— Morgunblaðið/RAX
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðni Einarsson gudni@mbl.is Góðar upplýsingar um hafís eru mjög mikilvægar til að tryggja öryggi sæfarenda um hafíssvæði heimsins.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Góðar upplýsingar um hafís eru mjög mikilvægar til að tryggja öryggi sæfarenda um hafíssvæði heimsins. Alþjóðleg ráðstefna um hvernig afla megi og miðla slíkum upplýsingum sem best hefur staðið yfir í Reykjavík frá því á mánudaginn var. Ráðstefnunni lýkur í dag.

International Ice Charting Working Group er einn helsti alþjóðlegi samstarfsvettvangur hafísfræðinga. Þar er fjallað um vöktun hafíss með gervitunglamyndum, rauntímaeftirlit, miðlun upplýsinga til sjófarenda, horfur í hafísmálum á næstu árum og áratugum og öryggismál á hafsvæðum þar sem vænta má hafíss og borgarísjaka.

Ingibjörg Jónsdóttir, hafísfræðingur og dósent við Jarðvísindastofnun HÍ, sagði að mikið hefði verið fjallað um öflun og miðlun upplýsinga um hafís til að efla öryggi sjófarenda á ráðstefnunni. Á því sviði hafa verið gerðar miklar rannsóknir og hafa þær leitt til betri árangurs t.d. með samþættingu gervitunglamynda og líkana eins og reklíkana. Það getur m.a. gefið upplýsingar um hvar má vænta þess að hafís þéttist. Svo má tengja niðurstöðurnar við upplýsingar um útbreiðslu hafíss samkvæmt gervitunglamyndum.

„Þetta snýst mikið um að sameina kraftana og ná því besta út úr gögnunum. Með því að samkeyra upplýsingar úr mismunandi gagnauppsprettum er oft hægt að fá miklu meira en hver uppspretta gefur ein og sér,“ sagði Ingibjörg. „Þessi hópur hefur miklar áhyggjur af því að þótt hafísþekjan skreppi saman þá eru svo miklar breytingar á milli ára og eins á milli svæða. Fólk hefur lent í alls konar vandræðum þegar það hefur gengið út frá því að ísinn sé eins frá ári til árs en það er hann alls ekki. Auk þess er mikil aukning í skipaumferð um heimskautasvæðin sem skapar líka hættu.“

Um 55 erlendir gestir sóttu ráðstefnuna auk íslenskra sérfræðinga á ýmsum sviðum. Ráðstefnuna sátu m.a. fulltrúar olíufélaga sem stunda olíuvinnslu í norðurhöfum, skipasmíðastöðva sem hanna og smíða ísbrjóta, flutningafyrirtækja, veðurstofa, allra helstu hafísmiðstöðva heimsins, háskólasamfélagsins og alþjóðastofnana á ýmsum sviðum.

Gestgjafar ráðstefnunnar voru Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands og Veðurstofa Íslands í samstarfi við Hafrannsóknastofnun, Landhelgisgæsluna, Mannvirkjastofnun, Siglingastofnun og fleiri.