[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Snær Sigurðsson helgisnaer@mbl.is Stærsta tónlistarhátíð ársins, Iceland Airwaves, hefst á miðvikudaginn, 30. október, og lýkur með tónleikum hinnar margfrægu þýsku hljómsveitar Kraftwerk í Eldborg í Hörpu sunnudaginn 3. nóvember.

Helgi Snær Sigurðsson

helgisnaer@mbl.is

Stærsta tónlistarhátíð ársins, Iceland Airwaves, hefst á miðvikudaginn, 30. október, og lýkur með tónleikum hinnar margfrægu þýsku hljómsveitar Kraftwerk í Eldborg í Hörpu sunnudaginn 3. nóvember. Dagskráin er glæsileg í ár líkt og hin fyrri ár, flytjendur á þriðja hundrað, opinberir tónleikastaðir þrettán og auk þess boðið upp á fría tónleika utan dagskrár á mörg hundruð stöðum víða um borgina, m.a. verslunum og hótelum. Morgunblaðið tók önnum kafinn stjórnanda hátíðarinnar, Grím Atlason, tali í gær á hlaupum hans milli funda.

„Rosalegt að sjá Kraftwerk“

„Það er mjög margt en það er náttúrlega frábært að Kraftwerk sé að spila á Airwaves. Auðvitað er það rúsínan í pylsuendanum en að sama skapi má alveg segja að það sé mikil tilhlökkun fyrir því að sjá Emilíönu Torrini halda hálfgerða útgáfutónleika vegna plötunnar Tookah og tónleikar Ólafs Arnalds og Sinfó í Eldborg veki mikla eftirvæntingu. Við erum með Omar Souleyman frá Sýrlandi sem er náttúrlega stórmerkilegt og hann er frábær. Við erum með Midlake sem er að gefa út plötu líka og þykir mjög góð. Við erum með Money, Jon Hopkins sem er æðislegur og svo alla íslensku senuna. Múm að spila í Fríkirkjunni, Anna Von Housewolff að spila í Gamla bíói... ég veit eiginlega ekki hvað skal segja, það er svo margt sem ég gæti nefnt,“ segir Grímur, spurður hvað beri hæst á hátíðinni í ár. „Auðvitað er það alveg rosalegt að sjá Kraftwerk í Eldborgarsalnum með þrívíddargleraugum, það er vel gert, þó ég segi sjálfur frá. En fyrst og fremst hlakka ég til að sjá allar þessar íslensku hljómsveitir á stóru sviði fyrir framan allt þetta fólk. Það er auðvitað þess vegna sem við erum að halda hátíðina.“

– Má segja að þú hafir náð að sníða þína draumadagskrá á hátíðinni í ár?

„Já, ég er mjög ánægður með dagskrána í ár, mjög stoltur af vinnu okkar og minni vinnu. Okkur þykir þetta ein besta dagskráin til þessa.“

Kúnst að skipuleggja

– Nú koma fram á hátíðinni, skv. tölum frá ykkur, 217 listamenn á 252 tónleikum á þrettán tónleikastöðum og við bætast svo tónleikar utan dagskrár, yfir 600 talsins. Hvernig er að skipuleggja svona umfangsmikla hátíð?

„Það er náttúrlega kúnst, krefst þess að þú sért með gott fólk og við erum komin með rútínerað fólk,“ svarar Grímur og nefnir sína nánustu samstarfsmenn, Egil Tómasson og Kamillu Ingibergsdóttur. „Þetta er heljarinnar bákn en það er margt búið að gerast. Ég tók við þessu í byrjun maí 2010 og við vorum ekki með neina hljómsveit bókaða þá. Ég fékk þetta í hendurnar í lok apríl og við byrjuðum að selja miða 15. maí. Við erum búin að gera þetta að heilsársverkefni sem hefur gert markaðssetninguna betri og það er meiri kraftur í því sem við gerum. Við erum búin að stækka hátíðina og fjölga ferðamönnum á henni um 100% frá árinu 2010.“

– Nú hljótið þið að bera hátíðina saman við stærstu tónlistarhátíðir nágrannalandanna. Hvernig stenst hún þann samanburð?

