Til sölu Samkvæmt heimildum á kaupverðið á Skeljungi að vera um 10 milljarðar króna.
Til sölu Samkvæmt heimildum á kaupverðið á Skeljungi að vera um 10 milljarðar króna. — Morgunblaðið/Árni Torfason
Hörður Ægisson hordur@mbl.is Óvíst er hvort af sölu Skeljungs verður til framtakssjóðs sem er rekinn af sjóðsstýringarfyrirtækinu Stefni.

Hörður Ægisson

hordur@mbl.is

Óvíst er hvort af sölu Skeljungs verður til framtakssjóðs sem er rekinn af sjóðsstýringarfyrirtækinu Stefni. Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir, sem á 94% hlut í Skeljungi ásamt eiginmanni sínum Guðmundi Þórðarsyni, segir í samtali við Morgunblaðið að það sé auðvitað ákveðið áhyggjuefni hversu langan tíma þetta ferli hefur tekið. Óhjákvæmilega verði þau að meta hvort rétt sé að halda áfram með söluferlið á félaginu í ljósi þeirrar óvissu um hvenær hægt verði að ljúka sölunni. Slík ákvörðun verði ávallt tekin í samvinnu við Stefni og með hagsmuni Skeljungs að leiðarljósi.

Hún bendir á að frá því að gengið var frá samkomulagi um kaup á félaginu séu liðnir fimm mánuðir og öll stærri og stefnumótandi ákvörðunartaka í biðstöðu og slíkt er er aldrei gott til lengri tíma. „Áframhaldandi óvissa um framtíðareignarhald mun óhjákvæmilega koma niður á rekstrinum,“ segir Svanhildur.

Samkeppniseftirlitið hefur haft kaupin til skoðunar, en það hefur 25 virka daga til þess að skoða þau út frá samkeppnissjónarmiðum eftir að formleg samrunatilkynning berst. Sé þörf á frekari rannsóknum hefur það 70 virka daga til viðbótar. Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, staðfestir í samtali við Morgunblaðið að eftirlitið hafi nýlega hafið sérstaka rannsókn á kaupunum þar sem öll samkeppnisleg áhrif verði skoðuð, þar á meðal eignarhaldið. Til standi að hraða rannsókninni eins og kostur er.

Eignarhald lífeyrissjóða skoðað

Að baki framtakssjóði Stefnis, sem er dótturfélag Arion banka, standa lífeyrissjóðir, fagfjárfestar og tryggingafélög. Ljóst er að Samkeppniseftirlitið mun einkum horfa til þess hvaða áhrif það hefur á samkeppni á eldsneytismarkaði að lífeyrissjóðir eignist stóran hlut í Skeljungi. Nú þegar eru lífeyrissjóðir, ásamt Framtakssjóði Íslands, sem er að mestu í eigu lífeyrissjóða, helstu eigendur N1, en til stendur að skrá félagið á markað. Fram hefur komið að Samkeppniseftirlitið hafi áhyggjur af ógagnsæju eignarhaldi lífeyrissjóða í gegnum sjóði, sér í lagi í sameiginlegu eignarhaldi í tveimur eða fleiri keppinautum á markaði.

Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins á kaupverðið á Skeljungi – ef af sölunni verður – að vera hátt í tíu milljarðar króna. Fasteignafélag Skeljungs er ennfremur hluti af sölunni. Flóki Halldórsson, framkvæmdastjóri Stefnis, vildi ekki tjá sig neitt um kaupverðið.

Hagnaður Skeljungs á síðasta ári nam 49 milljónum króna. EBITDA-rekstrarhagnaður stóð nánast í stað milli ára og var tæplega 1,6 milljarðar. Eignir félagsins í árslok 2012 voru 17,6 milljarðar og eigið fé um 5,6 milljarðar.

Mikil uppstokkun virðist að óbreyttu framundan í eigendahópi olíufélaganna. Frá því var sagt í Viðskiptablaðinu 10. október sl. að allt hlutafé Olís væri til sölu. Einar Benediktsson, forstjóri Olís, á 12,5% hlut í félaginu líkt og Gísli Baldur Garðarsson. Samherji og Fisk-Seafood, dótturfélag Kaupfélags Skagfirðinga, eiga hvort um sig 37,5%.