Afmælistónleikar Magga Stína er ein þeirra sem flytja lög og texta Megasar á sunnudagskvöldið. Valinkunnir listamenn koma fram.
Afmælistónleikar Magga Stína er ein þeirra sem flytja lög og texta Megasar á sunnudagskvöldið. Valinkunnir listamenn koma fram. — Morgunblaðið/Ómar
Í tilefni af 30 ára afmæli Félags tónskálda og textahöfunda, FTT, stendur félagið fyrir metnaðarfullri afmælistónleikaröð og málþingi í Hörpu nú um helgina. Dagskráin hefst á föstudagskvöldið kl.

Í tilefni af 30 ára afmæli Félags tónskálda og textahöfunda, FTT, stendur félagið fyrir metnaðarfullri afmælistónleikaröð og málþingi í Hörpu nú um helgina. Dagskráin hefst á föstudagskvöldið kl. 21 með tónleikum Stórsveitar Reykjavíkur, sem flytur áhugaverða efnisskrá með verkum íslenskra djassara, m.a. Sunnu Gunnlaugs og Eyþórs Gunnarssonar, í nýjum útsetningum.

Á tónleikum sem hefjast í Kaldalóni kl. 21 á laugardagskvöldið flytja fimmtán íslensk tónskáld og textahöfundar tónlist sína. Meðal flytjenda eru Sóley, Pétur Ben., Védís Hervör, Elíza, Hörður Torfa og Elín Ey.

Á sunnudag er síðan komið að málþingi í Björtuloftum og hefst það kl. 14. Þar verður sjónum beint að textagerð í íslenskri hryntónlist síðustu fimmtíu ára. Meðal þátttakenda eru Ari Eldjárn, Sjón, Bjarki Karlsson og Katrín Jakobsdóttir.

Á sunnudagskvöld kl. 21 er komið að lokatónleikunum, „Tvær stjörnur“, í Kaldalóni. Þá verða flutt lög og textar eftir Björk Guðmundsdóttur og Megas þar sem orðin eru í öndvegi. Flytjendur eru Ragnheiður Gröndal, Magga Stína, Ágústa Eva, Björn Jörundur, Valdimar Guðmundsson, Haukur Heiðar, Guðmundur Pétursson og Matthías Hemstock.