Ég er einn þeirra sem finnst Jón Gnarr fyndinn, finnst hann góður skemmtikraftur og góður listamaður. Hann og velflestir félagar hans í Besta flokknum eru með allra skemmtilegustu vinstrimönnum sem komið hafa fram á sjónarsviðið. En sprellið í borgarstjórastólnum er of dýrt spaug. Á endanum eru þeir vinstrimenn eins og sést á rekstri borgarinnar sem bólgnar út. Undir stjórn sjálfstæðismanna í borginni hafði rekstrarkostnaður borgarinnar verið skorinn niður um tíu prósent og þrátt fyrir hrunið var útsvarsprósentan ekki hækkuð. Leitað var annarra leiða en að sækja fé í vasa borgarbúa. Það eina sem vinstrimönnum dettur í hug er hinsvegar að auka álögur á borgarbúa og það er stefnumál hjá þeim. Holræsaskattur var búinn til, fasteignaskattur hækkaður og útsvarsprósentan er í dag sú langhæsta á öllu landinu. Þessum hugsunarhætti þarf að breyta við rekstur borgarinnar.
Blómlegt menningarlíf
Það er vinstrimönnum til vansa hvernig þeir tala niður atvinnugreinar eins og sjávarútveginn og viðskiptalífið. En það er þeirra að taka til í eigin ranni. Sjálfstæðismenn hafa stundum fallið í svipaða gryfju þegar þeir tala niður menningargeirann. Við eigum að vera stolt af því hvað við höfum náð að byggja upp blómlegt menningarlíf á þessu litla landi. Reykjavíkurborg á að vera í forystu í menningarlífinu með sína öflugu innviði. Styðja við sína bestu listamenn og veita sem flestum tækifæri í þessum geira með næringarríkum jarðvegi. Allir Íslendingar njóta góðs af þeirri uppskeru.
Gjörningar borgarstjórans
Því miður eru margir gjörningar Besta flokksins í borgarstjórn miður skemmtilegir. Hvaða brandari var það að banna herskipum NATO að leggjast að bryggju í Reykjavík? Við vorum í hópi þeirra þjóða sem stofnuðu NATO og allt í einu sýnum við vinaþjóðum á borð við Dani, Norðmenn, Breta og Bandaríkjamenn svona fjandskap? Ég minni á að lýðræðisþjóð hefur aldrei hafið stríð gegn annarri lýðræðisþjóð og aldrei hefur Evrópa verið jafnfriðsæl og síðan varnarbandalagið NATO var stofnað. Ég vann sem upplýsingafulltrúi NATO í Afganistan og Írak í rúm tvö ár og var ekki skemmt við þessa uppákomu borgarstjórans. Best væri að setja eitt herskip frá NATO á lista sjálfstæðismanna og koma því alla leið inní borgarstjórn. Og láta Jón Gnarr horfast í augu við herskipið alla daga. En herskip mega víst ekki vera borgarfulltrúar. Næst best væri augljóslega að setja svona gamlan NATO-soldáta eins og mig á listann og kjósa hann inn í borgarstjórn þannig að vinstrimennirnir skilji að við sjálfstæðismenn hugsum hlýtt til NATO og það þýði ekki að fara með svona fjandskap gagnvart því bandalagi þjóða sem við erum hluti af.Höfundur er rithöfundur og leikstjóri sem gefur kost á sér í 3. sæti í prófkjöri sjálfstæðismanna í Reykjavík.