Menningartorg Fjórir sýnendanna, Nanna María Björk Snorradóttir, Kristín Þorláksdóttir, Tolli Morthens og Aðalheiður Þórhallsdóttir. „Þetta er fólk sem trúir því að listin hafi eitthvað fram að færa,“ segir Tolli.
Menningartorg Fjórir sýnendanna, Nanna María Björk Snorradóttir, Kristín Þorláksdóttir, Tolli Morthens og Aðalheiður Þórhallsdóttir. „Þetta er fólk sem trúir því að listin hafi eitthvað fram að færa,“ segir Tolli. — Morgunblaðið/Ómar
Silja Björk Huldudóttir silja@mbl.is „Ég kom ekkert nálægt þessari nafngift, en mér finnst hún vel til fundin. Sem gamall sjómaður veit ég að það er alltaf ágætt að leggja úr vör á flóði. Þá er lag að leggja út á djúpið.

Silja Björk Huldudóttir

silja@mbl.is

„Ég kom ekkert nálægt þessari nafngift, en mér finnst hún vel til fundin. Sem gamall sjómaður veit ég að það er alltaf ágætt að leggja úr vör á flóði. Þá er lag að leggja út á djúpið. Það finnst mér vera ljóðrænan í yfirskriftinni Háflæði ,“ segir myndlistarmaðurinn Tolli. Hann tekur ásamt sex ungum myndlistarmönnum þátt í samsýningunni Háflæði sem opnuð verður í Hörpu í kvöld kl. 20. Sýnendur eru auk Tolla þau Aðalheiður Þórhallsdóttir, Dýrfinna Benita, Fritz Hendrik IV, Kristín Þorláksdóttir, Nanna María Björk Snorradóttir og Rögnvaldur Skúli Árnason. Á sýningunni gefur að líta á fjórða tug verka og verða þau til sýnis í hálfan mánuð.

Tolli fagnaði nýverið 60 ára afmæli sínu og því liggur beint við að spyrja hvort hann líti á Háflæði sem nokkurs konar afmælissýningu. „Já, fyrir mig prívat, en annars erum við öll að sýna hver á sínum forsendum. Á svona tímamótum vaknar eðlilega sú spurning hvort ekki sé upplagt að halda einkasýningu eða yfirlitssýningu. Mér fannst það bara ekki góð hugmynd,“ segir Tolli og tekur fram að sér hafi fundist miklu skemmtilegra að tengja sig með samsýningu við yngri deild myndlistarmanna sem hann hafi aðeins fengið að kynnast í gegnum dóttur sína, Kristínu.

Mikil vítamínsprauta

„Þessi niðurstaða er mjög heilsusamleg fyrir mig sem listamann, enda alltaf gott að fara út úr einsemd vinnustofunnar og vinna að verkefnum með öðru listafólki.“

Spurður hvort hann líti svo á að hann sé að ganga í endurnýjun lífdaga sem listamaður með þessari samsýningu segir Tolli lykilatriði að staðna ekki. „Ég held að allir listamenn hafi það að markmiði að endurnýja sig stöðugt. Sú þróun gengur í hæðum og lægðum. Stundum er bara á brattann að sækja og maður er síst dómbær á það sjálfur hvort maður sé í hæð eða lægð. Það felst klárlega mikil vítamínsprauta í því að að vinna þessa sýningu með þessum eldhugum,“ segir Tolli og bætir við: „Þetta er fólk sem trúir því að listin hafi eitthvað fram að færa, en sú sýn virðist oft veðrast af fólki á langri vegferð.“

Tolli telur að þau séu að brjóta blað í Hörpu. „Það er orðið stanslaus traffík þarna í gegn og eftir því sem yngra fólkið notar húsið meira þeim mun betur lifnar staðurinn. Rekstrarpólitíkin í Hörpu snýr að því að gera húsið að menningartorgi, en ekki að elítubyrgi.“