[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Ágúst Ásgeirsson agas@mbl.is Mikil sigling hefur verið á evrópska flugvélaframleiðandanum Airbus undanfarnar vikur og mánuði. Hverja risapöntunina á fætur annarri hefur rekið inn á borð hans og miklir landvinningar verið unnir.

Fréttaskýring Ágúst Ásgeirsson

agas@mbl.is

Mikil sigling hefur verið á evrópska flugvélaframleiðandanum Airbus undanfarnar vikur og mánuði. Hverja risapöntunina á fætur annarri hefur rekið inn á borð hans og miklir landvinningar verið unnir. Allt á kostnað keppinautarins Boeing sem mætt hefur miklu andstreymi, aðallega vegna hrakfara nýstárlegu koltrefjaþotunnar, Draumfarans, Boeing 787, sem kyrrsett hefur verið hvað eftir annað á árinu vegna búnaðargalla og bilana.

Einna mesta athygli vakti er tilkynnt var 7. október að Japan Airlines (JAL) hefði pantað 31 A350-þotu frá Airbus fyrir 9,8 milljarða dollara – jafnvirði um 1.200 milljarða króna – og tekið frá smíði 25 slíkra til viðbótar. Þar er um að ræða nýjustu flugvél evrópska þotusmiðsins, sem fór í sitt fyrsta flug 14. júní sl. frá Toulouse-Blagnac-flugvellinum í Frakklandi. Eins og 787 Dreamliner Boeing er skrokkur hennar og vængir að megninu til úr koltrefjum og er A350 fyrsta Airbus-flugvélin úr því smíðisefni. Fyrirtækið heldur því fram að 350-þotan verði nokkru sparneytnari en Draumfarinn og rekstrarkostnaður 8% minni.

Söguleg umskipti

Hér er um sögulegan atburð að ræða. Airbus hafði um 40 ára skeið gert nær árangurslausar tilraunir til að ná fótfestu í Japan. Eftir allan þann tíma eru aðeins 44 Airbusþotur í þjónustu þarlendra flugfélaga. Boeing hefur verið allsráðandi í Japan og markaðurinn þar í landi verið sá mikilvægasti fyrir Draumfarann. JAL var annar tveggja frumkaupenda hans en er að snúa baki við Boeing vegna áralangra seinkana við þróun og smíði þotunnar og tæknilegra vandamála. Sérfræðingar halda því fram að mjög miklar líkur séu á að hinn frumkaupandi þotunnar, All Nippon Airways (ANA), muni leggja sína næstu stórpöntun inn hjá Airbus en ekki Boeing. Má með sanni segja að Airbus hafi gert vel heppnað strandhögg í Japan; nýjar lendur verið unnar. JAL hafði aldrei áður keypt hinar evrópsku þotur, einvörðungu verslað við Boeing.

Bæði JAL og ANA höfðu stungið í stúf meðal stórra flugfélaga fyrir þá staðfestu sína að fljúga einvörðungu Boeing-þotum. Bandaríski þotusmiðurinn lagði mikið upp úr því að halda þessari sérstöðu og fól því japönskum undirverktökum að smíða sem svarar 35% Draumfarans, í verðmæti vélarinnar talið, þar á meðal hluta vængja og skrokks. Fyrir þessu greiddi japanska stjórnin með fjárstuðningi við undirverktakana. ANA varð fyrsta félagið til að panta 787-þotuna og hefur keypt fleiri slíkar en nokkurt annað flugfélag. JAL varð annað félagið til að kaupa þotuna. En þriggja ára seinkanir vegna tæknilegra vandræða við þróun og smíði Draumfarans – að viðbættu flugbanni í þrjá mánuði snemma árs vegna elds í rafgeymum – hefur orðið til þess að tiltrú hinna hollu japönsku flugfélaga er lítil sem engin. Bæði JAL og ANA liðu fyrir flugbann á þotur þeirra en rafgeymaeldur kom upp í flugvélum beggja.

Boeing reyndi í fyrstu að skella skuldinni á japanska framleiðendur rafgeyma Draumfarans. Nú þykir hins vegar ljóst að vandinn liggi í metnaðarfullri rafvæðingu stjórntækja þotunnar. Í stað þess að brúka þrýstiloft frá hreyflunum til að stjórna ýmissi starfsemi í Draumfaranum er fengið til þess rafmagn úr túrbínum þotunnar. Sérfræðingum þykir líklegt að Boeing hverfi smám saman frá þessu fyrirkomulagi rafvæðingar stjórnkerfanna.

Svo mikil sigling hefur verið á evrópska flugvélaframleiðandanum, að Airbus náði sölutakmarki ársins 2013 á fyrstu níu mánuðunum er pantanir rufu þúsund eintaka múrinn. Í lok september höfðu 1.062 flugvélar verið pantaðar en 445 þotur afhentar á sama tíma. Rúmlega 600 þotur verða afhentar í ár og enn fleiri 2014. Vel á sjötta þúsund þotur eru í pöntunarbókum Airbus og taka mun um átta ár að afgreiða þær allar. Samkvæmt upplýsingum ráðgjafafyrirtækisins AirInsight voru pantanir Airbus 50 fleiri en í þotur Boeing um síðustu mánaðamót. Alls eru 80% pantananna á þotum með einum gangvegi en meira er upp úr smíði og sölu á breiðþotum og langdrægum þotum að hafa. Á því sviði hefur Boeing haft talsvert forskot undanfarin ár en þar hefur verið að draga saman með framleiðendunum tveimur líka. Til septemberloka hefur 181 slík verið pöntuð hjá Boeing en aðeins tylft færri hjá Airbus.