„Hátíðin stenst allan samanburð. Við erum ekki að bera okkur saman við útihátíðir sem eru á sumrin, við berum okkur saman við blöndu af bransahátíðum sem eru svona „show case“-hátíðir og svo „fan based“-hátíðir og Airwaves stenst allan samanburð. Hátíðin er á heimsmælikvarða og er orðin heimsþekkt. Mjög margir listamenn vilja koma á hana sem og aðdáendur og fólk úr bransanum. Því finnst gott að vera hérna og það er ekkert sérstaklega dýrt lengur á Íslandi miðað við hvernig þetta var. Þannig að við stöndumst samanburð á flestan hátt.“

8.000 manns

Miðar á hátíðina í ár seldust upp í byrjun september og í fyrra varð uppselt í ágúst en þá voru færri miðar í boði en nú. Spurður hversu margir sæki hátíðina í ár segir Grímur að samtals séu það um 8.000 manns, þar af 4.500 útlendingar. „Af þessum 8.000 eru ekki allt seldir miðar því listamenn sem koma fram fá miða og svo erum við með alls konar samstarfssamninga og annað, blaðamenn og bransafólk sem við útvegum miða þótt margir þeirra kaupi miða líka.“

– Hvernig gengur að finna gistingu fyrir allt þetta fólk?

„Það er orðið pínu snúið, við náum því rétt svo. Það er gríðarlega góð nýting á hótelum í Reykjavík, þetta er haldið á þeim tíma þegar ekkert væri annars að gerast hérna.“

– Þú myndir þá fagna því ef hótelum væri fjölgað í Reykjavík?

„Nei, ég er nú ekki endilega sammála því. Þetta er eins og með Laugardalsvöllinn; nú væri gott að hafa tuttugu þúsund manns á honum því við erum komin í umspil fyrir HM í knattspyrnu. Það væri mjög gott fyrir það en það er ekkert endilega gott alltaf að fjölga, framboð og eftirspurn eru ágæt en hvers konar ferðamenn koma á hvern stað? Þetta er mjög eldfimt umræðuefni og magn er ekki alltaf það sama og gæði,“ segir Grímur. „Það er merkilegt að vera einn af þeim fáu sem komust á hátíðina, að vera hérna í borginni. Hún getur ekki tekið við fleirum og landið getur ekki tekið endalaust við ferðamönnum. Pylsuvagn við Seljalandsfoss er ekki alltaf svarið. Það er mín skoðun.“

Milljarðatekjur

– Nú hefur mikið verið fjallað um hversu miklum tekjum hátíðin skilar þjóðarbúinu. Er búið að gera eitthvert mat á því hversu miklum tekjum hátíðin mun skila í ár?

„Við getum gert það með því að nota sama reiknilíkan og í fyrra. Ef við gerum það má áætla að gjaldeyristekjurnar einar verði í kringum 1,1-1,2 milljarðar króna. Þá erum við ekki búnir að taka hagfræðistuðulinn sem á að setja inn í svona. Þegar svona innspýting kemur inn í hagkerfi þar sem ruðningsáhrifin eru lítil – það eru eiginlega engin ruðningsáhrif af Airwaves – þá ættirðu að nota 1,8 til að margfalda þessa upphæð,“ segir Grímur. Tekjurnar séu því í raun um tveir milljarðar króna. „Við erum alltaf að hvetja til einkaneyslu líka og innlend einkaneysla nemur tugum eða hundruðum milljóna, 3.500 Íslendingar fara á hátíðina og eyða peningum líka. Þeir eru fyrir utan þessar tölur.“

Grímur bendir líka á þá merkilegu staðreynd að erlend kortavelta hafi aukist um 50% í nóvember í fyrra miðað við sama mánuð árið á undan, eins og fram kemur í skýrslu hagfræðideildar Landsbankans frá því í desember í fyrra. Þar segir: „Heildarvelta erlendra greiðslukorta hér á landi var 4,3 ma. kr. og jókst um 50% að raunvirði miðað við sama mánuð í fyrra. Hluti aukningarinnar í nóvember skýrist af því að tónlistarhátíðin Iceland Airwaves var haldin um miðjan október síðasta ár, en 31. október til 4. nóvember í ár.“

„Þetta eru engin smáræðis áhrif og það styður alveg tölurnar sem við erum með, erlend kortavelta fór úr tæpum þremur milljörðum í 4,3 milljarða. Tölurnar sem við höfum verið að birta eru ekki nein bábilja,“ segir Grímur.

