[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Baldur Arnarson baldura@mbl.is Dregið hefur úr atvinnuleysi í öllum sautján helstu flokkum starfsgreina og er það í mörgum tilfellum orðið mun minna en þegar það náði hámarki í kjölfar efnahagshrunsins.

Baksvið

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Dregið hefur úr atvinnuleysi í öllum sautján helstu flokkum starfsgreina og er það í mörgum tilfellum orðið mun minna en þegar það náði hámarki í kjölfar efnahagshrunsins.

Þróunin er sýnd hér til hliðar en starfsgreinar eru þar sundurliðaðar skv. skilgreiningu Vinnumálastofnunar. Taflan sýnir mánuðinn þegar atvinnuleysið í einstakri grein varð mest eftir efnahagshrunið og er misjafnt hvenær ástandið var verst. Áætlað vinnuafl innan hverrar greinar byggist á vinnumarkaðskönnun Hagstofu Íslands og taka atvinnuleysistölur mið af því.

Hefur atvinnulausum fækkað minnst í veitustarfsemi eða um 68 en mest í mannvirkjagerð eða um 3.137. Hlutfallsleg breyting innan þessara greina er þó önnur, enda eru mun fleiri starfandi í mannvirkjagerð.

Næst á eftir mannvirkjagerð kemur verslun en þar hefur fólki án atvinnu fækkað um 1.890. Iðnaðurinn er í þriðja sæti en þar hefur atvinnulausum fækkað um 1.307 frá því atvinnuleysið þar var mest.

Þar sem sveiflur eru í áætluðu vinnuafli milli mánaða getur fjöldi atvinnulausra innan einstakra greina hafa náð meiri hæðum en hér er sýnt í töflunni, þótt hlutfallslegt atvinnuleysi hafi þá verið minna en þegar það náði hámarki eftir hrunið.

Fækkað um ríflega 11.000

Alls voru 16.900 manns án vinnu þegar mest var, sé miðað við mánuðina þegar atvinnuleysi í prósentum var mest í hverri starfsgrein, og hefur þeim síðan fækkað um 11.076, sé miðað við stöðuna í september sl.

Samtals voru 2.252 án vinnu í iðnaði, verslunarstarfsemi og gisti- og veitingaþjónustu að meðaltali í síðasta mánuði og er atvinnuleysi nú mest í þessum þrem greinum. Voru það tæplega 39% atvinnulausra í starfsgreinunum 17. Sé formleg menntun fólks í þessum greinum skoðuð kemur í ljós að 51% fólks í iðnaði hefur lokið grunnskóla, 5% starfsnámi, 16% löggiltu iðnnámi, 14% námi til stúdentsprófs og um 13% háskólaprófi. Í gisti- og veitingaþjónustu hafa um 47% atvinnulausra lokið grunnskóla, 11% starfsnámi, 11% löggiltu iðnnámi, 19% námi til stúdentsprófs og 13% háskólanámi.

Hlutfallið er ekki ósvipað í verslun. Þar hefur helmingur atvinnulausra lokið grunnskóla, 9% starfsnámi, 10% löggiltu iðnnámi, 13% námi til stúdentsprófs og um 17% háskólanámi. Hafa samtals 1.121 af þeim 2.252 sem voru án vinnu í þessum þrem greinum lokið grunnskóla, eða tæplega 50% alls hópsins.

Athygli vekur að 541 einstaklingur skuli hafa verið án vinnu í gisti- og veitingaþjónustu í síðasta mánuði, í ljósi mikils uppgangs í ferðaþjónustu.

Spurður um skýringuna bendir Karl Sigurðsson, sérfræðingur hjá Vinnumálastofnun, á að starfsmannavelta í greininni sé mikil. Því séu margir skráðir án vinnu í greininni, enda hafi síðasta starf þeirra verið á því sviði, þó svo að margir þeirra hafi lengst af áður verið starfandi innan einhverrar annarrar atvinnugreinar. Annað sem athygli vekur er að atvinnuleysi í fjármála- og tryggingaþjónustu varð mest 5,5% í júlí 2009 sem gæti talist lítið með hliðsjón af því að fjármálakerfið hrundi. Bendir það til þess að fólk í þeim geira hafi í krafti menntunar getað flutt sig yfir í aðrar greinar sem vaxið hafa síðan, á borð við forritun.

Loks er athyglisvert að atvinnuleysi í stjórnsýslu varð mest aðeins 2,1% en það telst vera minna en svonefnt náttúrulegt atvinnuleysi.

Voru mest alls 1.385

Alls voru 1.385 einstaklingar án vinnu þegar mest var í stjórnsýslu, fræðslustarfsemi og heilbrigðis- og félagsþjónustu. Var atvinnuleysi í þessum greinum mest frá 2,1-3,2% eftir hrunið, líkt og lesa má út úr töflu hér til hliðar.

Að sögn Karls Sigurðssonar, sérfræðings hjá Vinnumálastofnun, kom hrunið til að byrja með fyrst og fremst niður á mannvirkjagerð, iðnaði og þjónustu við þær greinar.

„Í framhaldinu var búist við frekari uppsögnum hjá hinu opinbera og sveitarfélögum. Þar var þó frekar reynt að bregðast við með aðhaldi í launum og minnkuðu starfshlutfalli, o.s.frv., þannig að uppsagnirnar urðu ekki það miklar.“

Mikill munur á atvinnuleysistölum

• Áætlað frá 3,8% í 5,2% í september Samkvæmt nýrri vinnumarkaðskönnun Hagstofu Íslands bættust 2.200 manns við áætlaðan mannfjölda á vinnualdri á tímabilinu frá apríl til september á þessu ári.

Minni fjölgun varð í áætluðu vinnuafli en það fór úr 185.400 í 186.700 einstaklinga og fjölgaði þar um 1.300 manns á tímabilinu.

Samkvæmt könnuninni voru 2.600 færri án vinnu í september en í apríl sl. og er atvinnuleysið áætlað 5,2% í síðasta mánuði. Er það nokkuð hærri tala en hjá Vinnumálastofnun sem áætlar að atvinnuleysið hafi verið 3,8% í september sl., eða alls 6.125 einstaklingar að meðaltali. Það eru 3.575 færri en Hagstofa Íslands áætlar að hafi þá verið án vinnu, samkvæmt áðurnefndri könnun.

Athygli vekur að Hagstofan áætlaði í könnun sinni fyrir september 2012 að atvinnuleysi væri þá 4,9% og hefur það því aukist um 0,3% í þeim mánuði milli ára. Vinnumálastofnun áætlaði hins vegar að atvinnuleysið hefði verið 4,9% í september 2012, 1,1% meira en í september 2013.