Álftir á Reykjavíkurtjörn Verulega hefur fjölgað í stofninum.
Álftir á Reykjavíkurtjörn Verulega hefur fjölgað í stofninum. — Morgunblaðið/Ómar
Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Verulega hefur fjölgað í álftastofninum hér á landi á síðustu áratugum.

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Verulega hefur fjölgað í álftastofninum hér á landi á síðustu áratugum. Árið 1980 voru um tólf þúsund fuglar í stofninum, en samkvæmt síðustu heildartalningu, sem gerð var samtímis í Bretlandi og hér á landi veturinn 2010, var talið að 28 þúsund álftir væru í stofninum. Þessa dagana hópast svanir til vetrarstöðva sinna í Bretlandi og virðast þær víða vera aufúsugestir. Álftirnar koma flestar frá Íslandi og dvergsvanir frá enn norðlægari slóðum.

Hátt í 300 álftir hafa á nokkrum dögum komið frá Íslandi til Caerlaverock í Skotlandi. Tveggja álfta er beðið með eftirvæntingu meðal fuglaáhugamanna þar um slóðir því síðastliðið vor voru silfurhringar festir á parið.

Tilefnið var að 300 ár voru þá liðin frá því að verslun járnsmiðs í skoska þorpinu Gretna Green hóf þjónustu sem fólst í því að gera ungu fólki frá Englandi og Wales kleift að ganga í hjónaband gegn vilja foreldranna. Ekki höfðu í gær borist fregnir af parinu með „trúlofunarhringana“.

Minnir á Heathrow-flugvöll

Í Austur-Anglia í Englandi er búist við að mikill fjöldi hafi þar að venju vetursetu og draga svanirnir að sér fjölda fólks sem hefur gaman af að skoða þá. Þar dvelja yfir veturinn um þrjú þúsund dvergsvanir, sem eru sumarlangt á Síberíustönd Rússlands, allt austur að Yamal-skaga, og um sex þúsund álftir, sem koma frá Íslandi. Svæðið er sagt eitt það mikilvægasta til vetursetu fyrir svani í Norðvestur-Evrópu.

Haft er eftir Steve Wiltshire, gæslumanni á svæðinu, að þar miði margir haustið við komu svananna. Hann segir að svanirnir leggi að baki ótrúlegar vegalengdir á leið sinni til Bretlands. Við réttar aðstæður minni það á Heathrow-flugvöll þegar fjöldi svana renni sér inn til lendingar á stærstu tjörninni.

Athyglisvert er að sjá að í skoskum fréttum er talað um að fuglarnir séu á leið heim eftir sumardvöl á Íslandi og annars staðar á norðlægum slóðum. Í Bretlandi dvelja álftir 5-6 mánuði á ári, en á Íslandi í 6-7 mánuði og hér verpir fuglinn og kemur upp ungum sínum.

Aukið fæðuframboð

Álftin er stærsti fugl sem lifir á Íslandi og er jurtaæta, sem nærist mest á vatna- og mýrargróðri ásamt því að sækja í ræktuð tún. Í Bretlandi er álftir að finna nálægt votlendi og sækja þær mikið í akra ýmiss konar og eru sagðar sólgnar í korn og kartöflusmælki sem orðið hefur eftir.

Guðmundur A. Guðmundsson, dýravistfræðingur á Náttúrufræðistofnun, segir að aukið fæðuframboð að vetrarlagi eigi eflaust stóran þátt í vexti og viðgangi stofnsins og frá talningunni 2010 hafi stofninn trúlega vaxið eitthvað.

Alls um 2.500 pör

Við síðustu talningu var talið að um 10% stofnsins hefði vetursetu hér á landi. Það hlutfall gæti hafa hækkað með mildari vetrum. Guðmundur áætlar að í varpstofninum séu 2-3 þúsund pör eða um fimm þúsund fuglar. Ef reiknað er með þremur ungum frá í sumar á hvert par eru um 15 þúsund ungfuglar í stofninum. Til viðbótar er talið að geldfuglar séu um tíu þúsund en álftin verpir fyrst við 4-5 ára aldur.

Guðmundur segir að langmest fari af álftum til Bretlandseyja, en lítið brot stofnsins haldi til yfir veturinn í Danmörku og jafnvel Suður-Svíþjóð. Nokkuð hafi verið um álftamerkingar hér á landi og þá einkum á Norðausturlandi.