Guðni Einarsson
gudni@mbl.is
Skálholtsstaður hefur verið rekinn með halla í mörg ár. Kirkjumálasjóður hefur séð um að greiða af bankalánum sem urðu til vegna starfseminnar og framkvæmda á staðnum. Skuld Skálholts við Kirkjumálasjóð var um 31,2 milljónir króna í árslok 2012, samkvæmt upplýsingum frá fjármálastjóra Biskupsstofu. Ekki hefur bæst við skuldina á þessu ári.
Ljóst er að sinna þarf kostnaðarsömu viðhaldi og endurbótum á staðnum, eins og fram kom í erindi séra Kristjáns Vals Ingólfssonar vígslubiskups nýlega.
Ásbjörn Jónsson, kirkjuráðsmaður, sagði að Kirkjumálasjóður hefði lagt peninga til Skálholts til að halda rekstrinum gangandi. Hann sagði að þegar Kirkjuráð kom að málefnum Skálholts árið 2010 hefði öllu starfsfólki þar verið sagt upp. Hann sagði að Skálholt þyrfti á auknum tekjum að halda og var vonsvikinn yfir því að áform um byggingu tilgátuhúss í formi miðaldadómkirkju og aðstöðu til móttöku ferðamanna skyldu hafa verið dregin til baka.
Hópurinn sem átti hugmyndina að byggingu tilgátuhússins lagði nýlega til að kirkjuráð drægi málið til baka vegna átaka um málið innan kirkjunnar. Kirkjuráð varð við því.
Ásbjörn sagði að hugmyndin hefði verið kynnt á kirkjuþingi 2011. Kirkjuráð samþykkt í júní s.l. „að ganga til bindandi samninga við hlutaðeigandi um uppbyggingu og rekstur miðaldadómkirkju í Skálholti á grundvelli niðurstaðna verkefnahópsins, með fyrirvörum um fullnaðarfjármögnun, staðfestingu kirkjuþings 2013 og samþykkt deiliskipulag“. Þá samþykkti kirkjuráð að gerast stofnandi að sjálfseignarstofnun sem færi með eignarhald mannvirkisins. Ásbjörn sagði að einnig hefði verið hugmyndin að unnið yrði að þróun móttöku ferðamanna á staðnum.
„Það koma yfir 100.000 manns á hverju ári í Skálholt og það er engin aðstaða nú til að taka við öllu þessu fólki,“ sagði Ásbjörn. „Ég tel að Þjóðkirkjan eigi ekki að vera í ferðaþjónustu. Þarna var horft til heildarlausnar á því vandamáli. Fjármunir sem áttu að koma út úr þessu samstarfi kirkjunnar við áhugahópinn um miðaldadómkirkjuna hefðu orðið til þess að hægt væri að halda sómasamlega utan um gesti sem vildu koma í Skálholt. Þarna hefðu líka myndast tekjur sem hægt væri að nýta í Skálholti.“
Ásbjörn sagði það ekki vera gott að dýrmætt bókasafn, sem meðal annars geymir allt Hólaprent og fleiri fágætar bækur, skyldi vera geymt í turninum, engum til gagns eða sýnis. Hann sagði að sú hugmynd hefði komið fram að Þjóðkirkjan afhenti íslenska ríkinu bækurnar til varðveislu.
Gersemar undir skemmdum
Séra Kristján Valur Ingólfsson, vígslubiskup, talaði á málþingi um Skálholt 19. október s.l. og ræddi um andlega og veraldlega stöðu staðarins. Hann sagði brýnt að borga skuldir Skálholts og sagði svo:„Gluggar Gerðar Helgadóttur, þjóðargersemi, þarfnast nauðsynlegs viðhalds að liðnum 50 árum frá uppsetningu. Uppfærð kostnaðaráætlun Oidthmann-verkstæðisins í Linnich í Þýskalandi hljóðar upp á um það bil 30 milljónir.“ Hann sagði að bókasafnið í turninum, sem geymir stóran hluta elsta prents íslenskrar prentsögu, þyrfti nauðynlega að fá aðhlynningu og taka þyrfti safnið úr turninum og „ein af fimm klukkum í turninum sem gefnar voru frá Norðurlöndunum fyrir fimmtíu árum liggur brotin á gólfinu, og burðarvirki klukknanna ryðgar. Þetta er það sem mest er aðkallandi, og þolir ekki bið,“ sagði Kristján Valur.