[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Rúnar Pálmason runarp@mbl.is Þrír norskir félagar í vélhjólaklúbbnum Devils Choice fóru aftur til Noregs í gær eftir að hafa verið vísað frá landi af yfirvöldum.

Sviðsljós

Rúnar Pálmason

runarp@mbl.is

Þrír norskir félagar í vélhjólaklúbbnum Devils Choice fóru aftur til Noregs í gær eftir að hafa verið vísað frá landi af yfirvöldum. Frávísunin byggðist á hættumati greiningardeildar ríkislögreglustjóra en Devils Choice er opinber stuðningsklúbbur Vítisengla, Hells Angels, sem lögregla hefur ítrekað bent á að tengist skipulagðri glæpastarfsemi.

Sex menn til viðbótar voru stöðvaðir á Keflavíkurflugvelli síðdegis í gær grunaðir um að vera liðsmenn Devils Choice. Í gærkvöldi var lögreglan að kanna hvort þeir væru meðlimir í klúbbnum. Fáist það staðfest er búist við því að þeim verði vísað úr landi í dag. Sex konur voru með mönnunum í för en þeim var sleppt að lokinni skýrslutöku. Hópurinn flaug hingað frá Ósló í Noregi og var samkvæmt upplýsingum frá lögreglu á leið í samkvæmi á vegum Devils Choice á Íslandi. Morgunblaðið óskaði í gær eftir viðtali við félaga í klúbbnum en fékk ekki svar við þeirri fyrirspurn.

Lögregla á Íslandi hefur árum saman barist gegn því að vélhjólagengi á borð við Vítisengla og Outlaws nái fótfestu hér og náð ágætum árangri. Karl Steinar Valsson, yfirmaður fíkniefnadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir að undanfarið hafi ekki verið mikil starfsemi í fyrrnefndum vélhjólagengjum og Devils Choice hafi fram til þessa ekki verið áberandi hér á landi. Aðspurður segir hann að það geti verið að fyrirhuguð heimsókn Norðmannanna sé til marks um að aukið líf sé að færast í starfsemi klúbbsins.

Starfa yfirleitt ekki sjálfstætt

Hjá Vítisenglum á Íslandi hefur ríkt forystukreppa a.m.k frá því að Einar Marteinsson, þá forseti Vítisengla á Íslandi, var hnepptur í gæsluvarðhald í tengslum við sérstaklega hættulega líkamsárás gegn konu í Hafnarfirði árið 2011. Einar var sýknaður af aðild en var settur af sem forseti í kjölfarið. Samkvæmt upplýsingum lögreglu er hann aftur tekinn við forystuhlutverki í klúbbnum.

Karl Steinar segir að ekki sé hægt að segja til um hvort heimsókn norskra félaga í Devils Choice hingað til lands muni renna styrkari stoðum undir starfsemi Vítisengla. Staðreyndin sé sú að þessir stuðningshópar hafa ekki starfað sjálfstætt heldur hafi verið í tengslum við móðurfélagið, Vítisengla, segir Karl.

Devils Choice á Íslandi hétu Hog Riders þar til nafninu var breytt árið 2011.

Svipuð þróun hefur átt sér stað í Danmörku og Noregi en í báðum löndunum hafa ýmsir stuðningsklúbbar Vítisengla kastað eldra nafni og tekið upp nafnið Devils Choice í staðinn. Þetta gerðist í Danmörku árið 2010 og í Noregi nú í haust þegar tíu norskir klúbbar skiptu um nafn. Þeirra á meðal voru þrír klúbbar sem áður gengu undir nafninu Hog Riders og störfuðu í Björgvin, Florø og Stafangri.

Í norskum fjölmiðlum kom fram að lögregla í Noregi liti svo á að þessi breyting myndi styrkja starfsemi Vítisengla.

Devils Choice starfar einnig í Danmörku og fer síður en svo í grafgötur með stuðning sinn við Vítisengla. Á vef klúbbsins kemur skýrt fram að Devils Choice sé „opinber stuðningsklúbbur Vítisengla.“

Á vef íslenska klúbbsins er ekkert fjallað um tengslin við Vítisengla en tengslin við Danmörku og Noreg fara ekkert á milli mála. Merkið er hið sama og þar er tengill á vef danska Devils Choice-klúbbsins.

Húsakynni Devils Choice á Íslandi eru í Skeiðarási 3 í Garðabæ og þar var klúbburinn einnig á meðan hann hét Hog Riders.

Í Vítisenglum og Devils Choice

Lögregla á Norðurlöndum og hér á landi er ekki í nokkrum vafa um að vélhjólagengin tengist skipulagðri glæpastarfsemi.

Meðlimir í þessum svokölluðu vélhjólagengjum, hvort sem um er að ræða Vítisengla, Devils Choice, eða önnur, þvertaka á hinn bóginn yfirleitt fyrir slík tengsl.

Reglulega berast þó fréttir af glæpum félaga í þessum samtökum og má m.a. benda á frétt sem dagblaðið Politiken flutti í janúar á þessu ári. Þar kom fram að þrír menn hefðu verið handteknir fyrir að hafa haft í fórum sínum 180 kíló af hassi. Einn þeirra sem voru handteknir, 58 ára karlmaður, var fullgildur meðlimur í Vítisenglum en annar, 47 ára karlmaður, var félagi í Devils Choice.

Og það er ekki bara lögreglan sem hefur áhyggjur af starfseminni. Í skýrslu Dönsku miðstöðvarinnar fyrir rannsóknir í velferðarmálum, SFI, frá því fyrr á þessu ári kemur fram að Devils Choice sé andlýðræðislegur og ofurhægrisinnaður hópur. Er félagsskapurinn þar settur í flokk með Danish Defence League og Danskernes Parti, en báðir þessir hópar aðhyllast öfgahægristefnu.

Gengið vel en of snemmt að fagna sigri

Í skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra um mat á skipulagðri glæpastarfsemi og hættu á hryðjuverkum, sem var gefin út í júlí á þessu ári, er fjallað um vélhjólagengi. Þar segir að m.a. að íslenska lögreglan hafi lagt þunga áherslu á að berjast gegn þessari „birtingarmynd skipulagðrar glæpastarfsemi“. Fylgt hafi verið stefnu sem m.a. hefur falið í sér að erlendum félögum í vélhjólagengjum á borð við Hells Angels og Outlaws hefur verið meinuð landganga við komuna til Íslands.

Í febrúar á þessu ári gripu norsk yfirvöld til svipaðra meðala þegar þau vísuðu íslenskum liðsmönnum Hog Riders frá Noregi en þá höfðu þrettán íslenskir og danskir liðsmenn klúbbsins verið handteknir í aðgerðum lögreglunnar í Kjøkkelvik.

Í skýrslu greiningardeildarinnar frá því í sumar segir að hún telji vísbendingar vera í þá átt að hertar aðgerðir lögreglu og aukin áhersla á að hefta brotastarfsemi félaga í vélhjólagengjum hafi skilað umtalsverðum árangri og veikt klúbba þessa á mörgum sviðum. Greiningardeildin hvetur þó til þess að menn forðist að hrapa að ályktunum í þessu efni. Ráðlegt sé að „horfa til stöðunnar nú sem „millibilsástands“ og telur líklegt að reynt verði á næstu misserum að hleypa nýju lífi í klúbba þessa.“