Starfsmaður Bjarni Geir Alfreðsson var önnum kafinn að elda mat í Kaffistofu Samhjálpar í gær.
Starfsmaður Bjarni Geir Alfreðsson var önnum kafinn að elda mat í Kaffistofu Samhjálpar í gær. — Morgunblaðið/Rósa Braga
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

„Mér líður mjög vel hérna og þetta er öðruvísi en ég á að venjast enda eltist ég ekki lengur við skottið á mammon,“ segir Bjarni Geir Alfreðsson, starfsmaður á Kaffistofu Samhjálpar í Borgartúni síðan í vor.

Bjarni var áður veitingamaður á veitingastaðnum á BSÍ í tæplega 20 ár. „Þá gerðist ég sérstakur verndari íslenska sviðakjammans og kom honum í heimspressuna,“ rifjar hann upp. Bætir við að nú gegni hann öðru hlutverki. „Nú reyni ég fyrst og fremst að bæta umhverfi skjólstæðinga Samhjálpar,“ segir hann og vísar til mikilvægis þess að hafa einn miðlægan lager fyrir hjálparstarfið. Bendir einnig á hvernig hann vilji tengja matargerðarlistina við Samhjálp. Nefnir í því sambandi að sl. sunnudag, á alþjóðadegi matreiðslumeistara, hafi sjö matreiðslumenn og þar af þrír úr kokkalandsliðinu, séð um matinn, matreiðslumenn frá Sushi Samba hafi eldað tvo mánudaga í röð og von sé á matreiðslumönnum frá veitingastaðnum Lemon í desember. „Ég reyni að tengja fagmennina við staðinn, fá þá til að koma hingað og gefa sína vinnu og láta þannig gott af sér leiða í kærleikanum,“ segir hann.

Snæðingur enginn kórdrengur

Bjarni segist ekki hafa verið neinn kórdrengur og þegar honum hafi verið boðið að vinna fyrir Samhjálp hafi hann ákveðið að snúa blaðinu við.

„Eins og margir vita hef ég barist við fíkn alla mína tíð og hún hefur erfst í börnin mín,“ játar hann. „Það hafa verið erfiðleikar hjá yngstu dóttur minni og þeir voru kveikjan, viljinn til að komast sem næst þessu umhverfi og reyna að ná tökum á því. Auk þess langaði mig ekki til þess að halda áfram í þessum hefðbundna veitingarekstri.“

Bjarni hefur lengst af starfað sjálfstætt. „Ég var hæfileikaríkur, ungur maður sem lenti út af sporinu, þvældist úti á sjó og vann á ýmsum veitingastöðum,“ segir hann, en telur sér til tekna að hafa fyrstur boðið upp léttvínsstað hérlendis, Versali í Kópavogi. „Það var brautryðjandastarf,“ segir hann hreykinn.

Eitt uppnefni hefur fest við Bjarna. Þegar hann var unglingur segir hann að allir hafi talað um að fara heim að éta. „Þá komst ég að því að til var gamalt orð, að snæða, sem þýddi það sama. Ég fór að nota það og hélt því áfram þó að gert væri grín að mér. Þegar ég fór að læra matreiðslu festist þetta við mig og sjálfur hef ég haldið því við. Hef verið kallaður Bjarni snæðingur síðan.“

Ekki gefið að vera réttum megin

Í Kaffistofu Samhjálpar býður Bjarni Geir Alfreðsson upp á hlaðborð frá morgni fram á miðjan dag auk þess sem heitur matur er borinn fram upp úr hádeginu. Á hlaðborðinu eru gjafir úr bakaríum auk þess sem álegg, súrmjólk og fleira er á borðum. „Við höfum haft feikinóg af hráefni til þess að elda heitan mat fyrir 100 manns plús á hverjum einasta degi,“ segir hann og vísar til gjafmildi fyrirtækja og einstaklinga í þessu efni.

Gestirnir eiga það sammerkt að vera utangarðs á einn eða annan hátt, jafnt Íslendingar sem útlendingar. „Þetta er fólk sem hefur lent utan við kerfið, en ég kann mjög vel við mig í þessu umhverfi,“ segir Bjarni.

Að sögn Bjarna er vinnustaðurinn ekki alveg hættulaus, en hann þekki marga skjólstæðingana frá fyrri tíð. „Ég er þakklátur fyrir að vera hérna megin við borðið. Það er ekki gefið.“