[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Nýjar mælingar sérfræðinga Íslenskra orkurannsókna sýna að Kötlutangi hefur að meðaltali minnkað um 100 metra á áratug, síðustu 60-70 ár. Hann er þó enn syðsti tangi meginlands Íslands og verður það næstu áratugina.

Baksvið

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Nýjar mælingar sérfræðinga Íslenskra orkurannsókna sýna að Kötlutangi hefur að meðaltali minnkað um 100 metra á áratug, síðustu 60-70 ár. Hann er þó enn syðsti tangi meginlands Íslands og verður það næstu áratugina. Dyrhólaey var áður syðsti tangi landsins og þar sem hún stendur staðföst styttist alltaf í að hún nái fyrri stöðu.

Kötlutangi liggur suður úr Mýrdalssandi, sunnan við Hjörleifshöfða. Hann hefur orðið til úr framburði Kötluhlaupa og byrjar síðan ávallt að eyðast. Kötluhlaup eru með mestu vatnsflóðum sem verða á jörðinni nú á tímum, eins og fram hefur komið hjá Helga Björnssyni prófessor. Gríðarlegt vatnsmagn kemur úr jöklinum á stuttum tíma þegar eldurinn bræðir ís yfir Kötluöskjunni.

Eyðist af útskögum

Kötlugosið 1918 er meðal stærstu gosa í eldstöðinni frá því land byggðist. Áætlað er að í hlaupinu hafi borist til sjávar um 200 milljón rúmmetrar af efni, mest Kötlugjósku. Mesta hlaupið fór um Hjörleifshöfða og sunnan við hann færðist ströndin fram um rúma þrjá kílómetra.

Mynduðust tveir tangar, sá stærri sunnan Hjörleifshöfða en annar vestar á sandinum, við Múlakvísl.

Fljótt eyddist mjög af „þeim útskögum“ eins og fram kemur í bæklingi sem Gísli Sveinsson sýslumaður skrifaði og Guðrún Þ. Larsen, jarðfræðingur hjá Raunvísindastofnun Háskóla Íslands, vitnar til. Svo virðist sem landaukinn sem varð til í hlaupinu hafi aðeins verið um 1.000 faðmar eftir miðjan fyrsta veturinn eftir gos, eða um 1,7 kílómetrar.

Ströndin er lifandi og síðan hefur hafið smám saman étið af Kötlutanga og hrifsað til sín eða fært eftir ströndinni. Sem dæmi um það má nefna að fjaran framan við þorpið í Vík færðist fram um 500-600 metra vegna sandflutninga frá Kötlutanga fram yfir 1970 en síðan hefur ströndin raunar hopað um 350 til 400 metra svo grípa hefur orðið til sérstakra ráðstafana til að verja þorpið.

Skúli Víkingsson, jarðfræðingur hjá Íslenskum orkurannsóknum, var við rannsóknir á Kötlutanga um helgina. Hann hefur mælt tangann áður með GPS-tækni og borið saman við kort sem gerð voru eftir myndum frá 1946 og 1988. Á þessum tíma hefur tanginn minnkað um 600 metra, eða hátt í 100 metra á ári.

Mat sem Sigurður Sigurðarson, verkfræðingur hjá siglingasviði Vegagerðarinnar, gerði vegna undirbúnings sjóvarna við Vík bendir til að Kötlutangi hafi gengið inn um 2,8 kílómetra við Hjörleifshöfða og 1,2 km við Múlakvísl. Styðst hann við teikningar sem eiga að sýna hvernig tanginn leit út eftir gosið.

Ekki eru aðgengilegar upplýsingar um hvað langt er í að ströndin færist að þeirri stöðu sem hún var í fyrir gos. Tíu ára gamlar gervihnattamyndir gefa til kynna að þá hafi Kötlutangi enn náð 500 metrum suður fyrir Dyrhólaey. Síðan gæti tanginn hafa styst um tæpa hundrað metra. Það hægist á eyðingunni eftir því sem tíminn liður. Því má telja að Kötlutangi haldi stöðu sinni sem syðsti tangi meginlandsins í einhverja áratugi til viðbótar og vitaskuld ennþá lengur ef Katla gamla bætir við hann efni.

Lítur út sem stór bær

Ungerskov skipstjóri á Geir kannaði Kötlutangann og sendi Krabbe vitamálastjóra símskeyti sem birt var í Morgunblaðinu 30. október: „Á svæðinu frá Múlakvísl, fjórar mílur austur fyrir Hjörleifshöfða hefur myndast nýtt land, um 1 sjómílu langt. [...] Þetta nýja land er þakið ísjökum allstórum, sumir þeirra um 30 metrar á hæð. Um svæði þetta renna nokkrar smá ár til sjávar. Af hafi lítur þetta land út sem stór bær með byggingar úr ísjökum og strætum úr ám.“