Sigríður Jónsdóttir
Sigríður Jónsdóttir
Eftir Sigríði Jónsdóttur: "Hvers eiga Norðlendingar, Austfirðingar, Vestfirðingar og Vestmannaeyingar að gjalda þegar þeir fá hjartaáfall eða alvarlegan höfuð- eða hryggáverka..."

Er tímabært að hætta að tala um að byggja „hátæknisjúkrahús“ eða hver vill liggja lífshættulega veikur á „lágtæknisjúkrahúsi“? Kannski þarf smáþjóð þjónustu sem er smá í sniðum! Smáþjóð sem býr miðað við fólksfjölda í „stóru“ landi þarf að sníða sér Landspítala eftir vexti. Hvaða þjónustu ætlast heilbrigðisráðuneytið til að starfsfólk nýja Landspítalans sinni?

Íslendingar eiga vel menntað heilbrigðisstarfsfólk og ef það væri forgangsraðað í þjónustu heilbrigðiskerfisins þyrfti starfsfólk Landspítalans flestallt að búa yfir sérmenntun og sérhæfingu auk kunnáttu á „hátækni“búnað.

Munum eftir því að allir landsmenn eiga að búa við jafnræði og þ.m.t. eiga kost á þjónustu Landspítalans þegar á þarf að halda en þarf ég að liggja á Landspítalanum/„hátæknisjúkrahúsi“ þegar ég þarf ja t.d. að fara í svefnrannsókn, fá flóknar lyfjagjafir? Vissulega er um vissa „hátækni“ og sérhæfingu að ræða. Reykvíkingar og nágrannar geta eins og aðrir landsmenn þurft að nota sjúkrahúsþjónustu sem ekki flokkast til dýrasta stigs heilbrigðisþjónustunnar heldur til grunnþjónustu.

Er sjúkrahúsið á Akureyri „há“- eða „lágtækni“sjúkrahús?“ Hvers eiga Norðlendingar, Austfirðingar, Vestfirðingar og Vestmannaeyingar að gjalda þegar þeir fá hjartaáfall eða alvarlegan höfuð- eða hryggáverka og þarfnast flutnings í hjartaþræðingu eða aðgerð á miðtaugakerfi langa leið í sérhæfingu/„hátæknisjúkrahús“?

Árin 1987-1990 var ég áheyrnarfulltrúi starfsfólks í stjórn Landspítalans. Hugmyndir sem þar voru ræddar og tilskipanir frá embættismönnum heilbrigðisráðuneytisins hugnuðust stjórnarmönnum misvel en sameiningu í Landspítala, síðar Landspítala – háskólasjúkrahús (LSH), var hrundið úr vör. Gjörningur sem dró úr sjálfræði, samkeppni, fjölbreytni og skapaði glundroða sem enn eimir eftir af. Það er umhugsunarefni hvernig hægt var að reka heilbrigðisþjónustu með gróskumiklu umhverfi og góðum tækjakosti, á þess tíma mælikvarða, með margfalt minna fjármagni (uppfært) en þarf til reksturs LSH í dag.

Já, snjóbolta var velt af stað sem enn safnar utan á sig. Er hægt að stöðva hann og kalla eftir því að stjórnmála- og embættismenn axli ábyrgð og greini hvort sameining sjúkrahúsanna í Reykjavík og nágrenni var á sínum tíma farsælt skref í framþróun heilbrigðisþjónustu Íslendinga?

Já, Landspítali, dýrasta eining heilbrigðisþjónustunnar, á að sinna ákveðinni þjónustu og á ekki að taka önnur verkefni að sér! Forgangsröðun eftir alvarleika verður að virka og stoðsjúkrahús, göngudeildir, hjúkrunarheimili, heilsugæslan o.s.frv. eiga að greina og sinna verkefnum sem ekki krefjast dýrustu heilbrigðisþjónustunnar.

Já, Styrmir (sjá Af innlendum vettvangi í Mbl. 19.10. sl. bls 36), eins og byggðastefnan blasir við mér þá tapast hálaunastörf af landsbyggðinni ef fjárlagafrumvarpið verður að lögum. Ég get sagt að mér sé alveg sama af því að þetta snertir mig ekki persónulega og af því að það eru fá störf í húfi en ég held að það sé ekki gott fyrir samfélögin, þar á meðal mig, að til komi meiri forræðishyggja/miðstýring. Þannig getur það verið betri kostur að styðja íbúana áfram til að taka sjálfir ákvarðanir til framkvæmda og úrlausna á verkefnum og þjónustu í nærumhverfinu. Ég held nefnilega að það þurfi í bland sjálfræði (90%) og forræði (10%) til að samfélögin á hverjum stað verði frjó og blómstri.

Höfundur er hjúkrunarfræðingur á Heilbrigðisstofnun Þingeyinga og Hvammi – heimili aldraðra.

Höf.: Sigríði Jónsdóttur