Isavia telur sig ekki hafa heimildir til þess að grípa til ráðstafana um úthlutun afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli sem Samkeppniseftirlitið mælist til í ákvörðun sinni sem birt var í gær. Isavia hyggst áfrýja ákvörðun stofnunarinnar.
Wow Air hafði kvartað til Samkeppniseftirlitsins vegna úthlutunar á afgreiðslutímum fyrir flugvélar á flugvellinum og taldi hana samkeppnishamlandi.
Tryggi afgreiðslutíma
Samkeppniseftirlitið komst að þeirri niðurstöðu að núverandi fyrirkomulag hefði leitt til þess að Icelandair, langstærsti keppninautur Wow Air, hefði í raun haft forgang að nær öllum mikilvægustu afgreiðslutímum á flugvellinum.Auk þess hefði Icelandair notið forgangs við úthlutun á nýjum afgreiðslutímum á álagstímum sem úthlutað var í sumar þegar afkastageta Keflavíkurflugvallar var aukin. Þetta hafi að mati Samkeppniseftirlitsins skaðleg áhrif á samkeppni og hindri innkomu nýrra aðila á áætlunarflugsmarkað á Íslandi. Núverandi fyrirkomulag valdi því flugfarþegum tjóni.
Því beindi Samkeppniseftirlitið þeim fyrirmælum til Isavia að félagið tryggði keppinauti í flugi til og frá Íslandi aðgang að samkeppnislega mikilvægum afgreiðslutímum.