Ólafur Teitur Guðnason
Ólafur Teitur Guðnason
Átta manns var sagt upp störfum við álverið í Straumsvík í gær og í fyrradag. „Við fækkum stöðugildum um allt að 40 en höfum sagt upp átta manns,“ sagði Ólafur Teitur Guðnason, upplýsingafulltrúi Rio Tinto Alcan á Íslandi.

Átta manns var sagt upp störfum við álverið í Straumsvík í gær og í fyrradag. „Við fækkum stöðugildum um allt að 40 en höfum sagt upp átta manns,“ sagði Ólafur Teitur Guðnason, upplýsingafulltrúi Rio Tinto Alcan á Íslandi. „Þetta er gert vegna mikils taprekstrar það sem af er árinu. Það varð tæplega tveggja milljarða tap hjá okkur í fyrra og það er ennþá tap á þessu ári.“

Ólafur sagði lágt álverð helst skýra lélegt gengi fyrirtækisins, en þar að auki hefur verð á aðföngum hækkað. „Við höfum verið í miklu aðhaldi og teljum okkur erfiðlega geta gengið lengra í því. Hefðbundnar fjárfestingar til rekstrar hafa verið dregnar saman um tvo milljarða miðað við árið í fyrra, og dregið úr viðhaldi um átta hundruð milljónir. Það var ekki fyrr en í lengstu lög að við fórum í uppsagnir.“

Ólafur sagði minna viðhald og fjárfestingu ekki koma niður á öryggi starfsmanna fyrirtækisins.

„Þetta er í annað sinn á árinu sem gripið er til uppsagna, í febrúar sögðum við upp 15 manns.“ Uppsagnirnar voru innan allra deilda fyrirtækisins. gunnardofri@mbl.is