Útlit Kirkja rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar var sýnd of lág á mynd sem upphaflega var birt á vef Reykjavíkurborgar. Í gær fékk Morgunblaðið nýja mynd frá borginni, sem á að sýna kirkjuna eins og hún muni líta út í réttum hlutföllum. Hús Daða Guðbjörnssonar sést t.v. við hlið kirkjunnar.
Útlit Kirkja rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar var sýnd of lág á mynd sem upphaflega var birt á vef Reykjavíkurborgar. Í gær fékk Morgunblaðið nýja mynd frá borginni, sem á að sýna kirkjuna eins og hún muni líta út í réttum hlutföllum. Hús Daða Guðbjörnssonar sést t.v. við hlið kirkjunnar. — Tölvugerð mynd/Reykjavíkurborg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ómar Friðriksson omfr@mbl.is Daði Guðbjörnsson listmálari er allt annað en sáttur við fyrirhugaða kirkjubyggingu fyrir söfnuð rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar, sem reisa á milli Nýlendugötu og Mýrargötu.

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Daði Guðbjörnsson listmálari er allt annað en sáttur við fyrirhugaða kirkjubyggingu fyrir söfnuð rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar, sem reisa á milli Nýlendugötu og Mýrargötu.

Daði býr í einbýlishúsi í nokkurra metra fjarlægð frá fyrirhugaðri kirkju og sendi hann inn athugasemdir og mótmæli við tillögu umhverfis- og skipulagssviðs borgarinnar um breytingar á deiliskipulagi Nýlendureits.

Turnarnir í 22 metra hæð

Hámarks vegghæð kirkjunnar má vera allt að 17 metrum á kirkjuskipinu og turnarnir í 22 metra hæð að krossi undanskildum. Þá er aðeins gert ráð fyrir 4 bílastæðum við bygginguna.

,,Ég sé enga glóru í þessu,“ segir Daði. „Ef maður sér þetta út frá fagurfræðinni þá finnst mér byggingin ofboðslega stór og úr takti við það sem fyrir er,“ segir hann.

Daði segir að þegar búið er í borg megi vissulega alltaf eiga von á að byggt verði í kring en staðsetning þessarar kirkju sé alveg út úr korti. Hann setur þetta líka í sögulegt samhengi og minnir á að á þessu svæði var þungamiðjan á einu helsta athafnasvæði borgarinnar við sjóinn fyrir 100 árum en mannvirki sem tilheyrðu þeirri sögu séu horfin. Margir sjái eftir Daníelsslippnum sem hefði átt að friða, að mati Daða, sem kveðst þó sjá mest eftir skúrunum sem þarna voru og báru merki um baslbúskapinn, sem er sérstakur kapítuli í íslenskri atvinnusögu að sögn hans. ,,Þannig var hægt að rekja þessa sögu í gegnum áratugina og ég sé ekkert því til fyrirstöðu að endurbyggja þá. Ég er svo sem með ágætis hugmyndir ef menn vilja hætta við að reisa þessa kirkju.“

Munu frekar mótmæla kirkjunni en Bessastaðaveginum

Daði kveðst heldur ekki vera hrifinn af rússnesku rétttrúnaðarkirkjunni sem slíkri þó hann hafi ekkert á móti fólkinu sem í henni er og minnir á fréttir af stúlkunum í pönksveitinni Pussy Riot sem fangelsaðar voru vegna mótmæla og söngs í dómkirkju rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar í Moskvu.

Daði hefur enn engin viðbrögð fengið við athugasemdunum sem hann gerði við deiliskipulagstillöguna.

„Vinir mínir á Mokka munu frekar mótmæla kirkjunni heldur en Bessastaðaveginum en ég hef ekki ráðgert neitt svoleiðis,“ segir Daði, sem segir marga hafa komið að máli við hann um þetta hitamál.

Ekkert samráð haft

Ákvörðunin um að staðsetja kirkjuna á þessari lóð vekur líka spurningar að mati Daða um hvernig staðið er að úthlutun lóða í borginni og hvort menn hafi gert sér grein fyrir að um svona stóra byggingu yrði að ræða.

„Ég er alveg hættur að búast við neinu þó maður mótmæli því það er ekki tekið mark á manni. En það hefur ekki verið neitt samráð um þessa kirkju. Ég kalla það ekki samráð þegar sagt er, þið fáið þessa kirkju og þið megið mótmæla, heldur kalla ég það yfirgang með leyfi til þess að vera með eitthvert píp. Það lofar ekki góðu.“