Geir Jónsson fæddist á Seyðisfirði 1919. Hann lést í Seattle 13. október 2013.

Foreldrar hans voru Jón Árnason, skipstjóri á Seyðisfirði, f. 15.9. 1886, d. 21.8. 1972, og kona hans Guðbjörg Guðmundsdóttir, f. 2.11. 1898, d. 13.6. 1990. Systkini Geirs eru Jakobína, f. 28.4. 1922, Arnbjörg, f. 19.8. 1923, Guðmundur, f. 6.10. 1925, Bjarni, f. 4.12. 1928, og Jónas, f. 31.1. 1942. Öll systkini Geirs eru látin nema Arnbjörg.

Geir giftist Gunnhildi Eiríksdóttur hjúkrunarfræðingi 5.11. 1949. Stjúpdóttir Geirs, dóttir Gunnhildar, er Lilja Sigurðardóttir. Börn Geirs og Gunnhildar eru Eiríkur Jón, f. 19.1. 1953, kvæntur Láru Helgadóttur frá Reykjavík, sonur hans úr fyrra hjónabandi er William Jónsson, dóttir Láru er Harpa Magnúsdóttir og dóttir Eiríks og Láru er Lilja María. Margrét Soffía, f. 24.3. 1954, dóttir hennar úr fyrra hjónabandi er Andrea, seinni maður Margrétar er Don Woetmann. Seinni kona Geirs er Ellen Jonsson og þeirra synir eru Leif og Geir.

Geir lauk námi frá Eiðaskóla og síðan fór hann í Íþróttaskólann í Haukadal, svo lá leiðin á sjóinn og hann réð sig á Brúarfoss og var þar í áhöfn og fékk heiðursskjal er þeir björguðu vasklega 48 manns af es. Daleby 4. nóv. 1942. Hann fór síðan í Sjómannaskóla í New York og útskrifaðist þaðan 20. febrúar 1945. Það var skrifað um þetta atvik í Sjómannablaðið Víking og eins það að hann komst 3. stýrimaður á stórt spítalaskip með 350 manna áhöfn, þá 27 ára gamall.

Minningarathöfn um Geir fer fram í Seattle í Bandaríkjunum í dag, 2. nóvember 2013.

Það var bæði tilhlökkun og forvitni hjá mér að hitta þennan tilvonandi mág minn, Geir Jónsson, veturinn 1947 er hann kom í heimsókn, svo mikið var ég búin að heyra af honum bæði frægðarsögur og stríðnissögur. Svo stóð hann fyrir framan mig, stórglæsilegur, veraldarvanur, búinn að sigla um öll heimsins höf á stríðstímum. Hann hafði frá mörgu að segja, við urðum ein eyru við að hlusta á hann. Hann var kominn í gott starf á sjónum, en var þó að hugsa um meira nám og dreif sig í Berkley-háskóla í San Francisco í sjónmælingar. En sjórinn togaði og varð það hans ævistarf, bæði sem stýrimaður og skipstjóri á stórum skipum sem sigldu frá Seattle til Austurlanda og var hann því langdvölum fjarri heimili sínu. Gunnhildur var ung ekkja þegar þau giftust og átti hún Lilju og eignaðist síðan Eirík og Margréti með árs millibili. Hún veiktist stuttu eftir fæðingu Margrétar sem varð til þess að hún kom heim með börnin vorið 1954 til tengdaforeldra okkar sem bjuggu í sama húsi og við Guðmundur. Þetta var erfiður tími og Lilja fór í fóstur til góðra hjóna á Húsavík þar sem hún býr. Margrét fór til Lollu og Bjarna bróður Geirs og Eiríkur var hjá tengdaforeldrum okkar. Þetta endaði með skilnaði en öll él birtir upp um síðir og giftust þau bæði aftur og eignuðust börn.

Geir kynntist Ellen í Seattle og eignuðust þau tvo syni, Leif og Geir. Vorið 1958 fékk hann forræði yfir Eiríki og Margréti og fór Guðbjörg móðir hans með þau til Seattle. Allt hefur þetta farið vel og eru þau öll myndarfólk.

Árið 1958 flytja þau Bjarni bróðir Geirs og Lolla til Seattle, svo við höfðum ærna ástæðu til heimsóknar. Okkur langaði að vita hvernig væri að búa í BNA svo að Guðmundur tók sér launalaust frí í nokkra mánuði og við tókum okkur íbúð á leigu, fórum með tvo yngstu syni okkar og settum þá í skóla þar og Geir lánaði okkur einn af bílum sínum, þetta var tími sem aldrei gleymist. Guðbjörg frænka þeirra og fjölskylda hennar bjó í Tacoma, sunnan við Seattle, og eitt sinn fórum við 30 saman í ferðalag, allt skyldfólk Geirs sem þar bjó.

Geir eignaðist æskuvin á Seyðisfirði og jafnaldra, Jón Múla Árnason. Það var alltaf með því fyrsta sem hann spurði um þegar hann kom til landsins, hvað væri að frétta af Jóni Múla, því var fljótsvarað: Allt gott, hann var í útvarpinu áðan. Eitt skipti sagði ég honum að hringja í Jón Múla og bjóða honum í kaffi til okkar í Austurgerði, sem hann og gerði. Ég hef sjaldan skemmt mér annað eins og að hlusta á þá rifja upp strákapör sín á Seyðisfirði. Þeir hlógu mikið og höfðu gaman af, enda segir Adda systir hans að það hafi oft farið mikið fyrir þeim. Nú á seinni árum fannst okkur Geir hugsa mikið til Íslands. Hann hringdi oft í Öddu systur sína til að spyrja frétta. Hann kom einu sinni á sólarkaffi Seyðfirðinga og var gaman að sjá hversu vel hann skemmti sér og hitti marga gamla vini. Ég vil senda Ellen og ættingjum hans innilegar samúðarkveðjur. Blessuð sé minning hans.

Ingunn Erla Stefánsdóttir.