Helgi Vífill Júlíusson
helgivifill@mbl.is
Stjórnendur fyrirtækja trúa því að þegar krónan veikist sé veikingin varanleg en þegar krónan styrkist sé það einungis tímabundið. Samt sem áður hefur krónan á síðustu þremur árum verið ein stöðugasta mynt í heimi samanborið við helstu viðskiptamyntir. Rekja má stöðugleikann til gjaldeyrishafta, segir Hafsteinn Hauksson, hagfræðingur á greiningardeild Arion banka.
Samkvæmt gögnum frá Seðlabanka Íslands brugðust stjórnendur fyrirtækja við um 30% gengisveikingu á fyrri hluta ársins 2008 með því að hækka vöruverð í um 60% tilvika. Aftur á móti þegar krónan styrktist á fyrri hluta ársins 2007 um 10% hafi þeir kosið að bregðast ekki við breytingunni í um 75% tilvika, líkt og sjá má á meðfylgjandi mynd.
Jafnvel þótt þetta séu ekki spánnýjar tölur telur Hafsteinn að stjórnendur í atvinnulífinu bregðist enn við gengisbreytingum með svipuðum hætti. „Með þeirri sögu sem krónan hefur síðustu 90 árin er eðlilegt að fólk telji að veiking hennar gangi ekki til baka en styrkingin hljóti að gera það. Það mun taka stjórnendur fyrirtækja einhver ár að aðlagast breyttum aðstæðum,“ segir hann í samtali við Morgunblaðið. En á rúmum 90 árum hefur íslenska krónan rýrnað um 99,95% gagnvart þeirri dönsku, en myntirnar voru jafngildar til ársins 1922. Má einkum rekja það til geysilegrar verðbólgu.
„Viðhorfskannanir stjórnenda stærstu fyrirtækja hafa stöðugt bent til þess frá fyrri hluta árs 2011 að meirihluti þeirra telur að krónan sé aðþrengd og trúi því að hún sé alveg við það að veikjast vegna mikils þrýstings. Reyndin er þó sú að gengi krónu hefur haldið sjó frá mars 2011,“ segir hann.
Vandi Seðlabankankans
Seðlabankanum er vandi á höndum við stýringu peningamálastefnunnar vegna þess að fyrirtæki lækka ekki vöruverð þegar krónan styrkist, að sögn Hafsteins. „Seðlabankinn getur til dæmis brugðist við með því að hækka vexti eða beita inngripum og í kjölfarið styrkist krónan mögulega en það nægir ekki til að ná verðbólgu hratt niður af því að gengis- og verbólguvæntingar skortir alla kjölfestu,“ segir hann. Aðrir seðlabankar hafi jafnvel þurft að ganga svo langt í aðhaldi peningastefnunnar að skapa kreppu til að ná niður verðbólguvæntingum. „Það er ekki þar með sagt að Seðlabanki Íslands eigi að gera slíkt hið sama en það sýnir hve erfitt það er að ná niður verðbólguvæntingum eftir langvarandi verðbólguskeið. Þetta er sársaukafullt ferli og tímafrekt,“ segir hann.Krónan hefur á undanförnum þremur árum verið ein stöðugasta mynt heims borið saman við helstu myntir. Hafsteinn nefnir að langflestar erlendar myntir sem hann hafi skoðað hafi sveiflast álíka mikið nú og þær gerðu fjórum árum fyrir hrun. Krónan skeri sig þar úr og sé orðin mun stöðugri. Hann segir að áhugavert sé að horfa til svissneska frankans. Fyrir bankahrun hafi gjaldmiðillinn verið afar stöðugur en nú sé hann orðinn óstöðugri. „Ástæðuna má ekki rekja til þess að honum hafi verið illa stjórnað, heldur einmitt til þess að honum er vel stjórnað. Fjárfestar urðu óttaslegnir yfir þeim vanda sem evrusvæðið glímir við og hafa því hlaupið til og keypt franka. Gjaldmiðillinn varð því mjög óstöðugur í miklum styrkingarfasa.“
Gengi krónu heldur sjó
» Viðhorfskannanir stjórnenda stærstu fyrirtækja hafa stöðugt bent til þess frá fyrri hluta árs 2011 að meirihluti þeirra telur að krónan sé aðþrengd og trúir því að hún sé alveg við það að veikjast vegna mikils þrýstings.
» Hagfræðingur segir að reyndin sé þó sú að gengi krónu hefur haldið sjó frá mars 2011.