Forsíður Morgunblaðsins frá upphafi eru á sinn hátt merkileg heimild um sögu Íslands og Íslendinga og raunar heimsbyggðarinnar allrar. Í 100 ár hefur blaðið skýrt frá öllum stórviðburðum innanlands og utan eins og þeir hafa blasað við þegar þeir gerðust. Stundum horfa þessir viðburðir öðruvísi við þegar þeir eru löngu seinna komnir í sögubækurnar. Ekki furða að blaðafréttir eru stundum kallaðar „fyrsta uppkast sögunnar“.
Myndirnar sem hér eru birtar eru aðeins örlítið sýnishorn af forsíðufréttum blaðsins í heila öld. Val verður alltaf umdeilanlegt. En myndirnar ættu að gefa hugmynd um hvernig blaðið hefur sagt frá nokkrum stóratburðum undanfarinna áratuga.
Íslendingar fengu fullveldi árið 1918 og Morgunblaðið birti sambandslagasáttmálann í heild á sex síðum á íslensku og dönsku. Sérstakt aukablað var gefið út í fyrsta sinn til að flytja fréttina. Fyrirsögnin á forsíðunni var „Nýi sáttmáli“. Heitið vísaði til „Gamla sáttmála“ frá 1262 þegar Íslendingar glötuðu sjálfstæði sínu. Fréttir af sjálfstæðismálinu áttu eftir að vera áberandi í blaðinu næstu áratugina fram að lýðveldisstofnun 1944.
Áratugum saman voru auglýsingar hafðar á forsíðu í stað frétta. Frá því var ekki vikið nema þegar stórtíðindi urðu. Ein slík voru árið 1931 þegar Tryggvi Þórhallsson forsætisráðherra rauf þing án þess að gefa alþingismönnum kost á að koma sér saman um nýja ríkisstjórn. Þetta taldi Morgunblaðið valdarán. „Einræðisstjórn“ var fyrirsögnin yfir þvera forsíðuna af því tilefni.
Þegar Bretar hernámu Ísland í maí 1940 var búið að prenta hluta af upplagi blaðsins. Pressan var stöðvuð og tókst þá að koma fréttinni að í hluta upplagsins. Fréttir af samskiptum við aðrar þjóðir í blíðu og stríðu og togstreita innanlands vegna þeirra eru gjarnan á forsíðunni næstu árin: Hervernd Bandaríkjanna 1941, Keflavíkursamningurinn 1946, inngangan í NATO og óeirðirnar við Alþingishúsið 1949, koma varnarliðsins 1951 og landhelgisstríðin og mótmælafundirnir á sjötta áratugnum og áttunda áratugnum.
Meðal minnisstæðra forsíðna um erlenda atburði er fréttin um morðið á John F. Kennedy, forseta Bandaríkjanna, í nóvember 1963 og tunglferðin 1968. Leiðtogafundurinn í Höfða var í senn innlend og alþjóðleg frétt og viðbúnaður blaðsins vegna hans var meiri en í aðra tíð. Forsíðan um árásina á tvíburaturnana í New York 11. september er áhrifamikil svo og um hryðjuverkið í Noregi áratug síðar.
Af minnisverðum forsíðum af innlendum vettvangi á seinni hluta 20. aldar fyrir utan það sem áður er nefnt eru hér dregnar fram sem sýnishorn forsíða með Heklugosinu 1947, veitingu nóbelsverðlaunanna í bókmenntum til Halldórs Laxness 1955, brunanum á Þingvöllum 1970 þegar Bjarni Benediktsson forsætisráðherra, kona hans og dóttursonur létust, afhendingu handritanna ári síðar, kjöri Vigdísar í forsetaembætti 1980, snjóflóðinu á Flateyri 1995 og bankahruninu haustið 2008.
Á vefnum timarit.is er hægt að skoða öll tölublöð Morgunblaðsins fram til ársloka 2009. Er þar hægt að kynna sér betur þær forsíður ssem hér eru birtar og aðrar sem lesendur hefðu áhuga á að kynna sér.
