Þórunn Kristjánsdóttir
thorunn@mbl.is
Ölvunar- og vímuefnaakstur: Hvað er til ráða? er spurning sem Ágúst Mogensen, rannsóknarstjóri hjá Rannsóknarnefnd samgönguslysa, velti upp í erindi sem hann hélt í gær á málþinginu Akstur undir áhrifum lyfja og fíkniefna í Háskóla Íslands.
„Beina þarf sjónum að hópi ökumanna sem aka ítrekað eftir að hafa neytt áfengis og lyfja og láta ekki segjast,“ segir Ágúst.
Til að sporna við þessari þróun segir hann nokkra möguleika vera í stöðunni. Ágúst nefndi þá hugmynd að hægt væri að lækka refsimark áfengismagns í blóði úr 0,5 prómillum í 0,2 prómill. Hann segir að allar þær þjóðir sem leyfa rúm mörk, 0,5-0,8 prómill líkt og Íslendingar, standa andspænis sama vandamálinu. Ökumenn þykjast vita að þeir komist upp með að aka undir áhrifum tiltekins magns áfengis. „Á Íslandi virðast ökumenn álíta að það sé í lagi að aka eftir að hafa innbyrt 1-2 bjóra,“ segir Ágúst.
Þá sé möguleiki að setja svokallaða áfengislása á bifreiðar. Einnig séu hugmyndir um meðferðarúrræði fyrir einstaklinga sem brjóta sífellt af sér.
Til að ná fram breytingum og taka á vandanum segir Ágúst að heildarendurskoðun á umferðarlögum þurfi.
Árin 2003-2012 urðu 154 banaslys í umferðinni á Íslandi. Áfengi, lyf og fíkniefni koma við sögu í 46 slysum eða 30% banaslysa í umferðinni. Áfengi, eitt og sér, kemur við sögu í 28 banaslysum 18%.
Í rannsóknum hans kom m.a. í ljós að 48% telja akstur undir áhrifum áfengis- og vímuefna vera vandamál.