– Nú koma sífellt fleiri erlendir fjölmiðlamenn á hátíðina og í ár munu bandarísku sjónvarpsstöðvarnar Fox og CNN fjalla um hana.

„Það sem mér þykir gaman er að CNN gerir Go-þátt um Reykjavík. Það er mjög mikið horft á þann þátt og „bolurinn“ í Bandaríkjunum horfir á Fox, sem er gott. Þetta er gríðarlega mikil landkynning fyrir nær enga peninga,“ segir Grímur.

Breyttir tímar

– Íslenskar hljómsveitir og tónlistarmenn eru í meirihluta á hátíðinni og hún er öðru fremur kynning á íslenskri tónlist. Hún hlýtur að hafa veitt íslenskum tónlistarmönnum mörg tækifæri á erlendri grundu, hver heldurðu að staðan væri hvað það varðar ef hennar nyti ekki við?

„Það er svo margt sem hægt er að segja um þetta. Við ættum að líta um öxl og spyrja hvað Björk, Sykurmolarnir og Sigur Rós hafi fært okkur og svo hátíðin. Ég er alinn upp á bjórlausu Íslandi með engri erlendri tónlist, gjaldeyrishöftum og það var engin íslensk hljómsveit að gera það gott í útlöndum. Það var ekkert að gerast, þannig var það bara. Árið 1990 voru kannski fernir eða fimm tónleikar erlendis og allir með Sykurmolunum. Nú er staðan þannig að í marsmánuði sl. voru 300 tónleikar með íslenskum tónlistarmönnum erlendis og fyrir mánuði voru þeir orðnir um 1.000 á árinu. Og af hverju hefur erlendum ferðamönnum fjölgað? Ég vil halda því fram að það sé fyrst og fremst vegna þess að við erum búin að gera svo góða hluti í menningu og þá sérstaklega tónlist,“ segir Grímur. „Mér finnst íslensk tónlist mjög góð og hár standard hérna. Það heyri ég í samtölum mínum við erlent fólk í bransanum. Það sem okkur hefur skort er fagmennska í kringum þetta, umboðsmennska, plötusamningar og annað. Við erum auðvitað fá og það hefur sitt að segja en þetta er reyndar mikið að lagast,“ segir Grímur.

– Að lokum, hvernig sérð þú framtíð Iceland Airwaves fyrir þér?

„Hún er björt. Ef við áttum okkur á því hvaða gullegg við eigum og hver hin raunverulega gullhæna í íslensku samfélagi er þá er okkar framtíð mjög björt. Hvert við stefnum veltur fyrst og fremst á tónlistarmönnunum hérna og fólkinu sem hér býr,“ segir Grímur. Hátíðin sé á góðri siglingu og bjart framundan. „En við getum auðvitað sólundað þessu eins og öllum okkar auðlindum ef við höldum ekki rétt á spilunum. Ég vona nú að stjórnvöld og almenningur haldi rétt á spilunum þegar kemur að menningu,“ segir Grímur að lokum.

Airwaves í tölum
» Iceland Airwaves var haldin í fyrsta sinn árið 1999.
» 217 listamenn koma fram á hátíðinni íár, 156 íslenskir og 61 erlendur.
» 8.000 manns sækja Iceland Airwaves að þessu sinni; almennir gestir, tónlistarfólk, blaðamenn, bransafólk, starfsfólk og sjálfboðaliðar, þar af um 4.500 útlendingar.
» Í fyrra eyddu gestir 29.628 kr. að meðaltali á mann dag hvern í Reykjavík og eru þá meðtalin kaup á miða á hátíðina og gisting en ekki flugferðir.
» Heildarvelta erlendra greiðslukorta jókst um 50% að raunvirði í nóvember í fyrra miðað við sama mánuð árið á undan og skýrist það að hluta til af því að hátíðin stóð yfir í byrjun þess mánaðar.
» Talið er að gjaldeyristekjur af erlendum gestum hátíðarinnar í ár nemi um 1,2 milljörðum króna.
Frekari upplýsingar um hátíðina, dagskrá hennar og þá listamenn sem koma fram á henni má finna á vef hennar, icelandairwaves.is.