Saga fæddist á Stuðlafossi á Jökuldal 6. ágúst 1935. Hún lést á Dvalarheimlinu Brákarhlíð 20. október 2013.
Foreldrar hennar voru Anna Sigurbjörg Björnsdóttir, f. 1916, d. 2003 og Helgi Jónsson, f. 1898, d. 1958. Anna var dóttir Björns Sigurðssonar og Solveigar Hallsdóttur sem bjuggu í Grófarseli í Jökulsárhlíð og seinna í Ármótaseli á Jökuldalsheiði. Helgi var sonur Jóns „Hnefils“ Jónssonar og Guðrúnar Björnsdóttur sem bjuggu lengst að Fossvöllum í Jökulsárhlíð. Saga var elsta barn foreldra sinna en yngri systur hennar eru Sólveig, f. 1942, búsett í Reykjavík, gift Gunnlaugi Árnasyni og Guðrún, f. 1945, búsett í Reykavík.
Þann 10. maí 1957 eignaðist Saga dóttur, Helgu Fossberg. Síðla sama ár flutti hún með Helgu að Þorgautsstöðum í Hvítársíðu þar sem hún gerðist ráðskona. Þar bjuggu þá Guðmundur Jónsson, f. 1888, d. 1979, og kona hans, Þuríður Ólafsdóttir, d. 1954, þau voru barnlaus, og Ketill Jómundsson sem tekið hafði við búi þeirra 1953, eftir nokkur ár í vinnumennsku þar. Saga átti heima á Þorgautsstöðum upp frá þessu. Saga og Ketill gengu í hjónaband nokkrum árum síðar. Guðmundur var hjá þeim í heimili í 20 ár eftir að Saga kom. Ketill var fæddur 6. apríl 1927, hann lést 1. mars 2009. Hann var sonur hjónanna Jómundar Einarssonar og Guðrúnar Magnúsdóttur sem bjuggu lengst í Örnólfsdal í Þverárhlíð. Saga og Ketill eignuðust tvær dætur. 1) Anna Björg, f. 10. október 1964. Eiginmaður hennar er Ásgeir Ásgeirsson, þau eiga fjögur börn, Baldvin, f. 1996, Þorbjörgu Sögu, f. 1998, Sigurstein, f. 2001 og Maríu, f. 2005. Anna og Ásgeir búa á Þorgautsstöðum. 2) Þuríður, f. 13. september 1966. Eiginmaður hennar er Árni Brynjar Bragason, þau eiga fjögur börn, Ketil Gauta, f. 1988, Braga Heiðar, f. 1994, Ólaf Geir, f. 1996 og Ragnheiði, f. 1998. Þuríður og Árni búa að Þorgautsstöðum 2. Helga, dóttir Sögu, ólst upp á Þorgautsstöðum en flutti ung að heiman og bjó lengst af í Reykjavík. Með fyrrverandi sambýlismanni sínum, Geir Sigurðssyni, eignaðist hún tvö börn, Ástríði Eddu, f. 1980 og Sigurð, f. 1982. Sonur Ástríðar og eina langömmubarn Sögu er Theódór Ísar Óskarsson. Helga giftist Þórði Ölver Njálssyni, þau eignuðust þrjú börn, Guðrúnu Júlíu, f. 1993, Ásgeir Helga, f. 1995 og Þóru Björg, f. 1997. Helga lést 10. desember 1999.
Ketill og Saga létu jörðina og búið í hendur Önnu Bjargar og Þuríðar dætra sinna árið 1993 en bjuggu áfram á Þorgautsstöðum. Þau byggðu sér lítið hús þar árið 2001.
Saga ólst upp hjá foreldrum sínum á Stuðlafossi og gekk til almennra sveitastarfa þar bæði úti og inni. Hún gekk í barnaskóla Jökuldælinga fram að fermingu og veturinn 1953-1954 stundaði hún nám við Húsmæðraskólann að Laugum í Reykjadal. Sumarið eftir námið á Laugum var hún í kaupavinnu að Núpi og Þverá í Öxarfirði. Seinna fór hún í fiskvinnu í Vestmannaeyjum. Saga bjó á Dvalarheimilinu Brákarhlíð í Borgarnesi tvö síðustu æviárin.
Saga verður jarðsungin frá Reykholtskirkju í Borgarfirði í dag, 2. nóvember 2013, og hefst athöfnin kl. 14.
