Fjör Það var handagangur í öskjunni þegar krakkarnir fengu að taka þátt í leikritinu; lifandi tónlist og hvað eina.
Fjör Það var handagangur í öskjunni þegar krakkarnir fengu að taka þátt í leikritinu; lifandi tónlist og hvað eina. — Morgunblaðið/Rósa Braga
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það er heldur betur gaman þegar nám fer fram í gegnum þátttöku í leikriti sem segir frá drottningu sem var svo klók að segja konungi 1001 sögu til að hann frestaði því að drepa hana og gerði hann þannig að lokum ástfanginn af sér.

Það er heldur betur gaman þegar nám fer fram í gegnum þátttöku í leikriti sem segir frá drottningu sem var svo klók að segja konungi 1001 sögu til að hann frestaði því að drepa hana og gerði hann þannig að lokum ástfanginn af sér. Nemendur í fjórða bekk Háteigsskóla gengu inn litríkan arabískan heim í gær.

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Allir krakkarnir fengu sverð og þau tóku þátt í að leika eina söguna, sem heitir Alibaba og ræningjarnir fjörutíu. Þau lentu á töfrateppi þegar þau komu inn og komust ekki áfram nema þau væru með akabradabra-töfraorðin á hreinu. Þau þurftu að leysa allskonar þrautir og þetta var algjört ævintýri fyrir þau, en um leið nám í leiklist. Það var greinilega mjög gaman fyrir krakkana að fá að ganga inn í þennan arabíska heim sem kennaranemarnir höfðu útbúið með ljóskerjum, búningum og leikmynd,“ segir Ása Helga Ragnarsdóttir, aðjunkt í kennslufræði leiklistar á Menntavísindasviði Háskóla Íslands, en nemendur úr fjórða bekk Háteigsskóla voru boðnir í þátttökuleikhús í gær þar sem kennaranemar höfðu búið til verkefni í tengslum við gömlu söguna 1001 nótt. „Kennaranemarnir sömdu leikrit upp úr þessu gamla ævintýri, með þátttöku nemenda í huga. Verkefnið er liður í námi nemenda í skapandi skrifum, en kennarar þeirra hafa frá upphafi skólagöngu nemendanna lagt áherslu á skapandi skrif. Fyrir vikið eru þessir krakkar mjög færir á því sviði.“

Sannarlega hugprúð sagnakona þar á ferðinni

Sagan 1001 nótt segir frá kóngi í arabískum heimi sem verður fyrir áfalli þegar konan hans svíkur hann. „Hann verður svo reiður að hann ákveður að drepa allar þær brúðir sem hann muni giftast þar eftir. Ein afar hugrökk kona ákveður að giftast honum þrátt fyrir þetta, en hún gerir það líka til að bjarga öllum hinum konunum sem kæmu á eftir henni. Sannarlega hugprúð kona þar á ferð. Hún fær konunginn til að samþykkja að systir hennar fái að sitja við rúmgaflinn hjá þeim og passa upp á hana á brúðkaupsnóttina. Hún semur líka við hann um að hún fái að segja honum eina sögu, sem hann samþykkir, enda hafa allir gaman af því að heyra góða sögu. Hún hættir í miðri sögu og hann verður svo spenntur að hann leyfir henni að lifa einn dag í viðbót svo hann geti fengið að heyra framhaldið. Þannig gengur það í þúsund og eina nótt, og hann er orðinn svo ástfanginn af henni í lokin að hann hættir við að drepa hana. Mér og kennaranemendum mínum fannst þessi saga svo heillandi og við sáum möguleika á að tengja hana við skapandi ritun hjá nemendum.“

Óttuðust að í pakkanum væri kannski sprengja

Verkefnið fór af stað með því að kennaranemarnir fundu kassa úti á skólalóð Háteigsskóla sem var merktur fjórða bekk. „Þeir fóru með kassann inn og opnuðu þó nemendur væru tregir til, af ótta við að þetta væri kannski sprengja. Þegar kassinn var opnaður var þar ofan í ein arabísk brúða og bréf frá systur brúðarinnar. Í bréfinu eru nemendur beðnir um að hjálpa drottningunni af því hún sé orðin uppiskroppa með sögur og hún verði klárlega drepin ef hún fái ekki fleiri sögur. Krakkarnir urðu mjög uppnumdir og spenntir og vildu gera allt til að hjálpa drottningu. Þau fóru beint í það að skrifa sögur og hafa verið á fullu að skrifa undanfarinn hálfan mánuð. Þetta hefur verið skemmtilegur tími hjá krökkunum og þau spennt að hitta drottningu,“ segir Ása og bætir við að þessir nemendur hafi verið þau sem komu í gærmorgun og hittu sjálfa drottninguna. „Þannig komu þau sjálf sögum sínum til drottningar og þau urðu þátttakendur í leikritinu. Valdar voru sögur eftir nemendur af handahófi til að lesa upp og þannig naut skapandi ritun nemenda sín til fulls. Þetta var virkilega gaman fyrir alla, bæði kennaranemana og nemendur, um leið og nám fór fram.“