Ljóðskáld „Ég hef lengi verið heilluð af tunglinu,“ segir Bergrún Anna.
Ljóðskáld „Ég hef lengi verið heilluð af tunglinu,“ segir Bergrún Anna. — Morgunblaðið/Rósa Braga
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Silja Björk Huldudóttir silja@mbl.is „Ég hef skrifað ljóð frá því ég man eftir mér og skrifa eitthvað á hverjum einasta degi.

Silja Björk Huldudóttir

silja@mbl.is

„Ég hef skrifað ljóð frá því ég man eftir mér og skrifa eitthvað á hverjum einasta degi. Allt þar til í febrúar á þessu ári skrifaði ég ávallt á ensku, en þessi bók er hins vegar skrifuð á íslensku,“ segir Bergrún Anna Hallsteinsdóttir um fyrstu ljóðabók sína, Stofumyrkur , sem kemur út hjá forlaginu Meðgönguljóðum í dag.

Spurð nánar út í tungumálaskiptin útskýrir Bergrún Anna á lýtalausri íslensku að hún sé fædd og uppalin á Nýja-Sjálandi. „Mamma mín er nýsjálensk og pabbi minn íslenskur. Þau kynntust hérlendis seint á áttunda áratug seinustu aldar og fluttu saman til Nýja Sjálands þar sem ég fæddist,“ segir Bergrún Anna og tekur fram að hún hafi ekki kunnað íslensku þegar hún flutti hingað fyrir sex árum, þá 21 árs.

Dreymdi um að kynnast Íslandi

„Sem barn heimsótti ég Ísland aðeins einu sinni, en allt frá unga aldri dreymdi mig um að flytja hingað og kynnast uppruna mínum og ættingjum betur,“ segir Bergrún Anna sem lauk BA-prófi í stjórnmálafræði og kynjafræði á Nýja-Sjálandi áður en hún flutti hingað. „Hér fann ég frelsi til að skrifa og út frá því spratt áhugi minn á myndlist,“ segir Bergrún Anna sem stundar nú nám á öðru ári í myndlist við Listaháskóla Íslands. „Það er því óhætt að segja að með búferlaflutningum mínum til Íslands hafi líf mitt tekið nýja stefnu, enda er ég að fást við allt aðra hluti í dag en meðan ég bjó á Nýja-Sjálandi. Ég verð þó sennilega alltaf á flakki milli þessara tveggja landa í framtíðinni,“ segir Bergrún Anna og tekur fram að sér finnist frábært að búa hérlendis. „Umhverfið allt er svo listvænt og hér er gott að skapa.“

Spurð nánar um ljóðin segist Bergrún Anna ávallt skrifa út frá tilfinningum sínum og upplifunum á heiminum. „Ég hef lengi verið heilluð af tunglinu og fannst því frábært að sjá það rata inn á kápuna,“ segir Bergrún Anna, en kápuna hannar Katrín Helena Jónsdóttir. „Titill bókarinnar er vísun í eitt ljóða minna. Stofumyrkur er jákvætt orð í mínum huga, því mér finnst einstaklega gott að sitja ein í myrkrinu í stofunni minni og njóta augnabliksins. Það er svo notalegt að láta myrkrið umvefja sig, því það er svo hlýtt,“ segir Bergrún Anna.

Þess má að lokum geta að Stofumyrkur er fjórða ljóðabókin í seríu Meðgönguljóða, sem er grasrótarforlag sem sérhæfir sig í útgáfu efnilegra skálda sem flest eru að stíga sín fyrstu opinberu skref á ferlinum. Blásið verður til útgáfuhófs í Bókabúð Máls og menningar í dag kl. 18 þar sem höfundur mun lesa upp úr bók sinni. Eins og aðrar bækur í seríunni verður Stofumyrkur prentuð í takmörkuðu upplagi og er hver bók einstök, sérmerkt og handsaumuð.

Miðnæturþakklæti

Líkami

fullt tungl

þung

í rúminu.

Ég hljóp mig

tóma

og nú ligg ég

kyrr,

tel ástæður

til þakklætis:

Hljóð vindsins.

Þakið.

Þyngdarafl svefnsins

á mér.