Sverre Andreas Jakobsson
Sverre Andreas Jakobsson
Sverre Andreas Jakobsson, landsliðsmaður í handknattleik og fyrirliði þýska 2. deildar liðsins Grosswallstadt, er undir smásjá forráðamanna þýska 1. deildarliðsins Wetzlar. Þetta hefur Morgunblaðið samkvæmt öruggum heimildum.

Sverre Andreas Jakobsson, landsliðsmaður í handknattleik og fyrirliði þýska 2. deildar liðsins Grosswallstadt, er undir smásjá forráðamanna þýska 1. deildarliðsins Wetzlar. Þetta hefur Morgunblaðið samkvæmt öruggum heimildum. Samningur Sverres við Grosswallstadt rennur úr í vor en hann hefur leikið með liðinu frá árinu 2009 og verið fyrirliði síðustu ár. Reyndar er Sverre með ákvæði í samningi sínum við félagið að mögulegt sé að framlengja samninginn til vorsins 2015.

Sverre, sem er 36 ára gamall, sagði við Morgunblaðið í febrúar, þegar hann skrifaði undir nýjan samning við Grosswallstadt að hann reiknaði með að sá samningur yrði hans síðasti á ferlinum. Handknattleiksferill Sverres hefur hinsvegar verið ólíkur mörgum öðrum og þar af leiðandi kæmi ekki á óvart þótt hann flytti sig um set í vor. Forráðamenn Wetzlar hafa mikinn áhuga á að krækja í Sverre og gera við hann eins eða jafnvel tveggja ára samning samkvæmt heimildum.

Grosswallstadt féll úr 1. deildinni í vor eftir áratuga veru í efstu deild. Illa hefur gengið það sem af er leiktíðinni og er það á meðal neðstu liða 2. deildar með sex stig eftir átta leiki. iben@mbl.is