Umræða um verðtryggingu á Íslandi hefur almennt einkennst af því að kvartað er undan því að verðtryggðu lánin hækki sífellt. Því er svarað á þá leið að verðtryggingin sé skaðlaust tól sem tryggi að lánað fé rýrni ekki, en valdi engu tjóni því laun hækki að meðaltali umfram verðbólgu. Sú nálgun að verðtryggingin sé að mestu skaðlaus er röng og því miður er hún mikill skaðvaldur í íslensku þjóðfélagi.
Verðtryggingin bætir verðbólguna á kostnað allra óverðtryggðra eigna í íslenskum krónum. Hvernig má það vera? Þegar verðbætur leggjast við höfuðstól gerist það án þess að til verði verðmæti; það þýðir að verðbætur eru hrein viðbót við peningaeign. Þetta er ígildi seðlaprentunar, erfitt er að mæla með seðlaprentun þar sem sýnt hefur verið að hún leiðir almennt til verðbólgu. Þetta eitt nægir til að gera verðtrygginguna að stóru vandamáli. Verðtryggingin beinist jafnan að almenningi sem getur helst haft áhrif á verðlag í gegnum kjarasamninga, jafnan með því að gefa eftir nauðsynlegar hækkarnir. Einhver áhrif er hægt að hafa með því að stýra neyslu en verð á vörum breytist nær aldrei nema upp á við.
Hins vegar eru fjármagnseigendur sem geta t.d. stýrt framboði lána varðir fyrir áhrifum verðbólgu. Það gerist á kostnað til að mynda heimila og annarra, sjá fyrsta lið. Þetta hlýtur að þykja frekar óréttlátt og fráleitt að fjármagnseigendum sé frjálst að beita þarna aflsmuni og lána á slíkum afarkostum. Verðtryggingin beinist þannig almennt að hóp sem hefur litla möguleika til verðmyndunar en verðbætur renna almennt til hóps sem hefur mikla möguleika til verðmyndunar. Verðtryggð lán eru gríðarlega flókin fjármálaafurð. Verðtryggð lán eru í eðli sínu dæmigerður afleiðusamningur þar sem skipt er á einu tekjuflæði fyrir annað. Lánveitandi leggur fram eingreiðslu í upphafi og fær gjarnan nokkur hundruð smærri greiðslna, dreifðra yfir nokkra áratugi sem eru verðbættir m.v. vísitölu, sem ekki er hægt að slá föstu hvernig verður samsett út lánstímann. Vextir á verðtryggðum lánum á Íslandi eru fráleitt háir. Vextir í kringum 4% þykja mjög lágir en þeir duga engu að síður til að tvöfalda höfuðstól lánsins á um 18 árum. Þetta allt leiðir til þess að launahækkanir gera lítið annað en að halda í við afborganir. Eðli flestra lána á Íslandi er að greiðslubyrðin breytist lítið út lánstímann. Þannig snýst kjarasamningagerð gjarnan um karp um laun sem vanalega skilar litlu.Verðtryggingin rýrir síðan eigið fé almennings í sínu húsnæði og margir á bilinu 30–45 ára eru í raun orðnir eignalausir. Það er ekki erfitt að sjá samhengið í þeim atgervisflótta sem á sér stað á Íslandi í dag og verðtryggingu lána. Fyrir eignalaust fólk getur verið auðveldara og í raun mun eðlilegra að byrja upp á nýtt annars staðar.
Íslensku þjóðfélagi stafar mikil hætta af þessu því atgervisflóttinn er mestur hjá millitekjufólki sem er sá hópur sem við megum síst við að missa því millitekjufólk stendur undir megninu af tekjuskattsstofni landsins. En millitekjufólkið sinnir líka mikilvægum og oft nauðsynlegum störfum. Ekki er ósennilegt að þeir heilbrigðisstarfsmenn sem eru að yfirgefa landið séu einmitt orðnir eignalitlir eða eignalausir og þegar launin duga ekki lengur er skiljanlegt að fólk leiti á önnur mið.
Þannig að verðtryggingin bætir fjármagnseigendum þann skaða sem verðbólgan veldur á kostnað íslenskra heimila með peningum sem eru ekki til og veldur þannig verðbólgu. Þetta gerist þrátt fyrir innheimtu hárra vaxta og að verðtryggingin sé það flókin að erfitt sé fyrir lántakandann að gera sér grein fyrir þróun skuldbindingarinnar. Þetta veldur síðan atgervisflótta sem stórskaðar íslenskt þjóðfélag.
Verði ekkert gert gæti íslenskur veruleiki vel orðið sá að skattbyrði almennings aukist jafnt og þétt meðan atgervisflóttinn holar samfélagið að innan. Sífellt færri og færri bera þjóðfélagið uppi og erfiðara verður að halda grunnþjónustunni við. Svo ekki sé talað um aðra ríkisstarfsemi. Til að snúa þessu við er brýnt að afnema strax verðtryggingu lána. En til að koma í veg fyrir frekari tjón af völdum atgervisflótta mun reynast nauðsynlegt að bæta heimilum landsins að einhverju leyti það tjón sem 47% hækkun vísitölu neysluverðs frá janúar 2008 hefur valdið.
Höfundur er tölvunarfræðingur.