Guðmundur Ragnarsson
Guðmundur Ragnarsson
Eftir Guðmund Ragnarsson: "Á öðrum löndum á Norðurlöndunum er lagt upp með að afkoma og samkeppnisstaða útflutningsgreina ákvarði launahækkanirnar."

Fyrr á árinu kom út mjög góð skýrsla um um kjarasamningagerð og vinnumarkaðinn á öðrum löndum á Norðurlöndum. Þetta er fróðleg skýrsla sem gefur yfirsýn yfir hvernig hlutirnir ganga fyrir sig í þeim löndum sem við viljum helst bera okkur saman við. Þetta eru lönd sem hægt og bítandi hafa aukið kaupmátt með tiltölulega litlum prósentuhækkunum á hverjum samningstíma, sem venjulega er um tvö ár. Forsendan fyrir því að ná þessum árangri er stöðugir gjaldmiðlar og þekktar efnahagsstærðir í rauntíma. Samningsaðilar hafa skapað traust sín á milli og þróað reiknilíkan sem þeir vinna eftir og hafa þær forsendur sem unnið er eftir verið að skila þessum árangri.

Á öðrum löndum á Norðurlöndunum er lagt upp með að afkoma og samkeppnisstaða útflutningsgreina ákvarði launahækkanirnar. Síðan eru kjarasamningar gerðir hjá fyrirtækjum eða á forsendum atvinnugreina án miðstýringar. Ég hef mikið hugleitt hvaða atvinnugreinar hér á landi við gætum haft sem þessa svokölluðu undanfara, sem ákvarða grunnlaunahækkanirnar, ég hef spurst fyrir um það en fá svör fengið. Fyrsta svarið var að áliðnaðurinn gæti ekki verið þar inni, spurning um sjávarútveginn? Ef við ætlum að nota þessar fyrirmyndir stendur eftir það verkefni að finna atvinnugreinarnar sem eiga að ákvarða launahækkanirnar og vera undanfararnir.

Ég tel að stærsta vandamálið okkar í dag sé að hafa ekki réttar hagtölur að vinna með sem allir eru sammála um að séu réttar. Hagstofan uppfyllir ekki þessar kröfur þó að mikið hafi verið reynt að byggja hana upp. Þjóðhagsstofnun var sett á laggirnar 1974 og átti að vera sjálfstæð í að vinna staðreyndir um stöðu þjóðarbúsins. Það hentaði ekki þáverandi stjórnvöldum að tölulegar staðreyndir um stöðu þjóðarbúsins segðu annað en boðskapur þeirra um stöðu og horfur. Hún var því lögð niður og við fórum að reka samfélagið á óskhyggju og væntingum og gerum enn í dag. Það er eitt af okkar mikilvægust verkefnum að koma upp hlutlausri stofnun sem segir okkur sannleikann og stöðuna í rauntíma, ætlum við að nýta okkur það sem þessar þjóðir hafa þróað. Það er með kjarasamningagerð eins og önnur verkefni sem tekist er á við að leysa, ef forsendur og tölulegar staðreyndir eru ekki réttar, hvernig á þá niðurstaðan að geta verið rétt og skilað árangri.

Þegar reynt er að hrista upp í hlutunum og finna lausnir vill oft koma upp sú staða að þeir sem að málinu koma fara að leita orsaka á því sem miður hefur farið með því að benda á aðra. Þess vegna er mikilvægt að verkalýðshreyfingin og stéttarfélög fari samhliða að skoða sín mál við að ná meiri árangri fyrir umbjóðendur sína í kjarasamningum.

Eru ekki alltof mörg og smá verkalýðs- og stéttarfélög á Íslandi? Það varð strax mín sannfæring eftir að ég fór að starfa sem formaður VM að stærsta verkefni iðnaðarsamfélagsins er að koma stærstu iðngreinunum í eitt landsfélag allra í viðkomandi greinum. Rafiðnaðarmenn eru búnir að þessu með sambandi. Auðvitað á vél- og málmtæknin að vera saman í einu öflugu landsfélagi. Byggingariðnaðurinn og matvæla- og veitingagreinar þurfa einnig að fara í þessa vinnu og sameina alla sem starfa í greinunum í landsfélög. Við hliðina á landsfélögum fjölmennustu iðngreinanna er hægðarleikur fyrir minni iðngreinar að dafna með stuðningi stóru landsfélaganna. Með því fyrirkomulagi sem er í dag erum við lömuð, við verðum að hreinsa til hjá okkur til að ná því vægi sem við getum haft og kallað fram skynsamlegar lausnir við okkar fyrirtækjageira sem viðkomandi fagmenn eru að vinna í. Að orlofshúsarekstur sé aðaláhersluatriðið í starfsemi stéttarfélaga er vegferð á rangri braut. Hagsmunagæsla viðkomandi greina og bætt kjör hafa vikið fyrir þessum áherslum.

Að mínu viti er þetta bráðaverkefni sem verður að fara sem fyrst í, ef iðnaðarsamfélagið á Íslandi á að lifa af þær miklu breytingar sem eru í gangi. Ef við erum sundraðir út og suður í ólíkum stéttarfélögum heldur bara áfram að myljast undan okkur og kjörin að versna. Með þessu breytta fyrirkomulagi verður auðveldara að framkalla kjarasamninga í viðkomandi atvinnugrein auk þess sem kjarasamningum mun fækka, færri koma að þeim og allt verður einfaldara. Atvinnugreinar verða að fá svigrúm til launahækkana hjá sér til að tryggja faglega tilvist sína og miðstýringin verður að minnka við gerð kjarasamninga.

Við eigum langt í land með að ná því sem þau lönd sem fjallað er um í skýrslunni hafa þróað og náð árangri með. Efnahagsumhverfið og að vinna út frá raunverulegum tölulegum staðreyndum er bráðaverkefnið sem verður að leysa, til að ná tökum á því að framkalla kaupmáttaraukningu við gerð kjarasamninga. Gjaldmiðillinn er mikill örlagavaldur í öllum okkar vandamálum við að byggja upp kaupmátt, hann verður alltaf að vera inni í umræðunni við að finna varanlegar raunverulegar lausnir og við verðum að viðurkenna vandamálin sem honum fylgja eða taka upp nýjan gjaldmiðil.

Kjarasamningagerð á ekki að byggjast á sömu forsendum og þegar einstaklingur kaupir sér lottó- eða happadrættismiða.

Höfundur er formaður VM – Félags vélstjóra og málmtæknimanna.

Höf.: Guðmund Ragnarsson