Viðar Guðjónsson vidar@mbl.

Viðar Guðjónsson

vidar@mbl.is

Arnar Marteinsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, var fenginn til að leika og til ráðgjafar um það hvernig kljást eigi við skrímsli í sænskri mynd sem nefnist Zone 261 í leikstjórn hins sænska Fredericks Hillers. Umrætt atriði var tekið upp í Landskrona í Svíþjóð á þriðjudag. Þangað fór hann ásamt Sölva Fannari Viðarssyni og sterkasta manni Íslands, Hafþóri Júlíusi Björnssyni, og þremur öðrum Íslendingum sem einnig leika í kvikmyndinni.

„Við erum í hlutverki íslenskra víkingasveitarmanna við æfingar í Svíþjóð þegar upp kemur ófremdarástand,“ segir Arnar um hlutverkið. „Við Íslendingarnir hjálpuðum aðalsöguhetjunni við að komast í gegnum hóp skrímsla,“ segir Arnar

Hann segir að í atriðinu hafi þeir verið í vestum sem íslenska lögreglan notar. Því hafi honum reynst auðvelt að setja sig inn í hlutverkið. „Fyrirfram var ég alls ekkert viss um að ég vildi taka þátt í þessu en lét til leiðast eftir smá umhugsun,“ segir Arnar. Spurður hvers vegna hann var fenginn í hlutverkið segir hann það hafa verið vegna kunningsskapar auk þess sem hann þekkir tökin á skrímslum. „Við notuðum sömu tækni við skrímslin og við notum í starfinu. Til þess látum við fremstan sterkasta mann Íslands og látum hann bera skjöld og vélbyssu. Svo röðum við okkur í kring og keyrum í gegnum hópinn,“ segir Arnar og hlær.

Töluð er enska, sænska og íslenska í myndinni og er áætlað fjármagn til kvikmyndagerðarinnar um 31 milljón sænsk króna, eða sem nemur um 586 milljónum íslenskra króna.