Ætla sér fram úr Boeing

Stjórnendur Airbus eru að vonum brattir vegna meðbyrsins. Þannig segir Fabrice Bregier, forstjóri Airbus, í nýlegu blaðaviðtali, að fyrirtækið muni taka fram úr Boeing og verða stærsti þotusmiður heims á næstu 4-5 árum. Hann segir að aukningin verði aðallega í farþegaþotum að gerðinni A320Neo og A350.

Airbus A350 þotan er langdræg tveggja hreyfla breiðþota sem flutt getur á milli 250 og 350 farþega í dæmigerðu þriggja klassa farþegarými en eftir einstökum undirtegundum geta farþegarnir verið allt að 550. Þegar þotan var á hugmyndastigi var ætlunin að byggja skrokk hennar á sama grunni og A330-þotunnar en því höfnuðu flugfélög sem þóttu líklegir kaupendur. Var hún því hönnuð upp á nýtt frá grunni 2006. Fyrsti kaupandi hennar er Qatar Airways, sem pantaði strax 80 þotur í þremur mismunandi útfærslum. Í millitíðinni hafa 37 önnur flugfélög og flugrekendur bæst í hópinn og alls 725 eintök af þotunni verið pöntuð nú í október, stuttu eftir að hún hóf reynsluflug, sem reynst hefur vandræðalaust. Á sama tíma hafa 950 pantanir borist í 787-þotuna sem hleypt var af stokkum þremur árum á undan Airbus-þotunni.

Áætlað hefur verið að A350-þotan hefji farþegaflug á miðju næsta ári. Engum blöðum er um það að fletta, að hún nýtur erfiðleika keppinautarins. Mörg hafa valið Airbus A330 í staðinn, tuttugu ára gamla smíðistækni sem þó hefur gott orð á sér fyrir áreiðanleika og rekstrarhagkvæmni. Boeing 777-þotan hefur og þótt góður valkostur en félög hafa þó haldið að sér höndum gagnvart henni þar sem búist er við að tilkynnt verði um nýja útgáfu af þessari vinsælu flugvél í næsta mánuði. Spurningin er hvort martröðin sem 787-þotan hefur reynst Boeing muni valda tregðu til pantana á nýju 777-þotunni. Hinn rótgróni bandaríski flugvélasmiður þarf á allt öðru að halda en því.

Hagfelldast var að panta Boeing 737MAX

„Í byrjun þessa árs gekk Icelandair frá pöntun á 16 vélum frá Boeing og mun afhending þeirra hefjast í byrjun árs 2018. Pöntunin var gerð í kjölfar mjög ítarlegrar greiningarvinnu og að sjálfsögðu voru allir kostir skoðaðir í þaula og þar á meðal Airbus.“

Þetta segir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, en félagið hefur haldið tryggð við Boeing frá því róttæk endurnýjun flugvélaflota félagsins hófst á níunda áratugnum. Hann var spurður hvað réði því.

„Mjög margir þættir koma til skoðunar við greiningarvinnuna og samanburðinn, þar á meðal verð, flughæfni og -drægni, áætlaður eldsneytis-, viðhalds- og þjálfunarkostnaður, hvaða vélar verða reknar samhliða nýju vélunum o.s.frv. Að teknu tilliti til allra þátta var það mat félagsins að það væri hagfelldast að panta Boeing 737MAX.“

Á sínum tíma skrifaði Icelandair sig fyrir Boeing-787-þotunni. Frá því var horfið síðar. Hvað réði þeirri ákvörðun?

„Icelandair Group pantaði á sínum tíma fjórar Boeing 787-vélar. Eins og fram kom í fréttatilkynningu frá Icelandair Group framseldi félagið þrjár af vélunum til Norwegian árið 2011. Vélin sem eftir stendur verður ekki rekin af Icelandair og mun flugfélag úti í heimi veita henni viðtöku. Boeing 787-vélarnar henta ekki núverandi leiðarkerfi Icelandair,“ segir Guðjón.

WOW bætir við Airbus-þotum

„Airbus A320-flugvélin er gríðarlega vel hönnuð flugvél og í dag hafa verið pöntuð hátt í 10.000 eintök af henni. Þegar vélin kom á markað braut hún blað í flugsögunni enda langt á undan sinni samtíð og þykir hönnun hennar vera einstaklega vel heppnuð,“ segir Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi WOW air.

„Frá fyrsta degi hafa Airbus-flugvélar flogið með farþega félagsins. Og þegar það fer að fljúga sínum eigin vélum mun WOW air halda tryggð við Airbus. Mun fyrsta íslenska skráða Airbus-þota félagsins vera Airbus A320.“

WOW air hefur hingað til leigt flugvélar af Avion Express og Air Via en bæði félögin reka Airbus-þotur. Kostinn við Airbus segir Svanhvít vera þann, að þær séu hagkvæmar í rekstri. Farþegar upplifi Airbus A320 sem hljóðláta og rúmgóða og þotan sé eyðslugrönn og mengi því minna en ella.

Að sögn Svanhvítar eru þrjár þotur í þjónustu WOW air í dag en þeim mun fjölga í fimm næsta vor.