„Jólasveinn ársins er að sjálfsögðu stóla-krækir.“ Birtist 9. janúar 1986.
„Jólasveinn ársins er að sjálfsögðu stóla-krækir.“ Birtist 9. janúar 1986.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Skopteikningar Sigmúnds Jóhannssonar uppfinningamanns settu sterkan svip á blaðið í meira en fjörutíu ár. Sigmúnd hitti í teikningum sínum naglann oft á höfuðið.

Hinn 25. febrúar árið 1964 fengu lesendur Morgunblaðsins að sjá „Landgönguna miklu“. Um var að ræða skopteikningu eftir uppfinningamanninn og teiknarann Sigmúnd Jóhannsson úr Vestmannaeyjum, en áður hafði hann teiknað forsíðumyndir fyrir tímarit eins og Vikuna og Fálkann. Myndin vakti nokkra athygli og birtust myndir Sigmúnds með óreglulegu millibili í blaðinu næstu árin, tvær til þrjár á viku, en Sigmúnd var þá verkstjóri í frystihúsi.

Sigmúnd fæddist 22. apríl 1931 í Noregi. Faðir hans var íslenskur en móðir hans norsk. Hann ólst upp fyrstu árin á Akureyri. Sigmúnd eignaðist konu úr Vestmannaeyjum, Helgu Ólafsdóttur, og bjó þar mestalla ævi sína. Einnig var hann uppfinningamaður sem fann upp ýmsar nýlundur í sjávarútvegi, eins og til dæmis gelluvél sem gat skorið rúmlega þúsund gellur á klukkustund og sjálfvirkan sleppibúnað fyrir gúmbjörgunarbáta sem hefur bjargað mörgum mannslífum.

Þegar Vestmannaeyjagosið hófst 1973 gerðist Sigmúnd fastráðinn teiknari hjá Morgunblaðinu og urðu skopteikningar hans aðalstarf. Hann féllst þó aldrei á það að orðið „skopteikning“ væri réttnefni yfir ævistarfið. „Þarna er bara verið að sýna daglegt líf og atburði í þessu ljósi. Bæði til að fólk geti haft gaman af því og skilji hvað er að gerast, jafnvel á bak við tjöldin,“ sagði hann í viðtali við Morgunblaðið árið 2004.

Samstarfi Morgunblaðsins og Sigmúnds lauk snögglega í október 2008 og söknuðu margir lesendur hans af síðum Morgunblaðsins. Síðasta mynd Sigmúnds fjallaði um þá staðreynd að Bretar ættu næst að sinna loftrýmisgæslu á vegum Atlantshafsbandalagsins, þó að Íslendingar væru þá á hryðjuverkalistanum alræmda. Sigmúnd lagði pennann á hilluna eftir það. Sigmúnd lést 19. maí árið 2012, 81 árs að aldri, eftir erfið veikindi.