Oft er talað um að tengdamæður geti verið bæði tannhvassar og túróttar við tengdabörnin. Ofangreind lýsingarorð áttu ekki við tengdamóður mína. Hún var mér og mínum alltaf hlý, gjafmild og góð. Ég fékk á henni matarást við fyrstu kynni, hún var frábær matmóðir. Maturinn hjá henni var einstaklega góður, oftast ekki flóknir réttir heldur venjulegur heimilismatur sem var svo vel eldaður og framborinn. Þá var nú ekki baksturinn síðri, nær alltaf til nýbakað með kaffinu. Það voru kleinur, jólakökur, marmarakökur, smjörkökur, regnbogatertur, kanilsnúðar, skonsur, harðbökur, rúgkex o.s.frv., allt einstaklega gott. Það var sko ekki nútíma lágkolvetnakúr að vera í fæði hjá henni Sögu minni. Þeir sem voru við útiverkin gátu gengið að staðgóðri hressingu á matar- og kaffitímum, það klikkaði ekki. Hún var bráðlagin við alla handavinnu og bjó fjölskyldunni hlýlegt og notalegt heimili. Saga átti ýmis áhugamál sem hún sinnti þegar tími gafst frá heimilishaldinu. Hún var í eðli sínu mikill safnari, safnaði t.d. frímerkjum, steinum, þjóðbúningadúkkum, teskeiðum og fleiru. Marga þessa gripi fékk hún frá pennavinum sem hún átti víða um heim. Ensku lærði hún ótrúlega vel í bréfaskóla og þjálfaði sig enn frekar með bréfaskiptum við tugi einstaklinga í ólíkum löndum. Pennavinum sínum endurgalt hún gjafirnar og saumaði m.a. íslenska þjóðbúninginn á allnokkrar dúkkur og sendi út til þeirra. Hún sat oft við bréfaskriftir fram á nætur enda átti vel við hana að vaka fram í nóttina eins og mun vera eðli Jökuldælinga. Hún las mikið enda er mikið til af bókum á Þorgautsstöðum og bætti hún drjúgt í safnið á seinni árum. Enga manneskju hef ég þekkt sem átti jafn létt með að ráða krossgátur. Saga var jafnlynd, hlýleg og sérlega barngóð manneskja.
Hlédræg var hún í eðli sínu og tók yfirleitt ekki mikinn þátt í samræðum þar sem nokkrir voru samankomnir. Fylgdist samt vel með og húmorinn var í góðu lagi. Það var oft gaman að tala við hana eina yfir kaffibolla, hún var oft svo skemmtilega lagin við að segja hlutina skýrt í fáum orðum. Fyrir allnokkrum árum tók að bera á minnisleysi hjá henni sem síðar var greint sem Alzheimer-sjúkdómurinn. Þessi óvægni sjúkdómur tók tiltölulega snemma frá henni málið svo síðustu árin var mjög erfitt að skilja hvað hún vildi segja. Hún tók þessum veikindum með ótrúlegu jafnaðargeði og ljúfmennsku sem sýndi hvað henni var þessi skaphöfn eiginleg. Hún bjó á Dvalarheimilinu Brákarhlíð í Borgarnesi tvö síðustu æviárin. Þar kom hún sér vel sem annarsstaðar í lífinu og starfsfólkið var einstaklega gott við hana. Þó liðin séu allnokkur ár frá því Saga mín gat boðið manni í kaffi og meðlætið sitt góða, þá kemur enn upp í hugann þegar maður er að norpa við einhver verk úti við, að nú væri gott að skreppa í kaffisopa til Sögu. Það kæmi ekki á óvart að hún biði með nýlagað kaffi og smjörköku þegar við „hittumst fyrir hinum megin“. Þangað til hlýja minningar um hana blessaða og hafi hún heila þökk mína fyrir notalega samveru í aldarfjórðung.
Árni Brynjar Bragason.
Hún hafði gaman af að ráða krossgátur seinni árin en þar kom að hún réð ekki við það og smátt og smátt fór tjáningin. Það er sárara en tárum taki að horfa á sína nánustu hverfa smátt og smátt í óminnið. Ég þakka jafnöldru minni góð kynni og geymi fallega brosið hennar í minni. Ég bið börnum, tengdabörnum og barnabörnum hennar guðs blessunar.
Gyða Ásbjarnardóttir.