endanum myndi hægjast eitthvað á. Nógu verði samt úr að velja í tónlistarbúðunum og margir áhugaverðir titlar rétt óútkomnir. „Á föstudaginn gefum við t.d. út nýja plötu með Mammút, í næstu viku kemur ný plata frá Tilbury og svo kemur síðasta útgáfa okkar þessa árs 15. nóvember, það er ný plata frá Lay Low.“

Aðspurður hvaða plata er líklegust til að slá í gegn segir Haraldur að af þeim listamönnum sem heyra undir Record Records búist hann við mestu af Mammút, Lay Low og bandinu Ojba Rasta.

Vandlátari við valið

Hjá Senu dregst útgáfan saman um u.þ.b. 20% þetta árið, mælt í titlum. „Síðustu 10 árin á undan hefur titlafjöldinn haldist nokkuð stöðugur í kringum 50 á ári en nú erum við að gefa út rétt rösklega 40 titla,“ segir Eiður Arnarsson, forstöðumaður tónlistardeildar.

Hann segir þennan samdrátt þó ekki koma til vegna annars en þess að útgáfufyrirtækið hyggst reyna nýjar áherslur, fækka útgáfum en þá um leið sinna og halda betur utan um þau verkefni sem ráðist er í. „Við tókum þessa ákvörðun í fyrra, að verða örlítið vandlátari á titlana og hafa þá ögn fleiri klukkutíma aflögu í vinnudeginum til að sinna markaðssetningu hverrar plötu fyrir sig.“

Eiður segir hljómplötumarkaðinn haldast álíka sterkan milli ára og að sögur af skarpri niðursveiflu í sölu séu orðum auknar. „En samt sem áður má greina mjög hægfara samdrátt þegar litið er yfir lengri tímabil.“

Hann segir jólin enn vera mikilvægasta tíma ársins í hlómplötusölunni. „Síðustu þrír mánuðir ársins standa undir fast að 60% af heildarsölu ársins. Er þróunin þó í þá átt að salan dreifist jafnar yfir árið og fyrir 15 árum hygg ég að salan í aðdraganda jólanna hafi hæglega verið um 80% af heildarsölunni.“

Metin verða seint slegin

Heyra má á Eiði að hann er bjartsýnn á söluna í ár en um leið reiknar hann ekki með að sölutölunar verði jafnsterkar og síðustu jól. „Plöturnar sem Mugison og Ásgeir Trausti gáfu út á síðustu tveimur árum voru söluhæstu plötur í áratugi og ekki raunhæft að ætla að þau met verði slegin í ár. Það væri rangt að nota undanfarin tvö ár sem eðlilegt viðmið þegar veltan á tónlistarmarkaðinum þetta árið er metin.“

Af titlum Senu myndi Eiður helst veðja á að Björgvin Halldórsson eða Bubbi Morthens seldust best af hópi „ráðsettari listamanna“ eins og hann orðar það. Er Bubbi að gefa út í ár jólaplötuna sem frestaðist í fyrra. „Sigríður Thorlacius er líka að gefa út jólaplötu sem lofar góðu og hver veit jafnvel nema hinn ungi Steinar Baldursson eigi velgengni að fagna í plötuflóðinu í ár en nýja lagið hans „Up“ hefur á aðeins tveimur vikum verið spilað hátt í 32.000 sinnum á YouTube.“