Ásta Ólafsdóttir
Ásta Ólafsdóttir
Eftir Ástu Ólafsdóttur: "Fornleifafundur á rauðum flögum sem eru mörg þúsund ára gamalt litarefni verður kveikja að umræðu um opnar vinnustofur myndlistarmanna á Íslandi."

Agnarlitlir rauðir flekkir, ekki stærri en hrísgrjón, fundust dreifðir um gráan jarðveg flæðilands árinnar Maas í Hollandi. Það var árið 1981. Nokkrum kílómetrum fjær stendur myndlistarakademía. Á þessum tíma voru þar ungir íslenskir myndlistarmenn að vinna að myndlist sinni. Einhverjir þeirra máluðu, aðrir teiknuðu, enn aðrir gerðu innsetningar, performeruðu eða tóku ljósmyndir, sumir unnu vídeóverk. Allir áttu þeir rauðan lit og þeir áttu alla hina litina líka. Þeir gátu valið um að nota hvaða lit litrófsins sem var. Það var enginn hörgull á litum. Íslensku myndlistarnemarnir sneru heim til Íslands að námi loknu. Þá höfðu rauðu flögurnar verið settar í geymslu hjá fornleifafræðistofnun og biðu nánari rannsókna.

Á þessu litla svæði við ána Maas tvinnast saman 200.000 ára saga myndlistar og íslensk samtímamyndlist. Litlu rauðu flögurnar sem fornleifafræðingar fundu voru settar í geymslu og lágu þar í mörg ár. Þegar tekist hafði að safna nægilegum styrkjum til að hefja rannsóknir á þeim var hafist handa við að mæla þær og efnagreina. Þær voru tímagreindar og gegnumlýstar og hvaðeina sem gera þarf til að rannsaka 3-5 millimetra flögur sem finnast á gráum sandi. Það var mikil ráðgáta hvers vegna rauðar flögur lágu þarna.

Á seinasta ári lágu niðurstöður rannsóknanna fyrir. Þessir agnarlitlu rauðu flekkir voru rauðbrúnt járnoxíð, litarefni sem sannaði það að myndlistariðkun af einhverju tagi var hafin fyrir 200.000 árum. Neanderdalsmaðurinn hafði notað rauðan jarðlit til að mála með. Þeir fluttu hann um langan veg því án hans gátu þeir ekki verið. Þetta er stórfrétt.

Saga myndlistar er saga sjónrænna lista á sérhverju tímaskeiði mannkynssögunnar. Öll verk eru unnin í samtíma þess sem gerir þau. Þau endurspegla þá tíma sem við lifum á. Þróun í listum er samferða þróun hugmynda okkar, upplifana og tjáningar. Samtíminn verður að sögu. Sagan verður að tímabilum. Hingað til var haldið að myndlistariðkun hefði hafist með hellamálverkum fyrir um 30.000 árum. Nú þarf að rita alla þróunarsögu mannkyns upp á nýtt vegna þessara agnarlitlu rauðbrúnu flekkja sem fundust á þeim slóðum sem vitað er að Neanderdalsmaðurinn bjó á fyrir langalangalöngu. Myndlistarsagan lengdist afturábak til samtíma Neanderdalsmannsins.

Á Íslandi starfar fjöldi listamanna við ýmis svið myndlistar. Vinna flestra listamanna er þess eðlis að þeir velja að vinna einir á vinnustofum sínum. Þess vegna loka þeir oftast að sér. Sköpun og vinna að listum þolir illa áreiti eða truflun sem setur hugann úr jafnvægi.

Einu sinni á ári höldum við Dag myndlistar hátíðlegan. Á þeim degi, 2. nóvember 2013, opna myndlistarmenn um allt land vinnustofur sínar fyrir gestum á milli kl. 14 og 17. Fólk er boðið velkomið að skoða vinnustofur og spjalla og spyrja myndlistarmenn út í vinnu þeirra. Dagur myndlistar er dagurinn þegar fjölskyldan leggur leið sína í hús þar sem vinnustofur myndlistarmanna eru, fara á milli vinnustofa, upplifa, njóta og skynja og komast að því hvað myndlistarmaðurinn gerir þegar hann er ekki að setja upp sýningar á verkum sínum.

En hvað verður nú um rauðu flögurnar sem búið er að rannsaka? Þær verða líklega settar undir gler í dauflega lýstu safni. Safngestir stara lengi á þær. Þeir finna að það vantar eitthvað. Rauðir litaflekkir á stærð við hrísgrjón er ekki nóg. Gestir safnsins sakna listamannsins sem málaði með þessum rauða lit. Þá langar að hitta Neanderdalsmanninn og spyrja hann hvernig hann notaði þetta rauðbrúna járnoxíð í verkum sínum. Hvað málaði hann? Á hvað málaði hann? Voru allir dagar hjá honum dagar myndlistar? Var hann með opna vinnustofu alla daga?

Í dag er samtími okkar. Við bíðum ekki eftir því að nútíminn verði spennandi fornleifar heldur njótum þess að hitta myndlistarmenn dagsins í dag á vinnustofum sínum. Við erum öll samtímamenn. Njótum þess og hittumst.

Nánari upplýsingar um opnar vinnustofur á Degi myndlistar er að finna á http://dagurmyndlistar.is.

Höfundur er myndlistarmaður.

Höf.: Ástu Ólafsdóttur