Bróðurmorð í Reykjavík
„Sá voðaatburður hefir orðið hér í bænum, sem eigi á sinn líka í annálum Reykjavíkur eða landsins, og þó víðar sé leitað.“Þannig hófst frétt á forsíðu Morgunblaðsins 17. nóvember 1913 undir þriggja dálka fyrirsögn „Bróðurmorð í Reykjavík“ og undirfyrirsögninni „Júlíana Jónsdóttir byrlar Eyjólfi Jónssyni, bróður sínum, eitur, sem verður honum að bana.“ Með fréttinni fylgdi stór teikning af húsinu nr. 13 við Vesturgötu, Dúkskoti, þar sem hinn látni bjó og lagðist banaleguna.
Þessi forsíða hefur orðið fræg í sögunni, því hér getur að líta fyrstu alíslensku fréttamyndina. Það var Árni Óla blaðamaður sem rissaði upp frummyndina en Bang bíóstjóri í Nýja bíói skar í linoleum. Tæki til prentmyndagerðar voru þá engin til í landinu. Næstu daga var þessari tækni beitt áfram og birtust þá andlitsmyndir af hinum myrta og morðingjanum.
Það var ekki aðeins myndbirtingin sem braut í blað, heldur ekki síður fréttin sjálf. Aldrei áður hafði íslenskt blað fjallað svo djarflega um glæpamál. Vilhjálmur Finsen ritstjóri rifjaði seinna upp að fréttin hefði vakið mikla gremju meðal lesenda. „Fólkinu þótti syndsamlegt að segja svo opinskátt frá öllum einstökum atburðum þessa sorglega viðburðar sem þar var gert,“ skrifar hann í endurminningum sínum. „Síminn þagði ekki allan þennan dag, ég var skammaður eins og hundur og það var sagt að Morgunblaðið væri ekki lesandi o.s.frv. Það var jafnvel hringt til konu minnar og hún beðin að hafa áhrif á mig til batnaðar.“ Árni Óla segir að hin hörðu viðbrögð hafi orðið til þess að Vilhjálmur Finsen dró í land með fréttaflutning af afbrotamálum. Hafi hann þó verið sáróánægður með það og kallað undanhald.
Einir með gosfréttina
Þegar gos hófst í Heimaey um miðnætti 23. janúar 1973 voru blaðamenn Morgunblaðsins farnir heim af vaktinni. Prentun blaðsins var hafin.En viðbrögðin voru snögg þegar hringt var til blaðsins og látið vita af því hvað var að gerast. Prentvélarnar voru stöðvaðar og blaðamenn ræstir út. Forsíða blaðsins og ein innsíða voru þegar teknar frá til að rýma fyrir fréttinni.
Að morgni var Morgunblaðið eina dagblaðið sem flutti þjóðinni fréttir af atburðunum. Margir urðu agndofa þegar blaðið kom inn um lúguna, enda fáir að fylgjast með útvarpsfréttum að næturlagi.
Blaðið bætti um betur og um hádegi var gefin út tólf blaðsíðna aukaútgáfa með nánari fréttum af gosinu, viðtölum við Vestmannaeyinga, lögreglu, björgunarmenn, jarðfræðinga og forystumenn þjóðarinnar.
Enga ljósmynd var unnt að birta í blaðinu sem unnið var um nóttina, en öll forsíða aukaútgáfunnar var lögð undir mynd af eldgosinu.
Næstu daga gerði Morgunblaðið gosinu ríkuleg skil, fjallaði um björgunarstörf og brottflutning íbúanna sem voru um 5.000, viðtökur á meginlandinu og síðan tilraunir þær sem gerðar voru til að hefta útbreiðslu hraunsins með kælingu.
Gosið setti mikinn svip á þjóðlífið næstu mánuði. Vestmannaeyjar voru helsta verstöð landsins á þessum tíma og margir höfðu þungar áhyggjur af áhrifum gossins á efnahagslífið. Erlendis vakti gosið mikla athygli og nágrannaþjóðirnar buðu fram aðstoð. Eftir á að hyggja er með ólíkindum hvernig tókst að virkja krafta og samheldni þjóðarinnar á þessum tíma. Enginn lét lífið af völdum hamfaranna og ekki leið á löngu þar til Vestmannaeyingar gátu snúið aftur til síns heima. Tók þá við mikið uppbyggingarstarf.