Góðgæti Humar er af mörgum talinn herramannsmatur og er vinsæll réttur á veitingastöðum víða.
Góðgæti Humar er af mörgum talinn herramannsmatur og er vinsæll réttur á veitingastöðum víða. — Morgunblaðið/Ómar
Höfuðstaður humarsins hefur Höfn í Hornafirði stundum verið kölluð, enda humarveiðar og -vinnsla þar mikilvægur atvinnuvegur. Á vegum Skinneyjar-Þinganess á Höfn eru rúmlega 400 tonn af heilum humri veidd og unnin á ári hverju.

Höfuðstaður humarsins hefur Höfn í Hornafirði stundum verið kölluð, enda humarveiðar og -vinnsla þar mikilvægur atvinnuvegur. Á vegum Skinneyjar-Þinganess á Höfn eru rúmlega 400 tonn af heilum humri veidd og unnin á ári hverju.

„Heili humarinn fer fyrst og fremst til Spánar, en einnig til Ítalíu og Frakklands,“ segir Guðmundur Gunnarsson, framleiðslustjóri fyrirtækisins. „Svo fer líka þónokkuð til Bandaríkjanna og Kanada. Einnig er mikið selt hér innanlands, aðallega humarhalar, og við sjáum mikla aukningu sem líklega má rekja til fjölgunar ferðamanna. Við seljum aðallega frystan, lítillega af ferskum en ekkert af lifandi humri.“

Humarinn er veiddur við suðurströnd landsins, frá Lónsdýpi út af Stokksnesi vestan við Höfn og út að Jökuldýpi. Vertíðin stendur frá því snemma í apríl og fram í miðjan nóvember. Samtals vinna 80-100 manns við vinnslu og veiðar á humri hjá Skinney-Þinganesi sem að jafnaði gerir út tvö skip í þessum veiðum. Ýmis önnur vinnsla er á vegum fyrirtækisins, m.a. á uppsjávar- og bolfiski.

Einfaldleikinn er bestur

Spurður hvernig best sé að matreiða humar segir Guðmundur best að grilla hann og eiga sem minnst við hann. „Hafa þetta sem einfaldast. Á mínu heimili er vinsælt að setja hvítlauksolíu á hann og ef við viljum gera virkilega vel við okkur þá er það hvítlaukur og rjómaostur yfir og svo beint á grillið. Þetta er svo sætt og gott kjöt á humrinum, það verður að leyfa því að njóta sín og ekki elda það of mikið,“ segir framleiðslustjórinn.

annalilja@mbl.is