Danski landsliðsmarkvörðurinn í handknattleik, Niklas Landin , gæti yfirgefið þýska liðið Rhein-Neckar Löwen en hann sagði við danska fjölmiðla í gær að Þýskalandsmeistarar Kiel og franska meistaraliðið Paris Handball hefðu sett sig í samband við...

Danski landsliðsmarkvörðurinn í handknattleik, Niklas Landin , gæti yfirgefið þýska liðið Rhein-Neckar Löwen en hann sagði við danska fjölmiðla í gær að Þýskalandsmeistarar Kiel og franska meistaraliðið Paris Handball hefðu sett sig í samband við umboðsmann sinn með það fyrir augum að fá hann til liðs við sig. Landin er samningsbundinn Löwen til ársins 2015. Sem kunnugt er þjálfar Guðmundur Þórður Guðmundsson liðið en mun yfirgefa það eftir tímabilið og snúa sér að þjálfun danska landsliðsins.

Blaksamband Íslands hefur fengið úthlutuð tvö mót í undankeppni EM smáþjóða næsta sumar. BLÍ sótti um bæði mótin í von um að fá annað þeirra en fékk þau bæði. Nokkuð er liðið síðan íslensku landsliðin spiluðu heimaleiki og því kominn tími til að fá leiki hingað heim. Íslensku liðin verða í eldlínunni á mótunum en karlamótið verður á undan frá 6.-8. júní með Skotlandi og Lúxemborg í þriggja liða riðli. Kvennakeppnin er dagsett frá 13.-15. júní og í þeim riðli verða lið Lúxemborgar, Liechtenstein og Færeyja.

Ange Postecoglou hefur verið ráðinn landsliðsþjálfari Ástralíu í knattspyrnu í stað Holgers Osiecks sem sagt var upp á dögunum eftir 6:0-skell liðsins í vináttuleik gegn Frökkum. Postecoglou verður fyrsti Ástralinn sem stýrir landsliðinu í úrslitakeppni HM í 40 ár. Postecoglou er 48 ára gamall og gildir samningur hans við ástralska knattspyrnusambandið til fimm ára.

Bandaríski landsliðsmaðurinn Oguchi Onyewu er genginn til liðs við enska B-deildarliðið QPR en eftir að hafa æft með liðinu síðustu vikurnar var honum boðinn samningur við Lundúnaliðið. Onyewu er 31 árs gamall varnarmaður sem hefur leikið 68 leiki með bandaríska landsliðinu. Hann kemur til QPR án greiðslu þar sem samningur hans við portúgalska liðið Sporting Lissabon rann út í sumar.