Guðmundur Karl Jónsson
Guðmundur Karl Jónsson
Eftir Guðmund Karl Jónsson: "Fyrir þjóðarbúið verður kostnaðurinn við að koma upp flugvallarlest milli Keflavíkur og Reykjavíkur allt of mikill."
Tímabært er að allir stuðningsmenn Reykjavíkurflugvallar á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni standi saman og bíði þess að borgarstjórnarmeirihlutinn falli þegar gengið verður til kosninga á næsta ári. Í aðdraganda Alþingis- og sveitarstjórnarkosninga hafa andstæðingar flugvallarins sett fram óraunhæfar kröfur um að ein þyrla verði notuð til að sinna sjúkrafluginu fyrir allt landið frá Reykjavík án flugvallarins í Vatnsmýri. Flugmenn Landhelgisgæslunnar og starfandi læknar á höfuðborgarsvæðinu vísa þessari kröfu til föðurhúsanna. Önnur krafa sem andstæðingar Reykjavíkurflugvallar halda til streitu um að loka þessari lífæð þjóðarinnar í tveimur áföngum kemur niður á sjúkrafluginu og eyðileggur alla möguleika á því að hægt verði á sem stystum tíma að koma slösuðum manni utan af landi undir læknishendur í Reykjavík. Síðustu áratugina hefur verið ítrekað, bæði munnlega og skriflega, að Reykjavíkurflugvöllur með aðeins eina flugbraut væri gjörsamlega ónothæfur fyrir reglubundið áætlunarflug, þá bregða andstæðingar flugvallarins fæti fyrir innanlandsflugið með tilefnislausum árásum á flugsamgöngurnar. Sjálfkrafa myndi það leggjast af eftir þrjú ár verði norður/suðurbrautinni lokað 2016. Tveir skriffélagar í samtökunum Betri byggð svöruðu grein minni, sem Morgunblaðið birti 11. október, með hroka og útúrsnúningi þegar þeir opinberuðu fyrirlitningu sína á vængjuðu sjúkraflugi með þeim falsrökum að þyrla væri miklu öruggari til að bregðast á stuttum tíma við neyðartilfellum á landsbyggðinni. Öllum aðvörunum verkfræðinganna um að jarðfræðilegar aðstæður í Vatnsmýri séu varasamar fyrir íbúðabyggð svara þessir tveir skoðanabræður með upphrópunum og tilefnislausum rangfærslum. Fyrir þjóðarbúið verður kostnaðurinn við að koma upp flugvallarlest milli Keflavíkur og Reykjavíkur allt of mikill. Nú er nóg komið af tilefnislausum árásum sem talsmenn Betri byggðar halda uppi á lífæð allra landsmanna, flugsamgöngurnar og sjúkraflugið sem sinnt er frá Akureyri. Starfandi læknar í Reykjavík sem hafa áhyggjur af örlögum sjúkraflugsins tóku því ekki þegjandi að borgarstjórn skyldi að undirlagi Dags B. Eggertssonar auglýsa tillögu sína að nýju skipulagi borgarinnar fyrir tímabilið 2010-2030. Það felur í sér árás á sjúkraflugið og fjórar tímasettar aðgerðir gegn Reykjavíkurflugvelli. Tillagan um að loka endanlega NA-SV brautinni 2013, eins og fánaberi Samfylkingarinnar ætlast til, stefnir öryggi sjúkraflugvéla á leið til Reykjavíkur í óþarfa hættu örfáum mínútum fyrir áætlaðan lendingartíma. Í þessari tillögu kemur fram að allt æfinga, kennslu- og einkaflug hverfi í síðasta lagi 2015 og að N-S-brautin verði aflögð árið 2016. Það hefur þau áhrif að allt áætlunar- og sjúkraflug um flugvöllinn legðist af eftir 3-4 ár sem meirihluti landsmanna lætur aldrei bjóða sér. Þá yrðu öll flugfélögin sem allir landsmenn treysta á næstu áratugina annað hvort að hætta rekstri eða flytja starfsemina úr landi. Á forsíðum dagblaðanna myndi fyrirsögnin Endalok innanlandsflugsins birtast þegar landsmenn fengju slæmar fréttir af örlögum sjúkraflugsins. Kröfunni um að þyrlur komi í stað flugvéla til að sinna sjúkrafluginu fyrir allt landið frá Reykjavík án flugvallarins í Vatnsmýri svara flugmenn Landhelgisgæslunnar með þeim skilaboðum að skriffélagar Betri byggðar opinberi fyrirlitningu sína á lífæð allra landsmanna. Stystu leið á milli staða komast þyrlur ekki upp fyrir allar veðurhæðir eins og sjúkraflugvélar sem eru með hverfihreyflum, afísingar- og jafnþrýstibúnaði. Um það eru gerðar strangar kröfur sem þyrlur standast ekki. Árangurslaust hefur andstæðingum flugvallarins í Vatnsmýri verið sagt að ein þyrla sé miklu dýrari í rekstri en sjúkraflugvél. Í meira en sex áratugi hefur Reykjavíkurflugvöllur gegnt lykilhlutverki í íslenskum samgöngum. Hann var miðstöð innanlands- og millilandaflugs allt til ársins 1967. Árið 1964 festu Loftleiðir kaup á enn stærri flugvélum sem voru of stórar fyrir Reykjavíkurflugvöll og fluttu af þessum sökum millilandaflug sitt til Keflavíkur. Það gerði Flugfélag Íslands 1967 þegar fyrsta þotan var tekin í notkun þetta sama ár.

Höfundur er farandverkamaður.

Höf.: Guðmund Karl Jónsson