Baksvið
María Margrét Jóhannsdóttir
mariamargret@mbl.is
SÍBS fagnar 75 ára afmæli sínu í dag og stendur á tímamótum. Það var stofnað árið 1938 af sjúklingum sem glímt höfðu við berklaveiki og börðust fyrir úrræðum fyrir berklasjúklinga þegar vist á berklahælum lauk og út í lífið var komið. Afrakstur þessarar baráttu er til að mynda Reykjalundur en þangað leita um tvö þúsund manns endurhæfingar á ári hverju. Þá hefur happdrætti SÍBS frá árinu 1949 verið veigamikill þáttur í starfi samtakanna og hefur fjármagnað alla uppbyggingu á Reykjalundi.
Sigur hefur unnist á berklum en starfsemi SÍBS heldur áfram að þróast og ötullega er unnið að endurhæfingu og forvarnar- og fræðslustarfi.
Þjóðin styður góðan málstað
„Eitt það mikilvægasta sem hægt er að gera í dag er að stuðla að því að koma fólki sem lent hefur í áföllum aftur út í þjóðfélagið en SÍBS-vinir og happdrætti SÍBS hafa um áratugaskeið gert SÍBS kleift að byggja upp endurhæfingu fyrir fólk sem þarf að komast aftur út á vinnumarkaðinn,“ segir Guðmundur Löve, framkvæmdastjóri SÍBS. „Meðalaldur þeirra sem leita sér endurhæfingar á Reykjalundi er ekki nema 51 ár og þeir eiga því langt líf fyrir höndum og geta lagt mikið af mörkum ef endurhæfingin tekst vel. Happdrætti SÍBS fjármagnar uppbyggingu á Reykjalundi og er gríðarlega mikilvægt fyrir þjóðina. Það hafa tugir þúsunda Íslendinga notið endurhæfingar á Reykjalundi, 1.200 leita þangað á ári hverju auk 4-5.000 þúsund á göngudeild. Þetta er því mikilvæg heilbrigðisstarfsemi og öllum í hag að koma þessum einstaklingum aftur út í atvinnulífið. Það er greinilegur vilji hjá þjóðinni að styðja góðan málstað og ekki skaðar að eiga jafnvel von á vinningi. En við upplifum það þó að fólk er fyrst og fremst að taka þátt í happdrættinu til þess að styðja málstaðinn.“Aðspurður segir Guðmundur það ekki líklegt að sjóflugvél verði aftur í aðalvinning líkt og í happdrætti SÍBS árið 1946. Flugfélagið Vængir keyptu umrædda flugvél árið 1947 og hóf m.a. áætlunarflug milli Reykjavíkur og Akraness. Flugvélin lenti á Krossvíkinni og og var síðan ekið upp á Langasand. Það óhapp varð sumarið 1950 að vélin rakst á blindsker á Þingvallavatni og sökk. Hún var flutt í flugskýli á Reykjavíkurflugvelli og átti að gera hana upp. En síðan kom upp eldur í skýlinu og vélin skemmdist það mikið að hún var dæmd ónýt.
Tímamót hjá SÍBS
„SÍBS stendur nú á tímamótum. Áður börðust samtökin fyrir velferð berklasjúklinga en nú horfa samtökin í auknum mæli á lífsstílssjúkdóma sem herja á þjóðina af jafnmiklum þunga og berklarnir gerðu á sínum tíma. Lífsstílssjúkdómar eru þeir sjúkdómar sem orsakast af því vali sem við tökum í lífinu, fyrst og fremst í gegnum hreyfivenjur og mataræði og svefnvenjur. Samtökin hafa mikla reynslu af því að berjast gegn faraldri og hyggjast gera það aftur núna og einbeitum við okkur af krafti gegn lífsstílssjúkdómum á 21. öldinni.Stærsti einstaki áhættuþátturinn í heilsufari Íslendinga er mataræði, ekki tóbak, eiturlyf eða smitsjúkdómar heldur mataræði. Þetta veldur okkur mestum skaða. Þetta má sjá líka á heimsvísu en fleiri deyja vegna offitu heldur en vannæringu.
Þá notum við fjórum sinnum meira af svefnlyfjum og þunglyndislyfjum en nágrannaþjóðir okkar sem má að vissu leyti rekja til skammdegisins og þess að klukkan er vitlaust stillt á veturna.
Við verðum að vera upplýst um vandann og hvernig má leysa hann. Það þarf þjóðarsátt um breyttan lífsstíl og SÍBS vill vera leiðandi í því starfi,“ segir Guðmundur.
Ung systkin hrepptu sjóflugvél í vinning
Í bókinni Sigri lífsins - Sögu SÍBS 1938-2013 er rifjað upp þegar forláta flugvél var í aðalvinning í happdrætti SÍBS árið 1946. Fyrst kom vinningurinn á óseldan miða og þá var ákveðið að vélin skyldi dregin úr seldum merkjum í október. Það voru ung systkin úr Sörlaskjólinu sem hrepptu vélina, Björn Björgvinsson fjögurra ára og óskírð systir hans á fyrsta ári. Var Birni afhent vélin við hátíðlega athöfn þar sem hann þakkaði fyrir sig og fór í stutta flugferð með föður sínum. Síðar seldu foreldrarnir vélina.75 ára afmæli SÍBS haldið í Hörpu
• Bók um 75 ára sögu SÍBS kemur út SÍBS fagnar í dag 75 ára afmæli sínu með hátíðardagskrá í Norðurljósasal Hörpu þar sem forseti Íslands mun meðal annarra flytja ávarp. Við sama tækifæri kemur einnig út bókin Sigur lífsins, SÍBS í 75 ár 1938-2013. Höfundur bókarinnar er Pétur Bjarnason og myndritstjóri er Jóhannes Long. „Ég þekkti þessa sögu vel en ég vann fyrir SÍBS í ellefu ár. Mér finnst þessi saga merkileg og mér þótti mjög vænt um að fá þetta tækifæri. Stjórn SÍBS studdi mig vel til verka og lagði mikið af mörkum til að sjá til þess að bókin yrði vel úr garði gerð,“ segir Pétur.
Stórhuga stofnendur SÍBS
„Sagan er að mörgu leyti einstök en þetta eru fyrstu samtök sjúklinga hér á landi sem urðu til. Það sem einna helst stendur upp úr er hvað þessi sjúklingahópur sem stóð að stofnun félagsins var stórhuga og öflugur þrátt fyrir veikindin. Þetta var 28 manna hópur af fjórum berklahælum sem stóð að stofnun félagsins og hafði starfað að undirbúningnum í aðeins fjóra mánuði. Þessi hópur hélt ekki stofnfund heldur stofnþing og það var ekki fundarstjóri heldur forseti og formennirnir fyrstu áratugina voru titlaðir forsetar. Það er því ljóst að þeir ætluðu sér stóra hluti strax frá fyrsta degi og stóðu við það.Þá er það líka aðdáunarvert hve þjóðin studdi framtakið vel en berklar voru mikið þjóðarmein og höfðu víðtækar afleiðingar fyrir marga. Það voru fáar fjölskyldur sem ekki þekktu berklana, ýmist af eigin raun eða frá nágrönnum,“ segir Pétur.
mariamargret@mbl.is