Það var mikið gæfuspor að fá tækifæri til að vinna á Morgunblaðinu í tæpan aldarfjórðung. Þá voru höfuðstöðvar blaðsins og öll starfsemi undir einu þaki í Aðalstræti 6 sem var og er kjarni borgarinnar. Hjarta stjórnmálanna, fjármálanna og viðskipta var í miðborginni og mikið var um gestagang á öllum deildum blaðsins sem ávallt voru opnar og vel tekið á móti þeim sem áttu erindi við starfsfólk blaðsins hvort sem var ritstjórn, auglýsingum eða dreifingu blaðsins.
Húsakynnin í Aðalstrætinu voru þannig úr garði gerð að það myndaðist afar gott og náið samband á milli starfsfólks af öllum deildum og fyrir bragðið var um góðan og gagnkvæman skilning að ræða á milli allra deilda. Þetta nána samband og tryggð starfsfólks lagði grunn að því stórveldi sem Morgunblaðið varð jafnt í dreifingu sem og á auglýsingamarkaði. Það hafði algera yfirburðastöðu sem hafði svo aftur þau áhrif að á herðum starfólksins hvíldi mikil ábyrgð. Starfsfólkið er dýrmætasta eign blaðsins.
Þegar litið er yfir farinn veg þá var það mikil lífsreynsla og góð að fá að vinna hjá Morgunblaðinu. Sá sem hefur þá reynslu er fær í flestan sjó. Þar var samankomin spegilmynd af samfélaginu sem birtist í fjölbreyttum hópi starfsmanna blaðsins. Eigendur blaðsins treystu á starfsfólkið og það gerðu lesendur og viðskiptavinir þess einnig . Það birtist svo í styrkleika þess sem hefur svo lifað með þjóðinni.
Ég vil nota tækifærið og óska Morgunblaðinu innilega til hamingju með aldarafmælið og vona svo sannarlega að starfsmönnum blaðsins takist að halda því áfram ungu og fersku á tímum óvissu á fjölmiðlamarkaðnum sem kemur einkum til af síbreytilegri tækni og endalausum möguleikum á að koma sönnu, traustu efni til almennins.
Þetta mun verða mikil áskorun og jafnframt tækifæri til að viðhalda þeirri stöðu sem blaðið hefur í hugum lesenda sinna. Með trausti, tryggð og dyggð mun blaðið halda áfram að dafna. Hamingjuóskir.