Loftur Loftsson fæddist í Fiskhöllinni í Reykjavík 2. október 1923. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Eir 14. október 2013.
Loftur var sonur Lofts Loftssonar útgerðarmanns, f. 15.2. 1884, d. 24.11. 1960, og Ingveldar Ólafsdóttur frá Þjórsártúni, f. 1.9. 1901, d. 26.2. 1995. Systkini Lofts voru Ólafur, f. 22.12. 1920, d. 3.6. 2001, Loftur, f. 30.5. 1922, d. 19.4. 1923, Inga Heiða (Gigga), f. 13.4. 1925, d. 1993, (Valgerður) Rósa, f. 13.11. 1930, og Júlíus Huxley (Eyjólfur), f. 30.4. 1941, d. 16.9. 2008.
Loftur kvæntist 1958 Rannveigu G. Ágústsdóttur frá Ísafirði, f. 22.4. 1925, d. 2.8. 1996, bókmenntafræðingi og framkvæmdastjóra Rithöfundasambands Íslands. Börn þeirra eru: 1) Guðríður, boðberi og húsmóðir, f. 16.8. 1959, gift Matthíasi Boga Hjálmtýssyni húsasmíðameistara, f. 25.5. 1959, börn þeirra eru a) Loftur Guðni bifvélavirkjameistari, f. 1980, kvæntur Guðrúnu Þorgerði Ágústsdóttur félagsráðgjafa, f. 1977. Synir þeirra eru Matthías Bogi, f. 2007, og Þorgeir Goði, f. 2011, b) Margrét hársnyrtir, f. 1984, og c) Rannveig Sól, f. 1997. 2) Inga Rósa, myndlistarmaður og MA í menningar- og menntastjórnun, f. 19.3. 1962. 3) Loftur kerfisfræðingur, f. 13.2. 1965, kvæntur Guðrúnu Bjarnadóttur tækniteiknara, f. 10.2. 1967, börn þeirra eru a) Linda Huld, BS í sálfræði, f. 1988, unnusti hennar er Alex Sieroczuk, f. 1988, b) Loftur, f. 1994, og c) Leó, f. 1996. 4) Stjúpdóttir Lofts, dóttir Rannveigar og Gunnars G. Schram, er Valgerður Gunnarsdóttir, sjúkraþjálfari og lýðheilsufræðingur, f. 26.10. 1950, gift Bjarna Daníelssyni, f. 27.2. 1949, menntunar- og stjórnsýslufræðingi. Börn þeirra eru a) Dýrleif Dögg heimspekingur, f. 1970, maki Peter Matsuo, f. 1969, synir þeirra eru Benjamin, f. 2006, og Ísak, f. 2009. Börn Dýrleifar af fyrra hjónabandi eru Valgerður Þóroddsdóttir, f. 1989, og Bjarni Þóroddsson, f. 1990, b) Finnur söngvari, f. 1973, kvæntur Sally Matthews söngkonu, dóttir þeirra er Íris, f. 2009. Sonur Finns af fyrra hjónabandi er Óðinn Finnson Bell, f. 2003, stjúpdóttir hans er Grace, f. 2003, c) Daníel tónskáld og stjórnandi, f. 1979, maki Elísabet Alma Svendsen listfræðinemi, f. 1987, sonur þeirra er Ríkharður, f. 2010.
Loftur varð stúdent frá MR 1945, B.Eng. í efnaverkfræði frá McGill-háskóla í Kanada 1952 og MS í matvælaverkfræði frá MIT í Cambridge Mass. 1954. Loftur var verkfræðingur hjá Iðnaðarmálastofnun Íslands 1955-61 og forstöðumaður tæknideildar Sambands ísl. fiskframleiðenda (SÍF) 1961-1993.
Útför Lofts fer fram í Neskirkju í dag, 24. október 2013, kl. 13.
„Gullý, hvernig er það, ertu búin að fara í starfið í dag?“ „Ertu ennþá í leikfimi?“ „Hvað ertu með í matinn í kvöld?“ Eru athugasemdir sem ég á eftir að sakna mikið. Jákvæði pabbi minn er dáinn, sofnaður svefninum langa.
Ef það er eitthvað sem gefur ánægju í lífinu þá eru það markmið sem hefur verið náð. Það vissi hann mjög vel. Ég held að honum hafi alltaf tekist þetta, það er að segja að ná þeim markmiðum sem hann setti sér. Eins hvatti hann aðra til dáða. Líka þótt viðkomandi hefði allt annað áhugamál en hann sjálfur hafði. Til dæmis var honum mjög umhugað um mig, að ég hefði ánægju og gleði af lífinu.
Alveg óspurður kom hann með uppástungur og ráð varðandi boðunarstarf mitt sem vottur Jehóva, bara svo að ég hefði nú alveg örugglega erindi sem erfiði. Þetta þótti mér mikið til um og þykir enn. Svona var hann.
Ég er mjög þakklát. Þakklát fyrir að eiga svona hlýjan pabba sem við fengum að hafa hjá okkur svona lengi, en hann varð níræður áður en yfir lauk, þakklát fyrir að hann fékk friðsælt andlát og rólegt. Síðast en ekki síst er ég mjög svo þakklát fyrir upprisuvonina. Von sem verður að veruleika í framtíðinni.
„Bestu minningarnar eru í framtíðinni,“ sagði myndlistarmaðurinn Erró á níræðisaldri. Ég held það séu alveg ágæt lokaorð, enda algerlega í anda föður míns, Lofts Loftssonar, hans sem við syrgjum og söknum. Já, hans verður sárt saknað.
Guðríður Loftsdóttir.
Takk fyrir að hafa verið pabbi minn.
Þín dóttir,
Inga Rósa Loftsdóttir.
Loftur afi var barngóður og hann og Þorgeir Goði náðu einstaklega vel saman þrátt fyrir 88 ára aldursmun. Ég mun halda minningunni um Loft afa lifandi og segja strákunum frá þeim yndislega langafa sem þeir áttu. Loftur afi var einstakur maður og það eru forréttindi að hafa fengið að kynnast honum.
Takk fyrir samfylgdina, elsku vinur, ég kveð þig með söknuði og þakka fyrir allar þær stundir sem við áttum saman. Hvíldu í friði.
Kær kveðja,
Guðrún Þorgerður.
Þegar ég horfi til baka er ég samt mjög ánægð með að hafa fengið að kynnast þér betur undir það síðasta. Allir þriðjudagarnir sem við fórum saman að kaupa í matinn fyrir vikuna voru æðislegir, þú varst algjör matgæðingur eins og ég. Við röbbuðum oft um nýjar uppskriftir og gáfum hvort öðru hugmyndir að nýjum réttum. Það var svo gaman að versla með þér og bara vera með þér, ég er svo fegin að við áttum þennan tíma saman. Þú varst líka alltaf svo jákvæður og áhugasamur um allt sem var að gerast í mínu lífi.
Ég veit að þú varst alls ekki hræddur við að deyja, ég vona bara að þú hafir það gott hvar sem þú ert. Þín verður sárt saknað, ég bið að heilsa ömmu Veigu. Ég elska þig, þitt barnabarn,
Margrét Matthíasdóttir.