Skírn Vilhjálmur Bretaprins og Katrín eiginkona hans með soninn Georg Alexander Loðvík í konunglegu kapellunni í Höll heilags Jakobs.
Skírn Vilhjálmur Bretaprins og Katrín eiginkona hans með soninn Georg Alexander Loðvík í konunglegu kapellunni í Höll heilags Jakobs. — AFP
Bogi Þór Arason bogi@mbl.is Georg Bretaprins var skírður í konunglegu kapellunni í Höll heilags Jakobs í Lundúnum í gær. Justin Welby, erkibiskup af Kantaraborg, skírði prinsinn og jós hann helgu vatni úr ánni Jórdan. Georg Alexander Loðvík fæddist 22.

Bogi Þór Arason

bogi@mbl.is

Georg Bretaprins var skírður í konunglegu kapellunni í Höll heilags Jakobs í Lundúnum í gær. Justin Welby, erkibiskup af Kantaraborg, skírði prinsinn og jós hann helgu vatni úr ánni Jórdan.

Georg Alexander Loðvík fæddist 22. júlí og 22 gestir voru viðstaddir skírnina. Vilhjálmur Bretaprins og Katrín hertogaynja, eiginkona hans, geisluðu af gleði og stolti þegar þau héldu á syni sínum til skírnar.

Skírnarkjólinn er eftirlíking af blúndu- og satínkjól sem saumaður var fyrir elstu dóttur Viktoríu drottningar, Viktoríu, árið 1841. Í þeim kjól voru yfir 60 börn í bresku konungsfjölskyldunni skírð, þeirra á meðal börn og barnabörn Elísabetar drottningar, meðal annars Vilhjálmur prins.

Á meðal gesta við athöfnina voru Elísabet drottning, sem er orðin 87 ára, Filippus drottningarmaður, foreldrar Vilhjálms og Katrínar, og fleiri ættingjar og vinir.

Sjö guðforeldrar

Athöfnin var falleg og tiltölulega látlaus, enda hafa Vilhjálmur prins og Katrín sagt að þau vilji að sonurinn fái eðlilegt uppeldi þótt hann sé þriðji í erfðaröð bresku krúnunnar. Þau vilja t.a.m. að hann verði sem minnst í sviðsljósi fjölmiðlanna. Þetta er reyndar í fyrsta skipti sem Georg litli er sýndur opinberlega frá því foreldrarnir fóru með hann heim til sín af fæðingardeild sjúkrahúss í Lundúnum.

Við athöfnina voru sjö guðforeldrar beðnir um að veita Georg prins leiðsögn á uppvaxtarárunum. Foreldrar barnsins rufu gamla hefð með því að tilnefna aðeins eitt guðforeldri úr konungsfjölskyldunni. Á meðal guðmæðranna er Zara Phillips, dóttir Önnu prinsessu, föðursystur Vilhjálms prins.

Á meðal guðfeðranna voru tveir æskuvinir Vilhjálms, William van Cutsen og Earl Hugh Grosvenor.

Julia Samuel, náin vinkona Díönu prinsessu, móður Vilhjálms, er á meðal guðmæðranna ásamt Emiliu Jardine-Paterson, skólasystur Katrínar. Vinur Vilhjálms og Katrínar, Oliver Baker, sem þau kynntust í St Andrew's-háskóla í Skotlandi, var einnig á meðal guðforeldranna sjö, auk aðstoðarmanns Vilhjálms, Jamie Lowther-Pinkerton.

„Einstök, söguleg stund“

Nokkrir Bretar sváfu í tjöldum við höllina nóttina fyrir skírnarathöfnina til að vera vissir um að missa ekki af tækifærinu til að sjá drottninguna og erfingja hennar, þá Karl krónprins, Vilhjálm prins og Georg. „Þetta er mjög sérstök stund. Við sjáum hér þrjá verðandi konunga,“ hefur fréttaveitan AFP eftir einum Bretanna. „Þetta er einstök, söguleg stund.“