— Ljósmynd/Øyvind Hagen – Statoil ASA
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eigi að hefja starfsemi á Drekasvæðinu verður að auka mjög getu hér á landi til að bregðast við verði óhapp eða slys á svæðinu. Þetta er mat Björns Karlssonar, verkfræðings og sérfræðings á sviði áhættuverkfræði.

Eigi að hefja starfsemi á Drekasvæðinu verður að auka mjög getu hér á landi til að bregðast við verði óhapp eða slys á svæðinu. Þetta er mat Björns Karlssonar, verkfræðings og sérfræðings á sviði áhættuverkfræði.

Öryggismál á hafísslóðum voru á dagskrá alþjóðlegu hafísráðstefnunnar í gær. Björn hélt þar erindi sem hann byggði á aðferðafræði áhættumats (risk evaluation), áhættugreiningar (risk analysis) og áhættustjórnunar (risk management). Björn var prófessor við verkfræðideild Háskólans í Lundi í 17 ár og kenndi m.a. áhættuverkfræði.

Aðferðafræði áhættustjórnunar er hægt að nota til að meta áhættu og eins hvaða forvarnir geta minnkað hana. Þá er hægt að meta hvaða viðbúnaður þarf að vera til staðar reynist forvarnirnar ekki fullnægjandi. Björn tók dæmi af mögulegri olíuvinnslu á Drekasvæðinu norðaustur af Íslandi.

„Eigi að fara út í mikla starfsemi þarna fyrir norðaustan Ísland er alveg ljóst að það verður að auka viðbúnað,“ sagði Björn í samtali við Morgunblaðið. Hann sagði að Landhelgisgæslan væri sérfróð á sviði björgunarstarfa og hefði byggt upp sambönd við viðbragðsaðila í nágrannaríkjum okkar.

„Gerist stóratburður á Drekasvæðinu verðum við að geta nýtt okkur sambönd og búnað nágrannaríkja. Landhelgisgæslan hefur verið mjög öflug í að taka þátt í alþjóðlegum æfingum. Ég tel einnig ljóst að hefjist þarna starfsemi þá verðum við að efla Landhelgisgæsluna og skoða miklu betur þyrlugetuna.“

Drekasvæðið er um 400 km norðaustan við Ísland. Björn sagði tæpast hægt að nota þyrlur til að sinna svæðinu frá Íslandi nema einhvers konar björgunarpallur eða björgunarskip væri staðsett á leiðinni.

Björn sagði að sú krafa hlyti að verða gerð til þeirra sem fá starfsleyfi til olíuvinnslu á Drekasvæðinu að þeir komi upp björgunarpalli eða verði með björgunarskip á leiðinni milli Íslands og olíuvinnslusvæðisins. Einnig þurfi að gera kröfu um náið samstarf þeirra við Landhelgisgæsluna og aðra björgunaraðila hér á landi þannig að hægt verði að samnýta tæki verði þörf á því

„Samtímis verður skynsamlegt fyrir Íslendinga að auka getu Landhelgisgæslunnar til björgunarstarfa,“ sagði Björn. Hann sagði marga möguleika vera í stöðunni, til dæmis að setja upp björgunarmiðstöð á norðausturhorni landsins. Nota megi aðferðafræði áhættugreiningar til að meta möguleikana og kostnaðinn við þá. Eins þyrfti að meta hverju mætti ná með samstarfi við nágrannaþjóðir. gudni@mbl.is

Olíuvinnslusvæði
» Talið er að mögulega sé að finna jarðolíu eða jarðgas í nýtanlegu magni á tveimur svæðum á landgrunni Íslands.
» Svæðin eru Drekasvæðið, austur og norðaustur af Íslandi, og Gammasvæðið sem er úti fyrir Norðurlandi.
» Orkustofnun gaf út tvö sérleyfi í janúar 2013 til rannsókna og vinnslu kolvetnis á Drekasvæðinu.