Fanney Jónsdóttir fæddist í Ólafsfirði 30. nóvember 1925. Hún lést á dvalarheimilinu Hlíð, Akureyri 10. október 2013.

Útför Fanneyjar fór fram frá Akureyrarkirkju 18. október 2013.

Elsku yndislega amma Fanney.

Ég á erfitt með að átta mig á því að þú sért búin að kveðja. Ég sit hérna og sé fallega dúkinn á borðinu sem þú saumaðir út í vor og litlu dýrin þín sem eru í glugganum mínum og ég trúi þessu ekki. Afi er samt örugglega mjög ánægður með að fá þig og ég samgleðst þér með það. Hann passar upp á þig. En það er samt erfitt að kveðja. Ég á svo margar góðar minningar. Þú varst svo ótrúleg kona, amma. Hvernig þú tókst á mótlæti er aðdáunarvert. Það er hreint út sagt ótrúlegt hvernig þú hefur síendurtekið staðið upp úr veikindum undanfarin ár. Þegar tímarnir líða áttar maður sig á hlutverki fólks í fjölskyldum. Þú varst klettur. Þvílík fyrirmynd, elsku amma mín. Ég man svo vel eftir því þegar við vorum að spila yatzy með afa í Lindasíðunni og hann kastaði alltaf eitt aukakast og þóttist svo ekkert af því vita. Þetta var þegar hann var orðinn veikur. Þú sagðir við mig: „Æi elskan mín, látum eins og við tökum ekkert eftir þessu.“ Það kom mér svolítið á óvart en núna skil ég það betur. Nú tek ég oft „eitt aukakast fyrir afa“ ef illa gengur í yatzy. Eftir því sem árin líða fer maður líka að hafa þroska í að hlusta á hvernig lífið var og njóta frásagna. Þótt ég kæmist ekki oft til Akureyrar síðustu ár kom ég alltaf til þín þegar ég átti leið hjá og fannst gott að hringja og spjalla við þig. Þú varst alltaf svo áhugasöm um okkar hagi og stolt þegar vel gekk hjá okkur og mér þykir mjög vænt um það. Ég geymi í hjartanu það sem þú sagðir við mig í júní. Takk, elsku amma, fyrir allt saman, samveruna og allt sem þú gafst mér.

Amma kær, ert horfin okkur hér,

en hlýjar bjartar minningar streyma

um hjörtu þau er heitast unnu þér,

og hafa mest að þakka, muna og geyma.

Þú varst amma yndisleg og góð,

og allt hið besta gafst þú hverju sinni,

þinn trausti faðmur okkur opinn stóð,

og ungar sálir vafðir elsku þinni.

Þú gættir okkar, glöð við undum hjá,

þær góðu stundir blessun, amma kæra.

Nú hinstu kveðju hjörtu okkar tjá

í hljóðri sorg og ástarþakkir færa.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Hvíldu í friði amma mín.

Þín dótturdóttir,

Birna Pálsdóttir.