Sigtryggur Sigtryggsson
sisi@mbl.is
Nýliðinn októbermánuður var mjög þurr um landið suðvestanvert og er ekki vitað um jafnþurran eða þurrari október á þeim slóðum. Aftur á móti var úrkoma með meira móti um landið norðaustanvert. Þetta kemur fram í yfirliti Trausta Jónssonar veðurfræðings á vef Veðurstofunnar.
Fram kemur hjá Trausta að hiti á landinu í október hafi verið í meðallagi áranna 1961 til 1990, eða rétt undir því. Lítillega kaldara var á landinu í október í fyrra. Vindar voru hægir og mánuðurinn var lengst af snjóléttur í byggð. Þó snjóaði nokkuð á fáeinum stöðum undir lok mánaðarins.
Meðalhiti í Reykjavík var 4,2 stig, 0,2 stigum neðan meðallags áranna 1961 til 1990 en 0,5 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Talsvert kaldara var í október 2008. Mánuðurinn var sá þriðji í röð mánaða undir meðallagi. Hafa þrír mánuðir undir meðallagi ekki komið í röð í Reykjavík síðan 1999. Hafa verður í huga að vikin nú eru mjög lítil, segir Trausti.
Hæstur meðalhiti í Surtsey
Í Stykkishólmi var meðalhitinn 4,1 stig og er það 0,3 stigum yfir meðallagi. Á Akureyri mældist meðalhiti 2,7 stig og er það 0,3 stigum neðan meðallags 1961 til 1990 en 0,4 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Á Höfn í Hornafirði var meðalhitinn 4,7 stig og -1,2 stig á Hveravöllum, það er í meðallagi.Hæstur var meðalhiti mánaðarins í Surtsey, 5,9 stig, og 5,8 á Garðskagavita. Lægstur var meðalhitinn í Sandbúðum, -2,7. Í byggð var meðalhitinn lægstur í Möðrudal, -0,1 stig. Hæsti hiti mánaðarins mældist á Kollaleiru í Reyðarfirði þann 10., 20,3 stig. Á mannaðri stöð mældist hitinn hæstur 18,4 stig þann 11. á Skjaldþingsstöðum.
Lægsti hiti mánaðarins mældist -15,4 stig á Brúarjökli þann 31. Í byggð mældist lægsti hiti -9,7 stig á Torfum í Eyjafirði þann 20. Lægsti hiti á mannaðri stöð mældist -7,5 stig í Stafholtsey þann 20.
Hitinn á Kollaleiru þann 10. er nýtt dægurmet (hæsti hámarkshiti 10. október). Eldra met var frá Teigarhorni árið 1937, 19,2 stig.
Mjög þurrt var víða um landið sunnan- og vestanvert. Úrkoman mældist aðeins 18,9 millimetrar í Reykjavík. Það er aðeins um 22% meðalúrkomu áranna 1961 til 1990. Svo lítil úrkoma hefur aldrei mælst í Reykjavík í október.
Í Stykkishólmi mældist úrkoman 13,4 mm. Það er aðeins 17% meðalúrkomu þar og hefur úrkoma aðeins tvisvar mælst minni í október en mælingar ná nær samfellt aftur til 1856. Úrkoman í október 1865 mældist 13,1 mm og 10,4 í október 1968. Á Akureyri mældist úrkoman 113,8 mm. Það er um tvöföld meðalúrkoma en mældist þó enn meiri í október fyrir tveimur árum.
Alhvítt í einn dag
Alhvítt var einn dag í Reykjavík og er það í meðallagi í október. Snjódýptin mældist þá 13 cm og hefur aldrei mælst meiri í október.Vindhraði á landinu var um 1,3 m/s undir meðallagi og var mánuðurinn meðal hægviðrasömustu októbermánaða. Meðalloftþrýstingur í Reykjavík var 1005,3 hPa og er það 3,0 hPa yfir meðallagi. Hæstur þrýstingur í mánuðinum mældist 1030,5 hPa í Surtsey þann 9.
Sólarstundir
» Sólskin í Reykjavík mældist 101,6 stundir, 18 stundum fleiri en í meðalári.
» Sólskinsstundir voru enn fleiri í Reykjavík í október í fyrra.